Veiðimál og veiðiréttindi. Lax- og silungsveiði. Rannsóknarhlutverk Hafrannsóknarstofnunar. Birting upplýsinga á vefsíðu. Svör stjórnvalda við erindum sem þeim berast. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Svör stjórnvalds til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10358/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir að Hafrannsóknastofnun hefði notað rannsóknargögn frá sér án heimildar og birt niðurstöður um þau í frétt á vefsíðu stofnunarinnar og án þess að hans væri getið. Jafnframt laut kvörtun hans að því hvernig brugðist hefði verið við athugasemdum hans í kjölfarið. Rannsóknargögn A lutu að upprunagreiningu strokulaxa sem Matís ohf. hafði greint fyrir A. Athugun setts umboðsmanns beindist að hvort stofnuninni hafi verið heimilt að birta umræddar upplýsingar og hvernig leyst var úr erindum hans þegar hann gerði athugasemdir við birtinguna.

Settur umboðsmaður benti á að Hafrannsóknastofnun hefði þegar atvik málsins áttu sér stað ákveðið hlutverk að lögum um að sinna rannsóknum á sviði fiskeldis. Þrátt fyrir það yrði hvorki dregin sú ályktun af lögum að einkaaðilum sem stunduðu rannsóknir á sama sviði væri skylt að afhenda Hafrannsóknastofnun rannsóknargögn né að stofnunin gæti notað og birt þau gögn án tillits til vilja þeirra sem ættu gögnin. Ef stofnuninni bærust slík gögn, til dæmis vegna beiðni um aðstoð við rannsóknir, hefði hún því ekki frjálsar hendur um hvernig hún færi með gögnin heldur væri hún bundin af þeim skráðu og óskráðu reglum sem giltu um starfsemi hennar sem og þeim reglum sem giltu um réttindi þess einkaaðila sem leituðu til hennar um aðstoð. Í þessu sambandi yrði að hafa í huga að stofnunin gegndi sem stjórnvald þjónustuhlutverki gagnvart borgurunum samkvæmt lögum. Miklu varðaði að hún hagaði samskiptum við þá og færi með erindi þeirra og upplýsingar sem kæmu fram í samræmi við efni þeirra.

Settur umboðsmaður vakti athygli á að Hafrannsóknastofnun hefði, eftir samskipti við umboðsmann Alþingis, viðurkennt mistök í málinu og beðið A afsökunar á birtingu fréttarinnar. Af þeim sökum og í ljósi þess sem fælist í kröfunni um vandaða stjórnsýsluhætti skyti skökku við að stofnunin hefði ekki leiðrétt fréttina til samræmis við eigin afstöðu og beiðni A. Taldi hann rétt að stofnunin gerði þegar í stað reka að því að leiðrétta fréttina. Þá taldi settur umboðsmaður að stofnunin hefði ekki brugðist við erindum A í samræmi við kröfur sem væru gerðar um hátterni opinberra starfsmenna og sem leiddu af grundvallarreglunni um að stjórnvöldum beri að svara skriflegum erindum sem til þeirra er beint skriflega nema erindi beri með sér að svars sé ekki vænst og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða. Að lokum gerði settur umboðsmaður athugasemdir við að skýringar Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns hefðu ekki verið í samræmi við þau sjónarmið sem lög um umboðsmann Alþingis byggðust á.

Settur umboðsmaður beindi því til Hafrannsóknastofnunar að erindi A yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að hún færi þá með það í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að stofnunin hefði að öðru leyti þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.

    

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 8. janúar 2020 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir að Hafrannsóknastofnun hefði án heimildar notað rannsóknargögn frá sér og birt niðurstöður um þau í frétt á vefsíðu stofnunarinnar 21. desember 2018 og án þess að hans væri getið. Umrædd rannsóknargögn voru upplýsingar úr rannsóknarveiðum félagsins X ehf., sem er í eigu A, í [tiltekinni á] og byggðust á arfgerðargögnum félagsins um þá fiska.

