Samgöngumál. Skattar og gjöld. Samningur stjórnvalds við einkaaðila um rekstur ferju. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10028/2019)

A kvartaði yfir því að einungis íbúar með lög­heimili í Vestmannaeyjum fái afslátt af fargjaldi í Herjólf.

Umboðsmaður benti á að Vestmannaeyja­ferjan Herjólfur ohf. væri einkaréttarlegur aðili og kvörtunin þannig utan starfssviðs síns. Var A bent á að freista þess að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum á framfæri við Vestmannaeyjabæ og stjórn félagsins. Einnig að A kynni að vera fært að leita til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 24. mars sl., sem beinist að Vestmannaeyjunni Herjólfi ohf. yfir því að einungis íbúar eru með lög­heimili í Vestmannaeyjum fái afslátt af fargjaldi í Herjólf. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið yður mismunað með þessu fyrir­komu­lagi og bendið á að þér og fjölskylda yðar eigið húseign í Vestmanna­eyjum.

Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga og tryggja rétt borgaranna gagn­vart stjórnvöldum landsins. Sam­kvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einka­aðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Vestmannaeyja­ferjan Herjólfur ohf. er hlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Þar breytir engu þótt félagið sé í eigu Vestmannaeyjabæjar. Kvörtun yðar beinist þannig að starfsemi aðila sem starfar á einkaréttarlegum grundvelli. Þá felur ákvörðun um gjaldskrá félagsins ekki sér ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, sem félaginu hefur verið fengið vald til að taka með lögum, heldur byggist hún á ákvæðum þjónustu­samnings við Vegagerðina sem gerður er á grundvelli 40. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Eins og áður segir er félagið Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. í eigu Vestmannaeyjabæjar sem jafnframt skipar í stjórn félagsins. Á vef­síðu sveitarfélagsins www.vestmannaeyjar.is eru aðgengilegar fundar­gerðir stjórnar. Á fundi stjórnar sem fram fór 26. október 2018 var lögð fram tillaga að gjaldskrá þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að þeir sem lögheimili hafa í Vestmannaeyjum greiði 800 kr. fyrir ferðina en aðrir 1600 kr. Teljið þér tilefni til getið þér freistað þess að koma athugasemdum yðar og sjónarmiðum á framfæri við sveitarfélagið eða eftir atvikum stjórn félagins. Í ljósi þess að samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðherra fer með yfirstjórn vegamála, en þar undir falla ferjur sem koma í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg og ákvarðanir um fjár­veitingar vegna kostnaðar við þær í samgönguáætlun, sbr. 22. gr. vega­laga nr. 80/2007, kann yður jafnframt að vera fær sú leið að leita til ráðu­neytis hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis.