Opinber innkaup og útboð. Málefni fatlaðs fólks. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10011/2018)

A kvartaði yfir Strætó bs., kærunefnd útboðsmála og Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við útboð Strætó bs. frá árinu 2014 á akstri vegna ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu og samninga Strætó bs. sem gerðir voru í kjölfar þess.

Umboðsmaður benti á að í málinu væri vísað til úrskurða kærunefndar útboðsmála sem væru frá árunum 2015 og 2016. Því yrði ekki séð að uppfyllt væri skilyrði þess að kvörtun væri borin fram innan árs frá því stjórnsýslugerningur sá er um ræddi hefði verið til lykta leiddur. Hvað skaðabætur snerti hefði það verið afstaða sín sem umboðsmanns að fjalla ekki um slík atriði enda væri það hlutverk dómstóla. Þar sem starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa dómstóla næði það ekki heldur til starfa dómkvaddra matsmanna.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:

 

Ég vísa til erindis yðar frá 14. mars sl. þar sem þér kvartið fyrir hönd fyrirtækis yðar, X ehf., yfir Strætó bs., kærunefnd útboðsmála og Héraðsdómi Reykjavíkur vegna nánar tilgreindra atvika. Eiga þau sér rætur í útboði Strætó bs. frá árinu 2014 á akstri vegna ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu og samninga Strætó bs. sem gerðir voru í kjölfar þess, meðal annars við X ehf., og áttu að gilda í 5 ár frá 1. janúar 2015 að telja. 

Í kvörtuninni kemur fram að X ehf. hafi ásamt fleiri fyrirtækjum kært meint samningsbrot Strætó bs. til kærunefndar útboðsmála sem komst að þeirri niðurstöðu 13. ágúst 2015 í máli nr. 3/2015 að Strætó bs. væri skaðabótaskylt en engin afstaða var tekin til umfangs tjónsins. Enn fremur stóð X ehf. ásamt öðrum aðilum að annarri kæru, sbr. mál nr. 25/2015, þar sem niðurstaða kærunefndar útboðsmála frá 21. júní 2016 var á sama veg, þ.e. að Strætó bs. væri skaðabótaskylt. Að því er kærunefnd útboðsmála varðar snýr kvörtunin að því að nefndin hafi úrskurðað um bótaskyldu án þess að af því yrði nokkuð ráðið um fjárhæð bóta. Að því er Strætó bs. varðar lýtur kvörtunin að því að byggðasamlagið hafi ekki farið eftir eigin útboðsskilmálum, úrskurðum kærunefndarinnar hafi ekki verið hlítt og bótaskyldu hafnað.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Í máli þessu er vísað til úrskurða kærunefndar útboðsmála sem eru frá árunum 2015 og 2016. Því verður ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt þar sem liðið er meira en eitt ár frá því að úrskurðirnir sem kvartað er yfir voru kveðnir upp. Sama er einnig að segja um atvik og athafnir Strætó bs. frá tíma umrædds útboðs.

Af kvörtuninni verður ekki ráðið hvenær og með hvaða móti Strætó bs. hefur hafnað bótaskyldu gagnvart X ehf. en burtséð frá því hefur það verið afstaða mín sem umboðsmanns að fjalla ekki um slík atriði enda sé það hlutverk dómstóla að leiða skaðabótamál til lykta. Gildir þá einu hvort sá aðili sem telur sig eiga rétt til skaðabóta höfðar í raun mál eður ei. Kemur þar meðal annars til að við úrlausn um bótaskyldu og fjárhæð skaðabóta getur skipt máli að leggja mat á sönnunargildi skýrslna sem aðilar og þeir sem komu að máli fyrir hönd stjórnvalds gefa. Þá geta önnur sönnunargögn og mat á sönnunar­gildi þeirra einnig skipt máli. Ef bótaréttur verður talinn vera fyrir hendi kann einnig að reyna á öflun og vandasamt mat sönnunargagna um tjón og fjárhæð þess. Aðstaða umboðsmanns Alþingis og dómstóla til að taka slíkar skýrslur og framkvæma umrætt sönnunarmat er ólík. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um skaðabóta­skyldu stjórnvalda með vísan til þess að þar sé um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr, sbr. c-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með vísan til þess tel ég að það álitamál hvort fyrirtæki yðar eigi rétt á skaðabótum sé þess eðlis að úr því verði að leysa fyrir dómstólum. Með þessu hef ég þó að sjálfsögðu ekki tekið neina afstöðu til þess hvort slík málsókn væri líkleg til árangurs.

Gagnvart Héraðsdómi Reykjavíkur lýtur kvörtunin að því að dómkvaddur matsmaður hafi ekki reynst hæfur þess til mats er honum var falið. Um störf dóm­kvaddra matsmanna fer samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Í 66. gr. laganna segir að dómari skeri úr um á­greining sem rís um dómkvaðningu og hæfi matsmanns og geti enn fremur úr­skurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort mats­gerð sé nægilega rökstudd og ef ágreiningur rís um kröfu um endur­skoðun hennar eða endurmat. Samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Með vísan til þess tekur starfs­svið umboðsmanns ekki heldur til starfa matsmanna sem kvaddir hafa verið til að láta í té skoðunar- og matsgerðir í þágu dómsmáls.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar og lýkur þar með athugun minni á máli þessu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.