A kvartaði jafnframt sérstaklega yfir því hvernig forstjóri Hafrannsóknastofnunar og sviðsstjóri hjá stofnuninni brugðust við athugasemdum hans í kjölfarið. Í því sambandi nefnir A að þegar honum hafi orðið ljós notkun gagnanna og að niðurstöður um þau hafi verið birtar án heimildar hafi hann leitast eftir að stofnunin bæði hann afsökunar og breytti fréttinni þannig að þess yrði getið að stuðst hafi verið við gögn frá honum. Hafrannsóknastofnun hafi hins vegar ekki orðið við því.

Í framhaldi af samtali umboðsmanns við forstjóra Hafrannsóknastofnunar eftir að stofnuninni höfðu verið send tvö fyrirspurnabréf og þeim svarað sendi stofnunin A bréf 6. ágúst 2020 þar sem mistök voru viðurkennd og hann beðinn velvirðingar á þeim. A hefur hins vegar bent á að langur tími hafi liðið frá því að hann leitaði til Hafrannsóknastofnunar vegna málsins þar til honum barst bréfið. Hann hefur einnig vakið athygli á að fréttin á vefsíðu stofnunarinnar frá 21. desember 2018, sem hann kvartaði yfir, standi enn óbreytt. Þá hafi stofnunin aftur birt niðurstöður um gögnin frá honum í skýrslu í mars 2020 en hvorki getið heimildar né þess að gögnin væru frá honum komin og kynnt skýrsluna á opnum fundi 19. mars 2020.

Athugun mín á þessari kvörtun hefur beinst að hvernig Hafrannsóknastofnun notaði gögnin frá A og birti niðurstöður um þau í áðurnefndri frétt á vefsíðu sinni. Hefur athugun mín þá jafnframt tekið til þess hvort og þá að hvaða leyti stjórnvöldum er heimilt að nota og birta gögn sem einstaklingur eða lögaðili lætur þeim í té um eigin vísindarannsókn vegna beiðni um aðstoð við slíka rannsókn án þess að þau fái samþykki til þess. Athugun mín hefur einnig tekið til þess hvernig Hafrannsóknastofnun brást við athugasemdum A eftir að stofnunin birti fréttina, en fréttin var enn birt á heimasíðu stofnunarinnar 28. apríl 2021.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. apríl 2021. 

    

II Málavextir

A er eigandi X ehf. og sinnir rannsóknum fyrir félagið. Á árinu 2018 veiddi hann tvo laxa í [tiltekinni á] í þágu rannsóknar á eldislöxum í íslenskum ám og uppruna þeirra. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að rannsóknin hafi verið unnin fyrir viðskiptavini félagsins sem séu veiðiréttarhafar og að þeir hygðust nýta niðurstöður hennar í málaferlum.

Eftir að hafa veitt laxana leiddi athugun A í ljós að líkur væru á að þeir væru eldislaxar. Í framhaldi leitaði hann til Matíss ohf. og keypti af félaginu rannsóknarþjónustu til að greina sýni úr fiskunum í því skyni að staðfesta að um væri að ræða eldislaxa úr sjókvíaeldi og frá hvaða sjókvíaeldisstöðum laxarnir hefðu sloppið.

Um svipað leyti hafði A samband við Matvælastofnun til að fá gögn og upplýsingar frá stofnuninni vegna rannsóknarinnar sem gerðu honum kleift að rekja frá hvaða kvíum eldislaxarnir hefðu sloppið. Í samskiptum við stofnunina í október 2018 kom fram að slíkar upplýsingar væru til en að Matvælastofnun hefði aðeins yfir að ráða lífsýnum. Þau væru afhent Hafrannsóknastofnun til erfðagreiningar.

A leitaði því til Hafrannsóknastofnunar í kjölfarið. Í tölvupósti 7. nóvember 2018 greindi hann stofnuninni frá rannsókn sinni sem og fyrri samskiptum sínum við Matís ohf. og Matvælastofnun. Hann tók meðal annars fram að Matvælastofnun hefði bent honum á að Hafrannsóknastofnun gæti útvegað honum viðmiðunargögn sem þörf væri á svo rekja mætti uppruna eldislaxa til eldisaðila og eldisstaðar.

