Eftirlit stjórnsýsluaðila. Lagaheimild. Stjórnsýsluviðurlög. Meinbugir. Málshraði. Kostnaður aðila við rekstur stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 10758/2020)

A kvartaði yfir ákvörðun endurskoðendaráðs sem varðaði kæru A á fjórum einstaklingum vegna ætlaðra brota á lögum og siðareglum endurskoðenda.

Settur umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð endurskoðendaráðs. Þá taldi hann hvorki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðsins að það hefði ekki fullnægjandi lagaheimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum vegna brota á siðareglum endurskoðenda né forsendur til að gera athugasemdir við að ekki hefði verið fallist á kröfu hans um málskostnað. Kvörtunin varð honum h.v. tilefni til að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf með ábendingu um að skoða hvort skýra þurfi lög um endurskoðendur með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

     

Settur umboðsmaður lauk máli þessu með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 12. október sl., yfir endur­skoðendaráði. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að ákvörðun ráðsins, dags. 25. ágúst sl., sem varðar kæru yðar á fjórum einstaklingum sem allir eru löggiltir endurskoðendur. Með kærunni, sem barst endur­skoðenda­ráði 28. maí 2019, fóruð þér fram á að lagt yrði fyrir ráðherra að fella niður réttindi þessara einstaklinga til að starfa sem löggiltir endur­skoðendur. Til vara að hinir kærðu yrðu áminntir vegna brota á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, og siðareglum endurskoðenda, sbr. 2. mgr. 17. gr. laganna. Að endingu að yður yrði greiddur málskostnaður að skaðlausu úr hendi kærðu, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 79/2008. Með ákvörðuninni var einn hinna kærðu áminntur en öðrum veitt tilmæli.

Af kvörtun yðar má ráða að þér gerið í fyrsta lagi athugasemdir við málsmeðferð endurskoðendaráðs og þá fyrst og fremst málshraða í þeim efnum. Athugasemdir yðar lúta meðal annars að því að endurskoðendaráð hafi óskað nánari skýringa á kæru yðar með tölvupósti, dags. 25. september 2019, og að kæra yðar hafi ekki verið send kærðu til andmæla fyrr en 5. febrúar sl. Þá gerið þér enn fremur athugasemdir við það að ákvörðun ráðsins í máli yðar hafi ekki verið birt.

Þá kvartið þér einnig yfir efnislegri niðurstöðu endurskoðenda­ráðs. Athugasemdir yðar að þessu leyti lúta að niðurstöðu endurskoðenda­ráðs um skort á lagaheimild til þess að beita kærðu viðurlögum vegna brota á siðareglum, frávísun liða 1 og 5 í kærunni, heimfærslu ráðsins á athæfi kærðu til siðareglna og laga um endurskoðendur að því er varðar trúnaðar- og þagnarskyldu og því að ekki hafi verið fallist á kröfu yðar um málskostnað vegna reksturs máls yðar fyrir endurskoðendaráði.

Fyrir liggur að ágreiningur félags yðar X ehf. og Y ehf. um greiðslur samkvæmt samningi var lagður fyrir dómstóla og að Landsréttur kvað upp dóm [...]. Ljóst er að þeir endurskoðendur sem kæra yðar til endur­skoðendaráðs beinist að störfuðu þá hjá Y ehf.

Í kjölfar kvörtunar yðar var endurskoðendaráði ritað bréf, dags. 25. nóvember sl. Svarbréf barst mér, dags. 16. desember sl., og var yður í kjölfarið gefið færi á að koma að athugasemdum við það. Athugasemdir yðar bárust mér hinn 15. janúar sl. Þar sem þér hafið fengið afrit framan­greindra bréfa tel ég óþarft að rekja efni þeirra hér að öðru leyti en nauðsynlegt er samhengisins vegna.

 

II

1

Í lögum nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, er ekki að finna lögákveðinn afgreiðslutíma þeirra mála sem er vísað til endur­skoðenda­ráðs á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laganna, sbr. áður 2. mgr. 16. gr. eldri laga nr. 79/2008, um endurskoðendur. Hins vegar er kveðið á um tiltekið málshraðaviðmið í 1. mgr. 6. gr. starfsreglna endur­skoðenda­ráðs sem samþykktar voru 19. október 2012 af ráðherra, sbr. auglýsingu nr. 1117/2012, um samþykki starfsreglna endurskoðendaráðs, með heimild í 1. mgr. 18. gr. eldri laga nr. 79/2008. Þar segir að mál sé tækt til efnismeðferðar þegar endurskoðendaráð telur málið nægjanlega vel upplýst og að ráðið skuli þá kveða á um niðurstöðu málsins að jafnaði innan mánaðar. Þá ber ráðinu að fylgja óskráðum meginreglum stjórn­sýslu­réttarins og við töku stjórnvaldsákvarðana ber að fylgja stjórn­sýslu­lögum nr. 37/1993, þ. á m. 1. mgr. 9. gr. laganna. Síðastnefnda ákvæðið kveður á um að ákvarðanir skulu teknar svo fljótt sem unnt er.

Málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga er afstæð að efni til og verður því að meta málsmeðferð heildstætt í hverju tilviki, þ.e. hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími, og líta þá til umfangs mála og atvika hverju sinni. Í þeim efnum þarf meðal annars að hafa í huga að stjórn­völdum ber að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og alla jafna veita aðilum máls kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun, sbr. 13. gr. laganna, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þá ber einnig að hafa í huga að gerðar eru ríkari kröfur til máls­meðferðar, m.a. til undirbúnings og gagnaöflunar, þegar til greina kemur að taka íþyngjandi ákvörðun gagnvart borgurum eins og við á í þessu máli.

Af gögnum málsins verður ráðið að þér lögðuð fram kæru yðar 28. maí 2019. Endurskoðendaráð hafi óskað eftir að þér skýrðuð kæruna nánar hinn 25. september 2019 þannig að það gæti tekið málið til efnislegrar með­ferðar en það hafi talið erfitt að taka afstöðu til kærunnar í því formi sem hún var lögð fram. Kæran hafi borist endurskoðendaráði að nýju 26. nóvember 2019 þar sem tveir kæruliðir voru jafnframt dregnir til baka. Af kvörtun yðar má ráða að þér teljið beiðni ráðsins hafa verið til­hæfulausa að mestu.

Af gögnum málsins má einnig ráða að þeim löggiltu endurskoðendum sem kæra yðar beindist að hafi verið gefinn kostur á að leggja fram andmæli 5. febrúar sl. sem bárust ráðinu 24. og 25. febrúar, 28. apríl og 2. maí sl. Yður hafi í kjölfarið verið send andmæli þeirra til athuga­semda og þér skilað athugasemdum yðar til ráðsins 5. júní sl. Hinum kærðu hafi auk þess verið kynnt andmæli yðar í lok júní sl. Ráðið hafi að endingu tekið ákvörðun í málinu 25. ágúst sl.

Í skýringum endurskoðendaráðs til mín varðandi tafir málsins kemur m.a. fram að endurskoðendaráð hafi fjallað um mál yðar á fundi 20. júní 2019 sem og 22. ágúst 2019. Starfsmaður ráðsins hafi í kjölfarið unnið saman­tekt á dómum héraðsdóms og Landsréttar í máli yðar og á næsta fundi, eða 25. september 2019, hafi kæran verið rædd og starfsmenn verið sam­mála um að þörf væri á nánari skýringum á tilteknum atriðum, svo sem aðild málsins og lögvörðum hagsmunum yðar í ljósi þess að þér höfðuð þá selt endurskoðunarfyrirtæki yðar. Þá var enn fremur bent á að kæran hafi samanstaðið af bréfi lögmanns yðar, kæru yðar og öðrum skjölum. Endurskoðendaráð hafi talið að málatilbúnaður í bréfi lögmanns yðar og kæru yðar væri ekki sá sami. Um áramótin 2019-2020 hafi orðið breyting á skipan endurskoðendaráðs. Ráðið hafi í kjölfarið fjallað um mál yðar á fundum 6. og 27. janúar 2020, 3. mars sl., 3. og 16. apríl sl., 20. maí sl., 15. og 25. júní sl. Inn í hafi jafnframt spilað sumarleyfi starfs­manna. Málið sé mjög umfangsmikið, framsetning þess flókin og ágreinings­efnin mörg auk þess að beinast að fjórum aðilum á mismunandi hátt. Í bréfi endurskoðendaráðs er það þó nefnt að ráðið hefði mátt senda yður formlegt bréf og gera yður grein fyrir því að meðferð málsins myndi tefjast.

Með hliðsjón af framangreindu, því að til greina kom að taka ákvörðun um stjórnsýsluviðurlög, sem og varð raunin, og umfangi málsins að öðru leyti tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athuga­semdir við málsmeðferð endurskoðendaráðs og þann málshraða sem ráðið við­hafði í máli yðar. Í þessum efnum hef ég í huga að endurskoðendaráð tekur fram í bréfi sínu til mín að betur hefði mátt standa að því að upp­lýsa yður um tafir málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórn­sýslu­laga.

Þá tel ég einnig ekki tilefni til að gera athugasemdir við það að endurskoðendaráð hafi óskað nánari skýringa á kæru yðar. Hef ég hér m.a. hliðsjón af beiðni endurskoðendaráðs að þessu leyti, skýringum þess til mín og 3. og 5. mgr. 5. gr. framangreindra starfsreglna endurskoðenda­ráðs en af þeim má leiða að endurskoðendaráði sé heimilt að beina því til aðila að leggja fram frekari gögn eða veita ráðinu frekari skýringar.

Hvað birtingu ákvörðunar endurskoðendaráðs í máli yðar varðar liggur nú fyrir að hún hefur verið birt á heimasíðu ráðsins www.endurskodendarad.is. Ég tel því ekki tilefni til að taka þennan þátt málsins til frekari skoðunar.

2

Að því er varðar þann hluta kvörtun yðar sem lýtur að efni ákvörðunar endurskoðendaráðs þá fæ ég ekki annað séð en að hann lúti í megin­atriðum að þeirri niðurstöðu ráðsins að það telji sig skorta laga­heimild til þess að beita þá löggiltu endurskoðendur sem kæra yðar beindist að viðurlögum vegna atvika sem rekja má til brota á siðareglum.

Ljóst er að þegar kæra yðar barst endurskoðendaráði 28. maí 2019 voru í gildi lög nr. 79/2008, um endurskoðendur. Í V. kafla þeirra laga var fjallað um hlutverk endurskoðendaráðs. Um það sagði í 1. mgr. 15. gr. laganna að hlutverk ráðsins væri að hafa eftirlit með því að endur­skoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laganna, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 79/2008 var sérstaklega tilgreint að endur­skoðendur skyldu fylgja siðareglum sem Félag löggiltra endurskoðenda setti. Í 2. mgr. 17. gr. laganna var síðan mælt fyrir um það að ef endur­skoðendaráð teldi sýnt að endurskoðandi hefði í störfum sínum brotið gegn lögunum svo að ekki yrði við unað skyldi það í rökstuddu áliti veita viðkomandi aðila áminningu eða leggja til við ráðherra að réttindi endurskoðandans yrðu felld niður.

Á meðan endurskoðendaráð hafði mál það sem kvörtun yðar lýtur að til meðferðar voru lög nr. 79/2008 hins vegar felld úr gildi með setningu laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. síðastnefndu laganna tóku þau gildi 1. janúar 2020.

Með lögum nr. 94/2019 voru gerðar nokkrar breytingar á þeim reglum sem giltu um endurskoðendur og jafnframt hlutverki endurskoðendaráðs í því sambandi. Þannig var með lögunum gerð sú breyting að endurskoðendum er ekki lengur skylt að eiga aðild að Félagi löggiltra endurskoðenda eins og áður var samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 79/2008. Í því samhengi er rétt að geta þess að í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/2019 segir nú að endurskoðandi skuli rækja störf sín í samræmi við m.a. siða­reglur endurskoðenda. Þar er aftur á móti ekki vísað sérstaklega til þess að endurskoðendur skyldu fylgja siðareglum Félags löggiltra endur­skoðenda eins og raunin hafði verið í eldri lögum.

Í samræmi við þessa breytingu var hlutverki endurskoðendaráðs einnig breytt og nú lýst þannig í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 94/2019 að það sé hlutverk ráðsins að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endur­skoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laganna, góða endur­skoðunarvenju, siðareglur endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda. Rétt eins og með 1. mgr. 14. gr. er ekki í þessu ákvæði að finna tilvísun til siðareglna Félags löggiltra endur­skoðenda eins og var í áðurgildandi ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 79/2008.

Um heimildir endurskoðendaráðs til að beita löggilta endurskoðendur viðurlögum er síðan fjallað í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 94/2019. Segir þar að ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki brýtur gegn lögunum eða vanrækir alvarlega skyldur sínar að öðru leyti að mati endur­skoðenda­ráðs sé því heimilt að fella réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis úr gildi. Sé brot ekki stórfellt skuli áminna geti endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki en einnig getur endurskoðendaráð í slíkum tilvikum fellt réttindi viðkomandi endur­skoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis tímabundið úr gildi í allt að þrjú ár, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Af forsendum endurskoðendaráðs í ákvörðun þess frá 25. ágúst má ráða að það hafi ekki talið fyllilega skýrt við hvaða siðareglur sé átt í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/2019 þegar það tók ákvörðun í málinu 25. ágúst sl. Það hafi leitt til þeirrar afstöðu að ráðið telji sig ekki hafa fullnægjandi lagaheimildir til þess að beita viðurlögum samkvæmt X. kafla laganna vegna atvika sem rekja má til brota á siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda.

