A kvartaði yfir því að einungis íbúar með lögheimili í Vestmannaeyjum fái afslátt af fargjaldi í Herjólf.
Umboðsmaður benti á að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. væri einkaréttarlegur aðili og kvörtunin þannig utan starfssviðs síns. Var A bent á að freista þess að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum á framfæri við Vestmannaeyjabæ og stjórn félagsins. Einnig að A kynni að vera fært að leita til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2019, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 24. mars sl., sem beinist að Vestmannaeyjunni Herjólfi ohf. yfir því að einungis íbúar eru með lögheimili í Vestmannaeyjum fái afslátt af fargjaldi í Herjólf. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið yður mismunað með þessu fyrirkomulagi og bendið á að þér og fjölskylda yðar eigið húseign í Vestmannaeyjum.
Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. er hlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Þar breytir engu þótt félagið sé í eigu Vestmannaeyjabæjar. Kvörtun yðar beinist þannig að starfsemi aðila sem starfar á einkaréttarlegum grundvelli. Þá felur ákvörðun um gjaldskrá félagsins ekki sér ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, sem félaginu hefur verið fengið vald til að taka með lögum, heldur byggist hún á ákvæðum þjónustusamnings við Vegagerðina sem gerður er á grundvelli 40. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.
Eins og áður segir er félagið Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. í eigu Vestmannaeyjabæjar sem jafnframt skipar í stjórn félagsins. Á vefsíðu sveitarfélagsins www.vestmannaeyjar.is eru aðgengilegar fundargerðir stjórnar. Á fundi stjórnar sem fram fór 26. október 2018 var lögð fram tillaga að gjaldskrá þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að þeir sem lögheimili hafa í Vestmannaeyjum greiði 800 kr. fyrir ferðina en aðrir 1600 kr. Teljið þér tilefni til getið þér freistað þess að koma athugasemdum yðar og sjónarmiðum á framfæri við sveitarfélagið eða eftir atvikum stjórn félagins. Í ljósi þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fer með yfirstjórn vegamála, en þar undir falla ferjur sem koma í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg og ákvarðanir um fjárveitingar vegna kostnaðar við þær í samgönguáætlun, sbr. 22. gr. vegalaga nr. 80/2007, kann yður jafnframt að vera fær sú leið að leita til ráðuneytis hans.
Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.