Fjármála- og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10024/2019)

A kvartaði yfir innheimtu­kostnaði vegna skuldar.

Þar sem kvörtunin virtist beinast að starfsemi einkaaðila sem ekki fara með opinbert vald að lögum féll hún utan starfssviðs umboðsmanns. Umboðsmaður benti A á hvert mætti freista þess að beina erindi um of háan innheimtukostnað, þ.e. til Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands. Einnig að Neytendastofa annist eftirlit með ákvæðum laga um neytendalán.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 20. mars sl., yfir innheimtu­kostnaði vegna skuldar yðar. Samkvæmt kvörtuninni hafið þér neitað að greiða innheimtukostnaðinn vegna þess að þér teljið hann ekki vera í samræmi við ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008. Í kvörtun yðar kemur fram að þér séu ekki viss um að hverjum þér eigið að beina henni, en þér tilgreinið innheimtufyrirtækið X ehf. og skiptastjóra Y. Kvörtuninni fylgdi yfirlit frá X ehf. yfir sundurliðun á kröfum frá Z ehf. og Þ. Þá kemur fram að þér hafið gert athugasemdir við innheimtukostnað við innheimtufyrirtækið „sem var með kröfuna á undan [Æ]“.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra.

Kvörtun yðar virðist beinist að starfsemi einkaaðila, eins eða fleiri, sem ekki fara með opinbert vald sem þeim hefur verið fengið með lögum. Það fellur því utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í áður­greindum ákvæðum laga nr. 85/1997, að fjalla frekar um kvörtunarefni yðar. Í því sambandi tek ég fram að m.a. fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að hafa eftirlit með því hvernig skipta­stjóri fer með forræði sitt á málefnum þrotabús, þ. á m. hvernig hann stendur að innheimtu á kröfum í eigu búsins. Ég bendi jafnframt á að samkvæmt upplýsingum sem m.a. hafa birst í Lögbirtingablaði er skiptum á þrotabúi Y lokið.

Þrátt fyrir framangreint tel ég rétt að benda yður á að eftirlit samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 er í höndum annars vegar Fjármála­eftirlitsins og hins vegar Lögmannafélags Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna fer Fjármálaeftirlitið með leyfisveitingu samkvæmt lögunum og hefur almennt eftirlit með framkvæmd þeirra, þ. á m. eftirlit með starfsemi aðila sem hefur verið veitt innheimtuleyfi. Um eftirlitið gilda lög um opinber eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Í 1. mgr. 13. gr. a. þeirra laga er kveðið á um að Fjármála­eftirlitið skuli hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum um möguleg brot á lögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti. Lögmannafélag Íslands fer síðan með eftirlit gagnvart lögmönnum, lögmanns­stofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Þér getið því freistað þess að beina erindi um of háan innheimtukostnað undir Fjármálaeftirlitið eða Lögmannafélag Íslands, að því marki sem lög nr. 95/2008 gilda um kostnaðinn. Þau gilda ekki um löginnheimtu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Fjármáleftirlitið tekur við rafrænum ábendingum neytenda í gegnum heimasíðu sína, www.fme.is.

Þrátt fyrir að kvörtun yðar til mín virðist afmörkuð við kostnað af innheimtu umræddra krafna á hendur yður tel ég einnig rétt að benda yður á að Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga nr. 33/2013, um neytendalán. Ef þér teljið tilefni til getið þér því freistað þess að leita þangað vegna krafna umræddra aðila á hendur yður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis.