Almannatryggingar. Ellilífeyrir. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 10042/2018)

A kvartaði yfir ávörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur ellilífeyris til hans frá og með 1. apríl 2017 og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesta hana.

Þar sem kvörtunin barst ekki innan árs frá því er stjórnsýslugerningurinn var til lykta leiddur brast lagaskilyrði til að umboðsmaður tæki hana til athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 28. mars sl., sem lýtur að ávörðun Tryggingastofnunar um stöðvun á greiðslu ellilífeyris til yðar frá og með 1. apríl 2017. Á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtun yðar er úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. október 2017, þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar var staðfest með vísan til þess að stofnun­inni sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um tekjur yðar til að geta tekið ákvörðun um bótarétt yðar og er í niðurstöðukaflanum vísað til til­tekinna ákvæða í B-hluta V. kafla laga nr. 100/2007, um almanna­tryggingar, sem fjallar um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórn­sýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Það er ljóst að þær ákvarðanir sem kvörtun yðar beinist að voru teknar á árinu 2017 en úrskurður úrskurðarnefndarinnar er frá 11. október 2017. Því fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt þar sem liðið er meira en eitt ár frá því að endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi lá fyrir í máli yðar.

Með vísan til framangreinds brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað um kvörtun yðar og lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.