Þá sagði að ef hann hefði skilið samskipti sín við Matvælastofnun rétt hefði Hafrannsóknastofnun því hlutverki að gegna samkvæmt lögum um fiskeldi að láta Matís ohf. vinna þau sýni sem til þyrfti svo rekja mætti uppruna þeirra eldislaxa sem veiddust eftir að hafa strokið úr eldi. Yfirleitt léti Hafrannsóknastofnun Matís ohf. einnig vinna sýni ætlaðra eldislaxa, en í þessu tilfelli vildi svo til að fiskarnir væru veiddir í rannsókn hans og sæi hann því „um þann þátt úrvinnslunnar sem og fyrstu kynningu niðurstaðna er málið [varðaði]“.

Í niðurlagi tölvupóstsins áréttaði A að um væri að ræða beiðni um afnot af viðmiðunargögnum sem þörf væri á til að rekja mætti uppruna laxanna. Auk þess óskaði hann eftir að honum yrði leiðbeint eftir því sem þörf væri á um hvernig hann skyldi bera sig að um frekari framgang beiðninnar gagnvart Hafrannsóknastofnun.

Í svari Hafrannsóknastofnunar 4. desember 2018 kom fram að stofnunin hefði verið að fá erfðagögn í hús sem ættu að nægja vel til að rekja til eldiskvíar. Í framhaldinu sagði að stofnunin væri að setja upp forrit sem auðveldaði henni að gera þessa greiningu og að hún gæti „hæglega greint þessa fiska fyrir [A] eða gefið [honum] aðgang að gögnum hvort heldur sem [hentaði honum]“.

A áréttaði af því tilefni að Matís ohf. ynni að því að greina sýnin og þetta væri þá „bara spurningin um að fá afnot af viðmiðunargögnunum“.

Af tölvupóstsamskiptum sem fram fóru í framhaldinu verður ráðið að Matís ohf. hafi lokið við að greina sýni úr löxunum sem A veiddi við rannsóknir sínar og staðfest í tölvupósti 6. desember 2018 að um væri að ræða laxa af norskum fiskeldisuppruna. Var A gerð grein fyrir þessari niðurstöðu með tölvupósti sem jafnframt var sendur á forstjóra Hafrannsóknastofnunar í afriti. Af gögnum málsins verður svo helst ráðið að Matís ohf. hafi í framhaldi átt að fá aðgang að viðmiðunargögnum Hafrannsóknastofnunar til að greina sýnin frá A frekar þannig að rekja mætti uppruna eldislaxanna til sjókvíaeldis.

Hafrannsóknastofnun birti frétt á vefsíðu sinni 21. desember 2018 með fyrirsögninni „Upprunagreining strokulaxa“. Fréttin er svohljóðandi:

„Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við MAST og Matís, hefur unnið að upprunagreiningu eldislaxa sem hafa veiðst í íslenskum ám.

Notuð er svokölluð arfgerðagreining og eru 14 erfðamörk greind og borin saman við erfðamörk þeirra hænga sem notaðir voru við framleiðslu seiða 2015.

Alls virðast hafa veiðst 12 eldisfiskar, þar af hafa 11 verið greindir en einn er enn í mælingu.

Af þeim 11 sem hafa verið greindir er hægt að rekja níu með vissu, en eitt sýni þarf að endurkeyra með nýju erfðarsýni til að fá afgerandi staðfestingu. Einn fisk, sem veiddist í Breiðdalsá, þarf að skoða frekar og er hugsanlegt að hann hafi komið annars staðar frá.

Þeir níu fiskar sem hefur verið hægt að rekja komu allir frá tveimur kvíastæðum, annars vegar úr Laugadal í Tálknafirði og hins vegar frá Hringsdal Arnarfirði.

Tilkynnt hafa verið þrjú atvik sem stemma við þessar staðsetningar. [...] tilkynnti atvik/strok í Hringsdal í Arnarfirði þann 21. febrúar sl. og tvö atvik í Laugardal í Tálknafirði, annað í febrúar og hitt í júlí á þessu ári.