     Eftir að hafa kynnt mér lagagrundvöll málsins og þegar litið er til þeirra lagabreytinga sem raktar eru hér að framan tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu endurskoðendaráðs. Hef ég þá meðal annars í huga að þegar kemur að beitingu stjórn­sýslu­viður­laga leiðir af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvöld geta ekki tekið ákvarðanir um beitingu stjórnsýsluviðurlaga, eins og á reynir í máli þessu, nema valdheimildir þeirra að því leyti eigi skýra stoð í gildandi lögum þegar ákvörðun er tekin. Í því samhengi sem hér um ræðir verður einnig að líta til þess að ákvörðun endurskoðendaráðs um beitingu viðurlaga er beint að þeim endurskoðanda sem eftirlit ráðsins lýtur að, en ekki þeim sem vísar máli til ráðsins, og varðar réttindi hans og hags­muni.  

     Hvað varðar þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að málskostnaði, tel ég rétt að nefna að sú meginregla gildir í íslenskum rétti að menn verða alla jafna sjálfir að bera kostnað sem þeir hafa af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim. Í lögum er þó að finna undan­tekningar frá þessari meginreglu, m.a. í 4. mgr. 37. gr. laga nr. 94/2019 þar sem segir að endurskoðendaráði sé heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu. Sömu reglu var áður að finna í 4. mgr. 16. gr. laga nr. 79/2008. Í frumvörpum þeim er urðu að lögum nr. 94/2019 og 79/2008 er sérstaklega áréttað að um sé að ræða undantekningu og því sé endurskoðendaráði aðeins heimilt að leggja framangreinda skyldu á máls­aðila þegar sérstaklega stendur á. (Sjá Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 4788 og þskj. 365 á 149 löggjafarþingi 2018-2019, bls. 36.)

Í lögum og lögskýringargögnum er ekki fjallað um þau sjónarmið sem endurskoðendaráði ber að hafa í huga við töku ákvörðunar í þessum efnum að öðru leyti en að framan greinir. Með reglu þessari hefur löggjafinn því falið endurskoðendaráði svigrúm til þess að meta hvort aðstæður séu með þeim hætti að tilefni sé til að skylda málsaðila til að greiða gagn­aðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir ráðinu. Af ákvörðun endurskoðendaráðs má ráða að ráðið hafi ekki talið tilefni til að fallast á kröfu yðar með hliðsjón af málavöxtum og atvikum máls að öðru leyti.

Með hliðsjón af þeirri almennu lögskýringarreglu í íslenskum rétti að túlka beri undanþágureglur laga þröngt sem og því svigrúmi sem löggjafinn hefur veitt endurskoðendaráði við mat á því hvort aðstæður séu með þeim hætti að tilefni sé til að verða við kröfu um greiðslu máls­kostnaðar úr hendi gagnaðila tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar að þessu leyti.

Að virtum rökstuðningi endurskoðendaráðs, lagagrundvelli málsins og atvikum að öðru leyti tel ég að lokum ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við frávísun ráðsins á liðum 1 og 5 í kæru yðar eða fjalla nánar um þá afstöðu yðar að viðkomandi endurskoðendur hafi með háttsemi sinni í yðar garð jafnframt gerst brotlegir við trúnaðar- og þagnar­skyldu sína samkvæmt lögum. Þar hef ég einkum hliðsjón af lögbundnu hlutverki og valdsviði ráðsins og inntaki þeirra verndarhagsmuna sem 30. gr. gildandi laga nr. 94/2019 er ætlað að tryggja.

 

III

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu. Umfjöllun minni um mál yðar er hér með lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Kvörtun yðar hefur hins vegar orðið mér tilefni til þess að rita atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti þar sem ég kem tiltekinni ábendingu á framfæri.

