Heilbrigðismál. Heilbrigðisþjónusta. Framkoma opinberra starfsmanna.

(Mál nr. 10012/2018)

A kvartaði yfir því að hafa ekki getað fengið lyf endurnýjuð hjá heilsugæslunni í X vegna þess að hann hefði verið fluttur yfir á heilsugæsluna í Y. Þá óskaði A eftir því að þeir sem voru ruddalegir í framkomu við hann, þegar hann óskaði eftir upplýsingum um flutninginn, yrðu ávíttir.

Í ljósi þess að ekki kom fram í kvörtun A að skráning A á heilsugæslu í Y hefði haft áhrif á hagsmuni A og að henni hefði verið breytt þegar A kom athugasemdum sínum á framfæri taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka það atriði til athugunar. Hvað þann þátt kvörtunarinnar sem laut að framkomu í garð A benti umboðsmaður á að það væri ekki sitt hlutverk að ávíta starfsmenn stofnana með þeim hætti sem óskað væri  eftir og leiðbeindi A hvernig koma mætti þessu umkvörtunarefni í viðeigandi farveg.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. mars 2019, sem hljóðar svo:

 

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 15. mars sl., yfir því að þér hafið ekki getað fengið lyf yðar endurnýjuð hjá heilsugæslunni í X vegna þess að þér voruð fluttir yfir á heilsugæsluna í Y. Þér óskið eftir því að þeir sem voru ruddalegir í framkomu í þinn garð, þegar þér óskuðuð eftir upplýsingum um flutninginn, verði ávíttir.  

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í lögunum er gengið út frá því að megin­viðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni. Ég legg þann skilning í kvörtunina að skráningu yðar á heilsugæslustöð hafi verið breytt þegar þér gerðuð athugasemdir við hana í nóvember 2018 og að þér séuð nú skráðir á heilsugæsluna í X. Af framangreindu ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 leiðir að kvörtun verður almennt að lúta að ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Í kvörtun yðar kemur ekki fram að skráning yðar á heilsugæslu í Y hafi haft áhrif á hagsmuni yðar. Í ljósi þess að skráningu yðar á heilsugæslustöð var breytt þegar þér komuð athugasemdum yðar á framfæri og ekki kemur fram að skráningin hafi fram til þess tíma haft áhrif á hagsmuni yðar tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til athugunar.

Hvað varðar þann þátt kvörtunar yðar sem lýtur að framkomu í yðar garð tek ég fram að það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að ávíta starfsmenn stofnana með þeim hætti sem þér óskið eftir. Kvörtun yfir því hvernig einstakir starfsmenn í stjórnsýslunni rækja skyldur sínar verða almennt bornar undir þann forstöðumann sem fer með agavald gagnvart viðkomandi starfsmanni. Með þeim hætti fær forstöðumaðurinn tækifæri til að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé fyrir hann til að bregðast við gagnvart starfsmanninum. Þér getið því freistað þess að bera kvörtun yðar vegna þess sem þér teljið að hafi verið ruddaleg framkoma undir forstjóra eða eftir atvikum yfirstjórn þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem viðkomandi starfsmenn starfa en yfirstjórn viðkomandi stofnunar tekur við athugasemdum sjúklinga vegna þjónustu sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Þá er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Ef þér teljið tilefni til að nýta yður þessar leiðir en teljið yður beittan rangsleitni að fenginni afstöðu framangreindra aðila í stjórnsýslunni getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan þess sem að framan greinir tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar og lýk því umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.