Svo virðist sem allir fiskarnir hafi komið úr tilkynntum strokum.“

Í fréttinni er einnig tafla með tveimur dálkum. Annar þeirra ber yfirskriftina „Veiðistaður“ og hinn „Strokstaður“. Í töflunni er tilgreint að tveir laxar hafi veiðst í [tiltekinni á] og að þeir hafi strokið frá [...]. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða fiskana sem A veiddi á árinu 2018 og voru hluti af rannsókn hans, en þess er ekki getið í fréttinni.

Í framhaldi hafði A samband við Hafrannsóknastofnun með tölvupósti og Matís ohf. og kvartaði yfir að hann hafi ekki verið látinn vita af því að niðurstöður lægju fyrir í ljósi þess að um væri að ræða rannsóknargögn hans og að þess hafi ekki verið getið í fréttinni að þau væru komin frá honum. Áréttaði A af þessu tilefni að í tölvupósti til Hafrannsóknastofnunar 7. nóvember 2018 hafi hann sérstaklega látið þess getið að hann hygðist sjá um fyrstu kynningu niðurstaðna.

Fáeinum dögum síðar svaraði sviðsstjóri Hafrannsóknastofnunar erindi A. Þar sagði að honum þætti leitt að hann skyldi hafa birt með niðurstöðum stofnunarinnar niðurstöðurnar um þá tvo eldislaxa sem A hefði látið Matís ohf. greina. Honum hafi fundist brýnt að senda út niðurstöður stofnunarinnar þar sem þetta hafi virst „vera að leka út“ og stofnunin hafi verið búin að fá spurningar frá blaðamönnum. Fyrir misgáning sinn hafi laxarnir úr [tiltekinni á] flotið með enda hafi þeir virst passa vel inn í myndina.

Í svari Matís ohf. var vísað til þess að félaginu hafi verið skylt að afhenda Hafrannsóknastofnun erfðagögn um eldislaxana samkvæmt lögum um fiskeldi og reglugerð settri með stoð í þeim til að unnt væri að rekja uppruna eldislaxa til sjókvíaeldisstöðva. Jafnframt sagði að verkferlar varðandi móttöku og meðferð þjónustusýna til erfðarannsókna hafi verið endurskoðaðir og væri unnið að breytingum á þeim, meðal annars hvað varðaði upplýsingar til verkkaupa um skyldur félagsins varðandi tilkynningar til opinberra aðila.

Í framhaldi sendi A bæði Hafrannsóknastofnun og Matís ohf. bréf 11. mars 2019. Þar lagði hann til að málinu gæti fyrir sitt leyti lokið ef hann yrði beðinn afsökunar. Að því er varðaði Hafrannsóknastofnun óskaði hann jafnframt eftir að stofnunin uppfærði fréttina á vefsíðu sinni. Óskaði hann eftir að í fréttinni yrði greint frá því að tveir laxanna væru frá rannsóknarveiðum X ehf. í [tiltekinni á] og að þau gögn byggðust á arfgerðargögnum félagsins um þá fiska.

Matís ohf. brást við erindi A með bréfi þar sem fram kom að félagið bæðist afsökunar á því að „hafa afhent arfgerðagögn í eigu [X] til Hafrannsóknastofnunar í góðri trú, án skriflegs leyfis frá [X]“. Þá sagði að félaginu þætti „miður að það hafi orðið misskilningur í samskiptum“. Félagið myndi því „framvegis ekki afhenda arfgerðagögn í eigu X nema að undangengnu samþykki“.

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar brást við erindi A með svohljóðandi tölvupósti 12. mars 2019: 

„Æ Æ“

Fjórum mínútum síðar sendi forstjórinn annan tölvupóst:

 „Sæll [A]

 ÆÆ

 Ég hélt að þetta mál væri úr sögunni. Mitt fólk skoðar það.

 MBK

 [...]“ 

A bárust ekki frekari viðbrögð frá Hafrannsóknastofnun fyrr en eftir að hann leitaði til umboðsmanns Alþingis 8. janúar 2020.