Hinn 1. nóvember sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

 

 

                               Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

 


    

Bréf setts umboðsmanns til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, dags. 9. febrúar 2021, hljóðar svo:

     

I

Ég hef haft til meðferðar kvörtun einstaklings yfir endur­skoðenda­ráði. Nánar tiltekið lýtur kvörtun hans m.a. að því að endurskoðendaráð hafi talið sig skorta lagaheimild til þess að beita þá sem hann kvartaði yfir til ráðsins viðurlögum vegna brota á siðareglum í kjölfar gildis­töku laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til þessa einstaklings, sem fylgir nafn­hreinsað hjálagt í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtun hans með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það tel ég rétt að vekja athygli ráðu­neytis yðar á eftirfarandi atriðum.

 

II

Í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, er kveðið á um það að ef endurskoðandi eða endurskoðunar­fyrirtæki brýtur gegn framangreindum lögum eða vanrækir alvarlega skyldur sínar að öðru leyti að mati endurskoðendaráðs sé því heimilt að fella réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis úr gildi. Sé brot ekki stórfellt skuli áminna viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki en einnig getur endurskoðendaráð í slíkum tilvikum fellt réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunar­fyrir­tækis tímabundið úr gildi í allt að þrjú ár, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Í eldri lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, var að finna ákvæði um viðurlög í 2. mgr. 17. gr. laganna. Þar kom fram að ef endurskoðenda­ráð teldi sýnt að endurskoðandi hefði í störfum sínum brotið gegn lögunum svo ekki yrði við unað skyldi endurskoðendaráð í rökstuddu áliti veita við­komandi aðila áminningu eða leggja til við ráðherra eða réttindi endur­skoðandans yrðu felld niður.

     Í lögum nr. 79/2008 var tilgreint í 2. mgr. 8. gr. að endur­skoðendur skyldu fylgja siðareglum sem Félag löggiltra endur­skoðenda setti. Sú breyting var gerð með lögum nr. 94/2019 að endurskoðendum er ekki lengur skylt að eiga aðild að Félagi löggiltra endurskoðenda eins og áður var samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 79/2008. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/2019 segir að endurskoðandi skuli rækja störf sín í sam­ræmi við m.a. siðareglur endurskoðenda. Þar er aftur á móti ekki vísað til tiltekinna siðareglna, svo sem siðareglna Félags löggiltra endur­skoðenda, eins og áður.

     Forsendur endurskoðendaráðs í máli framangreinds einstaklings gefa til kynna að ráðið hafi ekki talið fyllilega skýrt við hvaða siðareglur sé átt í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/2019 og þar með hvaða siðareglum endurskoðendum ber nú að fylgja. Í kjölfarið hafi ráðið ekki talið full­nægjandi lagagrundvöll fyrir hendi til þess að beita viðurlögum sam­kvæmt X. kafla laganna vegna atvika sem rekja má til brota á siða­reglum Félags löggiltra endurskoðenda. Nánar tiltekið segir eftirfarandi í úrlausn endurskoðendaráðs:

„Þegar atvik þessa máls áttu sér stað voru í gildi lög nr. 79/2008, um endurskoðendur. Í 2. mgr. 17. gr. laganna var að finna skýra heimild endurskoðendaráðs til að beita viðurlögum, m.a. í formi áminningar, í þeim tilvikum sem brotið var gegn ákvæðum laganna, þ.m.t. 2. mgr. 8. gr. þeirra þar sem kveðið var á um skyldu endurskoðanda til að hlíta siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda. Í núgildandi lögum nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, er að finna hliðstætt viðurlagaákvæði í 48. gr. laganna. Samkvæmt þeim lögum var þó sú grundvallarbreyting gerð að endurskoðendum er ekki lengur skylt að eiga aðild að Félagi löggiltra endurskoðenda. Í 1. mgr. 14. gr. laganna er kveðið á um skyldu endurskoðenda til að hlíta siðareglum án þess þó að tilgreint sé við hvaða siðareglur sé átt. Í ljósi framangreinds telur endurskoðendaráð að lagastoð skorti varðandi heimildir ráðsins til að beita viðurlögum skv. X. kafla laga nr. 94/2019 vegna atvika, sem rekja má til brota á siðareglum. Er það því niðurstaða ráðsins að beita ekki slíkum viðurlögum í tengslum við úrlausnir mála sem ráðinu berst og varða brot á siðareglum að óbreyttum lögum.“

Af frumvarpi því er varð að lögum nr. 94/2019 verður ekki fyllilega ráðið hvort ætlunin hafi verið að breyta því fyrirkomulagi sem áður gilti, þ.e. að endurskoðendum sé skylt að fylgja siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda og að endurskoðendaráð geti beitt viðurlögum vegna brota á þeim reglum. Það sem mælir aftur á móti með þeirri ályktun að hið eldra fyrirkomulag hafi átt að halda sér er m.a. það að í athuga­semdum við 14. gr. laganna kemur fram að alþjóðasamtök endur­skoðenda gefi út siðareglur endurskoðenda og að Félag löggiltra endur­skoðenda hafi látið þýða þær og ráðherra staðfest á sínum tíma. (Sjá þskj. 365 á 149 löggjafarþingi 2018-2019, bls. 31.)

