Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 10033/2019)

A kvartaði yfir því að skilanefnd Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hefði hafnað beiðni um upplýsingar sem lúta að starfssemi eignasafnsins á þeim grundvelli að Seðlabankinn hefði óskað eftir áframhaldandi undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga.

Umboðsmaður benti A á að hann gæti leitað eftir afstöðu úrskurðarnefndar upplýsingamála til erindisins og sér væri ekki unnt að taka málið til athugunar að svo stöddu þar sem leiðir innan stjórnsýslunnar væru ekki fullnýttar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 25. mars sl., yfir því að skilanefnd Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hafi hafnað beiðni yðar um upplýsingar sem lúta að starfssemi Eignasafnsins á þeim grundvelli að Seðlabankinn hafi óskað eftir áframhaldandi undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga. Samkvæmt þeim gögnum sem fylgdu með kvörtuninni óskaði Seðlabankinn formlega eftir áframhaldandi undanþágu með erindi til forsætisráðuneytisins, dags. 13. desember 2018, en fyrri undanþágu átti að endurskoða eigi síðar en 15. desember 2018. Það liggur fyrir að erindið er enn til meðferðar hjá ráðuneytinu en skilanefndin álítur fyrri undanþágu vera í gildi þar til niðurstaða liggur fyrir. Þér teljið undanþáguheimildina úr gildi fallna og því beri að veita yður umbeðnar upplýsingar.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta lagaákvæði er m.a. reist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindu leiðir að almennt getur ákvörðun stjórnvalds ekki komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald, sem unnt er að skjóta henni til, hefur a.m.k. fengið tækifæri til að taka afstöðu til hennar og eftir atvikum leiðrétta hana ef tilefni er til þess.

Samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 er unnt að bera ágreining sem kann að rísa á grundvelli laganna undir úrskurðarnefnd upplýsingamála, sbr. 20. gr. laganna. Nefndin skal taka afstöðu til þess hvort synjun um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum hafi verið heimil. Skilanefnd Eignasafn Seðlabanka Íslands hefur synjað yður um upplýsingar vegna undanþágu sem veitt var á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laganna en jafnframt vísað til heimildar til að takmarka aðgang að upplýsingum um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra, sbr. 4. tl. 1. mgr. 10. gr. laganna. Að yðar mati er umrædd undanþága ekki lengur í gildi. Í ljósi ofangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns Alþingis með kvörtun tel ég mér ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu en ef þér teljið tilefni til getið þér leitað eftir því að úrskurðarnefnd upplýsingamála taki afstöðu til þess hvort umrædd undanþága sé enn í gildi og til synjunarinnar að öðru leyti. Þar sem í erindi yðar kemur ekki fram hvenær yður var tilkynnt um ákvörðun skilanefndarinnar vegna erindis yðar frá 4. febrúar sl. eða hvort yður hafi verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar tel ég rétt að benda á að samkvæmt 22. gr. upplýsingalaga skal mál borið skriflega undir úrskurðarnefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Berist kæra að liðnum kærufresti kann að vera heimilt að taka hana engu að síður til meðferðar ef afsakanlegt er að hún hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar getur haft þýðingu ef ekki hefur verið leiðbeint um kæruheimild.

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég læt því máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þér getið að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um framangreind erindi yðar ef þér teljið yður þá enn beitta rangsleitni.