Heilbrigðismál. Svör við erindum.

(Mál nr. 10029/2019)

A kvartaði yfir því að heilbrigðisráðherra hefði neitað að hitta sig á fundi til að ræða hvernig mætti bæta Landspítalann. Í kvörtuninni kemur fram að A hafi einungis fengið að hitta aðstoðarmann ráðherra. Jafnframt gerði A athugasemdir við að ekki hefði verið haldin fundargerð og beiðni um rökstuðning fyrir synjun ráðherra um fund hafi ekki verið svarað.

Umboðsmaður benti A á að almennt ættu einstaklingar eða lögaðilar ekki fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða embættismenn þeir ættu samskipti vegna umleitana sinna. Almennt sé það ráðherra að meta hvort hann veiti sjálfur viðtal vegna máls eða erindis sem sé til meðferðar í ráðuneyti hans eða feli starfsmanni sínum það. A hefði fengið svar frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem fram kæmi að ráðherra veitti ekki einstaklingsviðtöl og væri ekki skylt að rökstyðja það sérstaklega. Ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við viðbrögð heilbrigðisráðherra eða ráðuneytis við umleitan A.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 22. mars sl., yfir því að heilbrigðisráðherra hafi neitað að hitta yður á fundi til að ræða hvernig bæta má Landspítalann. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið einungis fengið að hitta aðstoðarmann ráðherra sem ætli ekki að aðhafast í málum spítalans í tilefni af því sem fram kom á fundi yðar, jafnframt sem þér gerið athugasemdir við að ekki hafi verið haldin fundargerð og beiðni yðar um rökstuðning fyrir synjun ráðherra um fund með yður hafi ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtuninni tel ég rétt að benda yður á að af reglum stjórnsýslu­réttarins leiðir almennt ekki að einstaklingar eða lögaðilar eigi fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða em­bættismenn, þ. á m. ráðherra, þeir eiga samskipti við vegna umleitana sinna. Stjórnvaldi er þannig að öllu jöfnu í sjálfsvald sett hvort orðið er við ósk um aðstoð tiltekins starfs­manns eða fund með ráðherra, að því tilskildu að leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt, ef hún á við, og starfsmaðurinn sem veitir leiðbeiningarnar eða að­stoðina búi yfir fullnægjandi þekkingu til að leysa það verkefni réttilega af hendi. Almennt er það ráðherra að meta hvort hann veitir sjálfur viðtal vegna máls eða erindis sem er til meðferðar í ráðuneyti hans eða felur starfsmanni sínum að annast það.

Samkvæmt því sem kemur fram í kvörtun yðar varðar erindi yðar almennar umbætur á Landspítala og þér fenguð að ræða við aðstoðarmann ráðherra á fundi. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við viðbrögð heilbrigðisráðherra eða ráðuneytis hans við umleitan yðar.

Þér hafið í nokkrum tilvikum á þessu ári sent skrifstofu minni afrit af tölvupóstsamskiptum yðar við stjórnvöld án þess að það sé beinlínis í samhengi við yfirstandandi athugun mína á kvörtun frá yður hverju sinni. Skoðun á þessum tölvupóstum leiddi m.a. í ljós afrit af tölvupósti starfsmanns heilbrigðisráðuneytisins til yðar frá 19. febrúar sl. þar sem fram kemur að ráðherra veiti ekki einstaklingsviðtöl og svar yðar frá 21. febrúar sl. við þeim pósti þar sem þér óskið eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna ráðherra taki ekki á móti einstaklingum. Ég skil kvörtun yðar á þá leið að þessum síðarnefnda tölvupósti hafi ekki verið svarað. Í dag barst mér síðan afrit af ítrekun yðar á beiðninni. Af því tilefni tek ég fram að það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Það ræðst hins vegar af eðli erindis og málsatvika að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita erindi borgaranna. Í ljósi þess sem liggur fyrir um efni erindis yðar, viðbragða ráðuneytisins við því að öðru leyti, og þar sem ekki verður leidd af lögum skylda ráðherra til að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir hans um fundi eða viðtöl við borgarana tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til sérstakrar athugunar. Þar hef ég jafnframt í huga að þér hafið nýverið ítrekað erindið og að það kann að verða til þess að yður berist frekari viðbrögð.

Hvað varðar það atriði í kvörtun yðar sem snýr að því að aðstoðarmaður ráðherra hafi ekki haldið sérstaka fundargerð á fundi yðar tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skulu stjórnvöld gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, kemur jafnframt fram að færa skuli skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess. Á grundvelli 2. mgr. 11. gr. hefur forsætisráðherra sett reglur um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands, nr. 320/2016, þar sem nánar er fjallað um skráningu á annars vegar formlegum og hins vegar óformlegum samskiptum, þ. á m. munnlegum samskiptum á fundum. Ég tel kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, ekki gefa mér tilefni til að kalla sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og að hvaða marki upplýsingar voru skráðar í heilbrigðisráðuneytinu um fund yðar með aðstoðarmanninum.   

Með vísan til alls framangreinds tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar og lýk því hér með meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.