Á hinn bóginn má af umsögn Félags löggiltra endurskoðenda til nefndasviðs Alþingis í tengslum við setningu laga nr. 94/2019, dags. 26. nóvember 2018, ráða að löggjafinn hafi verið upplýstur um þann vafa sem lögin bera með sér að því er varðar það hvaða siðareglum endur­skoðendum ber að fylgja. Í þessum efnum kemur eftirfarandi fram í umsögninni:

„Í núgildandi lögum um endurskoðendur er þeim gert skylt að hlíta siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda. FLE hefur gefið út siðareglur sem byggja á siðareglum Alþjóðasambands endur­skoðenda (IFAC). Var það meðal annars vegna lagaskyldu að Félag löggiltra endurskoðenda myndi setja og viðhalda siðareglunum. Í frumvarpinu núna er áfram gerð krafa um að endurskoðendur fylgi siðareglum en ekki vísað í hverjar þær eru. Ekki er hægt að gera kröfur til þess að FLE viðhaldi siðareglum sem engin krafa er um að verði fylgt.

Að mati FLE er um afturför að ræða og mun skapast sama óvissa og um Alþjóðlega endurskoðunarstaðla, þ.e. eftir hvaða siðareglum endurskoðendum ber að fara, hver setur þær og viðheldur þeim og að þær hafi þá lagastoð sem þarf til fylgja eftir notkun þeirra.“

Þá er það svo að í 1. mgr. 21. gr. tilskipunar nr. 2006/43/EB frá 17. maí 2006, um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE og um niðurfellingu á til­skipun ráðsins 84/253/EBE, segir að aðildarríki skuli tryggja að allir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki hlíti siðareglum starfs­stéttar, sem ná a.m.k. til starfa þeirra í þágu almennings, ráðvendni þeirra og hlutlægni, sem og starfshæfni og tilhlýðilegrar kostgæfni.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til málsaðilans taldi ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu endurskoðendaráðs að þessu leyti eftir að hafa kynnt mér lagagrundvöll málsins. Hef ég þá einkum í huga að af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiðir að stjórnvöld geta ekki tekið ákvarðanir um beitingu stjórnsýsluviðurlaga án þess að slík ákvörðun styðjist við skýra og ótvíræða lagaheimild.

Í skýringum endurskoðendaráðs til mín, dags. 16. desember sl., kemur fram að ráðið hafi vakið athygli atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytisins á framangreindri afstöðu ráðsins með bréfi, dags. 7. september sl., og vísað til þess að það teldi brýnt að gerðar yrðu breytingar á lögum um endurskoðendur og endurskoðun sem allra fyrst. Í bréfinu hafi komið fram að ráðið teldi mikilvægt að lögfest yrðu skýr ákvæði um hverjum bæri að setja siðareglur fyrir endurskoðendur og hvernig birtingu þeirra yrði háttað þannig að tryggt yrði að endurskoðendaráð gæti beitt viðurlögum við brotum á siðareglum endurskoðenda. Ekki liggur fyrir að brugðist hafi verið við framangreindu af hálfu ráðuneytisins.

Í ljósi framangreinds er þeirri ábendingu þó hér með komið á fram­færi við ráðuneytið að taka til skoðunar hvort skýra þurfi umrætt lagaumhverfi, og þá m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, þannig að fyrir liggi m.a. hvaða siðareglum endurskoðendum ber að fylgja samkvæmt lögunum.

Ég óska þess að ráðuneyti yðar upplýsi mig um hvort ábending þessi hefur orðið því tilefni til einhverra viðbragða, eftir atvikum til þess að unnt verði að gera grein fyrir því í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2021. Enn fremur til þess að leggja síðar mat á hvort tilefni sé til frekari umfjöllunar af hálfu umboðsmanns Alþingis um þau laga­atriði sem hér reynir á, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.

 

 

                               Kjartan Bjarni Björgvinsson