Útlendingar. Ríkisborgararéttur. Tafir á málsmeðferð. Yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 10850/2020)

A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um íslenskan ríkisborgararétt. 

Af svörum stofnunarinnar mátti ráða að ástæður tafanna væru af almennum orsökum, þ.e. vegna mannafla og málafjölda. Því voru ekki forsendur fyrir settan umboðsmann til að aðhafast frekar vegna málsins. Aftur á móti sendi hann dómsmálaráðherra bréf til að vekja athygli á stöðunni og spyrjast fyrir hvort ráðuneytið hygðist eða hefði gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við vandanum í í hverju það fælist.

   

Settur umboðsmaður lauk máli þessu með bréfi, dags. 22. janúar 2021, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar frá 9. desember sl. sem þér komuð á framfæri f.h. A og laut að töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hennar frá 17. febrúar 2020 um íslenskan ríkisborgararétt á grundvelli III. kafla laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt.

Í tilefni af kvörtuninni var Útlendingastofnun ritað bréf, dags. 16. desember sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknar A. Þá var þess óskað að stofnunin skýrði nánar hvernig það samræmdist þeim málshraðareglum sem byggt er á í íslenskum stjórnsýslurétti að umsóknir um ríkisborgararétt sem stofnuninni hafa borist frá og með september 2019 hafi enn sem komið er ekki verið teknar til vinnslu, og þá einkum með tilliti til þess að skilyrði fyrir því að ríkisborgararéttur verði veittur með stjórnvaldsákvörðun, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, lúta að mestu leyti að hlutlægum atriðum sem koma fram í gögnum sem umsækjendur láta stofnuninni í té samhliða umsóknum sínum. Var þessi fyrirspurn m.a. lögð fram á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um heimild umboðsmanns til þess að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

Svör Útlendingastofnunar bárust mér með bréfi, dags. 15. janúar sl. Þar kemur fram að umsókn A hafi enn sem komið er ekki verið tekin til afgreiðslu og að nú sé unnið að því að afgreiða umsóknir sem bárust í september 2019. Þá segir í bréfinu að umsóknir séu almennt afgreiddar í þeirri röð sem þær berast en þó njóti ákveðnar umsóknir forgangs. Er þar um að ræða umsóknir barna íslenskra ríkisborgara sem ekki eru með íslenskt ríkisfang og fæðast erlendis og umsóknir einstaklinga sem eru við það að missa ríkisborgararétt sitt og hafa óskað eftir því að halda honum.

Um almennar tafir á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt kemur eftirfarandi fram í bréfi stofnunarinnar:

„Ein helsta ástæða þess að málsmeðferðartími ríkisborgaraumsókna hefur dregist úr hófi fram er sú mikla vinna sem hefur farið í vinnslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis. [...] Í heildina hafa verið teknar rúmlega 1800 [slíkar umsóknir] til vinnslu frá árinu 2015. Útlendingastofnun tekur til gögn og gefur umsögn um allar umsóknir sem fara fyrir Alþingi ásamt því að mæta á fundi [allsherjar- og menntamálanefndar] vegna umsóknanna. Þessi vinna hefur gengið framar vinnslu almennra umsókna.“

Auk þess kemur fram í svarinu að stofnunin sé meðvituð um þessa stöðu og að brýnt sé að ná málsmeðferðartíma niður. Að þessu leyti kemur fram að umbótavinna hafi farið fram undanfarið í tengslum við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis og að nokkur árangur hafi náðst í að einfalda og minnka vinnu við vinnslu þeirra. Þá kemur einnig fram að unnið sé að umbótum í tengslum við afgreiðslu almennra umsókna um ríkisborgararétt. Að því leyti sé nú unnið að því í samstarfi við Stafrænt Ísland að gera umsóknarferlið rafrænt. Er áætlað að þeirri vinnu verði lokið á vormánuðum.

Af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að til þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til efnislegrar meðferðar verði viðkomandi máli að hafa verið ráðið endanlega til lykta á vettvangi stjórnsýslunnar. Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála, fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur þó almennt, og þá m.a. að virtum sjónarmiðum í lögskýringargögnum, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórnvaldinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála, enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða máli, en jafnframt til þess að fylgjast með því hvort fyrir hendi sé almennur eða kerfislægur vandi hjá stjórnvöldum að því er varðar málshraða. Umboðsmaður hefur hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórnsýslumálum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraða­reglna stjórnsýsluréttarins, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónarmiða um atriði eins og umfang og eðli máls og almennt álag í starfsemi viðkomandi stjórnvalds.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég að svo stöddu, og þá einkum með hliðsjón af því að ekki verður annað ráðið af ofangreindum svörum Útlendingastofnunar en að ástæður þeirra tafa sem orðnar eru á afgreiðslu umsóknar A séu af almennum orsökum, þ.e. vegna mannafla og málafjölda stofnunarinnar, ekki forsendur til aðhafast frekar vegna málsins. Að þessu leyti horfi ég einnig til þeirra umbóta sem unnið er að í tengslum við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt.

