Börn. Forsjá. Umgengni. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10019/2018)

A óskaði eftir að fyrri erindi sín til umboðsmanns vegna málsmeðferðar hjá sýslumanni í tengslum við sáttameðferð yrðu tekin fyrir í ljósi þess að Hæstiréttur Íslands hefði nú hafnað umsókn A um leyfi til að áfrýja niðurstöðu Landsréttar í dómsmáli A sem varðaði forsjá, lögheimili og umgengnisrétt. 

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla og því fellur það utan starfssviðs hans að fjalla um niðurstöður dómstóla.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til erindis yðar 19. mars sl. þar sem þér óskið eftir því að fyrri erindi yðar til mín verði tekin fyrir í ljósi þess að Hæstiréttur Íslands hafi nú hafnað umsókn yðar um leyfi til að áfrýja niðurstöðu Landsréttar í dómsmáli er varðar forsjá, lögheimili og umgengnisrétt við [...]. Í fyrri erindum yðar til mín, sem fengu númerin 9488/2017, 9553/2017 og 9755/2018 í málaskrá skrifstofu umboðsmanns Alþingis, kvartið þér yfir því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið gegn ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, við sáttameðferð í máli sem þér áttuð aðild að þar sem embættið hafi gefið út sáttavottorð í andstöðu við 33. gr. a. laganna.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfs­svið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um niðurstöður dómstóla í einstökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð. Kvörtun yðar nú beinist sérstaklega að þeim dómstólum eða dómurum sem hafa fjallað um mál yðar og niðurstöðum þeirra. Þá liggur fyrir að niðurstaða Landsréttar er m.a. um sömu atriði og fram hafa komið í kvörtunum yðar til mín vegna stjórnsýslu sýslumannsins á höfuðborgar­svæðinu, þ.e. hvort brotið hafi verið í bága við reglur um sáttameðferð. Það fellur því utan starfssviðs míns sem umboðsmanns Alþingis að fjalla um kvörtun yðar. Af þeim sökum verða þau gögn sem þér senduð skrifstofu minni með Wetransfer ekki sótt eða skoðuð sérstaklega.

Með vísan til þess sem rakið er að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.