Kvörtunin, auk þeirra skýringa sem Útlendingastofnun hefur veitt vegna málsins, hefur þó orðið mér tilefni til þess að upplýsa dómsmálaráðherra um málið og þær almennu tafir sem verða á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt, sbr. hjálagt bréf. Líkt og að ofan greinir var fyrirspurn umboðsmanns til Útlendingastofnunar vegna kvörtunarinnar m.a. lögð fram með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um heimild umboðsmanns til þess að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Fari svo að umboðsmaður taki málsmeðferð Útlendingastofnunar að þessu leyti til frekari athugunar að eigin frumkvæði verður yður eða A ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur verður greint frá niðurstöðu umboðsmanns þar að lútandi á vefsíðu hans, www.umbodsmadur.is.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laganna

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

 


Bréf setts umboðsmanns til dómsmálaráðherra, dags. 22. janúar 2021, hljóðar svo:

   

Umboðsmanni Alþingis barst nýverið kvörtun vegna tafa á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn einstaklings um íslenskan ríkisborgararétt frá því í febrúar 2020. Í kvörtuninni, og þeim gögnum sem henni fylgdu, kom fram að Útlendingastofnun hefði veitt þau svör vegna fyrirspurna umsækjanda um stöðu málsins frá því í september og október sl. haust að umsóknin hefði enn ekki verið tekin til vinnslu og að umsóknir sem bárust í ágúst 2019 væru í vinnslu.

Í bréfi Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar sl., kemur m.a. fram að umsóknin sem kvörtunin laut að hafi enn sem komið er ekki verið tekin til afgreiðslu og að nú sé unnið að því að afgreiða umsóknir sem bárust í september 2019. Af svörunum að öðru leyti verður ráðið að ástæður þeirra tafa sem orðnar eru á afgreiðslu umsóknar viðkomandi einstaklings séu af almennum orsökum, þ.e. vegna mannafla og málafjölda stofnunarinnar, en ekki vegna atriða sem varða mál viðkomandi. Ég hef því tilkynnt viðkomandi að ég telji ekki tilefni til að aðhafast frekar í máli hans að svo stöddu. Hins vegar tel ég málið og svör Útlendingastofnunar til mín gefa mér tilefni til að rita ráðherra þetta bréf.

Um almennar tafir á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt kemur eftirfarandi fram í bréfi stofnunarinnar: 

„Ein helsta ástæða þess að málsmeðferðartími ríkisborgaraumsókna hefur dregist úr hófi fram er sú mikla vinna sem hefur farið í vinnslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis. [...] Í heildina hafa verið teknar rúmlega 1800 [slíkar umsóknir] til vinnslu frá árinu 2015. Útlendingastofnun tekur til gögn og gefur umsögn um allar umsóknir sem fara fyrir Alþingi ásamt því að mæta á fundi [allsherjar- og menntamálanefndar] vegna umsóknanna. Þessi vinna hefur gengið framar vinnslu almennra umsókna.“

Auk þess kemur fram að stofnunin sé meðvituð um þessa stöðu og að brýnt sé að ná málsmeðferðartíma niður. Að þessu leyti kemur fram að umbótavinna hafi farið fram undanfarið í tengslum við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis og að nokkur árangur hafi náðst í að einfalda og minnka vinnu við vinnslu þeirra. Þá kemur einnig fram að unnið sé að umbótum í tengslum við afgreiðslu almennra umsókna um ríkisborgararétt. Að því leyti sé nú unnið að því í samstarfi við Stafrænt Ísland að gera umsóknarferlið rafrænt. Er áætlað að þeirri vinnu verði lokið á vormánuðum og stefnt sé að því að umsóknir verði komnar til vinnslu innan sex mánaða eftir að þær berast í lok ársins 2021.

Í ljósi þess að samkvæmt 27. lið 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands farið þér og ráðuneyti yðar með yfirstjórn þess málaflokks er lýtur að ríkisborgararétti og framkvæmd laga nr. 100/1952 tel ég rétt að upplýsa yður og ráðuneytið um þær almennu tafir sem fyrir liggur að verða á umsóknum um ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun. Að þessu leyti tek ég fram að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun lúta að mestu leyti að hlutlægum atriðum sem koma fram í gögnum sem umsækjendur láta stofnuninni í té samhliða umsóknum sínum.

Þá vek ég einnig sérstaka athygli á því að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna eru ákvarðanir Útlendingastofnunar um veitingu ríkisborgararéttar undanþegar ákvæðum III.-V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að umsækjendur sem telja óhæfilegan drátt hafa orðið á afgreiðslu umsóknar sinnar geta ekki kært þann drátt til ráðuneytis yðar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 17. gr. laga nr. 100/1952, og eru því möguleikar umsækjenda sem eru í þeirri stöðu til að fá bindandi úrlausn æðra stjórnvalds, um hvort óréttlættar tafir hafi orðið á meðferð umsóknar þeirra, takmarkaðri en almennt er í stjórnsýslunni.

Í ljósi framangreinds óska ég þess jafnframt, með vísan til 7. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að dómsmálaráðuneytið veiti mér upplýsingar um hvort ráðuneytið hyggist eða hafi þegar gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem uppi er hjá Útlendingastofnun og geri mér þá grein fyrir þeim fyrirætlunum. Ef svo er ekki er þess óskað að ráðuneytið skýri ástæður þess og lýsi afstöðu sinni til þess hvort það samrýmist yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart stofnuninni með tilliti til almennra málshraðareglna stjórnsýsluréttarins og þeirra réttinda og hagsmuna sem í húfi eru.

Framangreind beiðni þessi er sett fram til þess að unnt sé að meta hvort til­efni sé til að taka framangreinda þætti í stjórnsýslu ráðuneytisins til almennrar athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem umboðsmanni er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997.

   

Kjartan Bjarni Björgvinsson