Kvörtun A varð umboðsmanni tilefni til að rita Hafrannsóknarstofnun tvö bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu stofnunarinnar á erindi A frá 11. mars 2019 þar sem hann hafði lýst því að málinu gæti fyrir sitt leyti lokið með því að hann yrði beðinn afsökunar samhliða því að frétt á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar yrði löguð.

Svör stofnunarinnar til umboðsmanns voru ekki skýr að þessu leyti. Þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hefði lýst því í síðara svarbréfi sínu til umboðsmanns að stofnuninni þætti miður að ekki hefði verið haft samband við A áður en fréttin var birt og afsökunarbeiðni væri sett fram í bréfinu varð ekki séð að stofnunin hefði upplýst A sjálfan beint um þessa afstöðu.

Í ljósi þessa hafði umboðsmaður samband símleiðis við forstjóra Hafrannsóknastofnunar og minnti á að kvörtun A hefði sérstaklega beinst að því að stofnunin hefði ekki svarað erindi hans um tiltekin lok á málinu og þá beint afsökunarbeiðni sinni beint til hans. Forstjórinn féllst á að huga að þessu og leita leiða til að leysa málið. Samtalinu lauk með þeim orðum að umboðsmaður hefði aftur samband við forstjórann í byrjun ágústmánaðar.

Í kjölfar samskipta umboðsmanns og Hafrannsóknastofnunar ritaði stofnunin A bréf 6. ágúst 2020. Þar segir:

„Hafrannsóknastofnun viðurkennir mistök að birta með niðurstöðum okkar um upprunagreiningu laxa sem veiddust sumarið 2018, niðurstöður um uppruna tveggja eldislaxa sem [X] ehf sendu til Matís arfgerðagreiningar án þess að ræða við þig áður og geta þess hvaðan sýnin komu.

Við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum.“

   

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og Hafrannsóknastofnunar

Sem fyrr segir ritaði umboðsmaður Hafrannsóknarstofnun tvö bréf í tilefni af kvörtun A. Fyrra bréfið er dagsett 31. janúar 2020 en þar var þess óskað að stofnunin lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar og upplýsti hvað liði meðferð og afgreiðslu á erindi A til stofnunarinnar frá 11. mars 2019.

Í bréfi Hafrannsóknastofnunar 7. febrúar 2020 er rakið að A hafi beðið Matís ohf. um að erfðagreina laxa sem hann hafi aflað í [tiltekinni á]. Til að greina uppruna laxanna hafi Matís ohf. leitað til Hafrannsóknastofnunar um leyfi til að bera saman arfgerð þeirra við gagnagrunn stofnunarinnar. Í honum séu erfðamörk margra íslenskra og erlendra stofna auk eldisstofnsins sem sé notaður á Íslandi og aðferðir til greininga. Matís ohf. hafi unnið flestar arfgreiningar fyrir Hafrannsóknastofnun og mikil rannsóknasamvinna sé þar á milli. Beiðni Matís ohf. hafi verið samþykkt og Hafrannsóknastofnun hafi verið reiðubúin til að greiða fyrir greiningu á löxunum líkt og hún geri þegar meintum eldislöxum sem veiðast í ám sé skilað.

Í svarbréfi Hafrannsóknastofnunar segir því næst að samkvæmt lögum um fiskeldi og lögum um lax- og silungsveiði og reglugerðum sem séu settar á grundvelli þeirra laga sé gert ráð fyrir að umfangi eldis á frjóum laxi í sjókvíum sé stýrt meðal annars á grunni áhættumats erfðablöndunnar. Í því felist meðal annars að stofnuninni berist fjöldi laxa sem séu arfgerðargreindir. Þeir laxar sem séu arfgreindir úr eldi séu auk þess raktir áfram til eldisfyrirtækis og eldisstaðar. Þetta sé gert með samanburði við lífssýni sem Matvælastofnun safnar úr klakstofninum hjá Stofnfiski og haldi utan um gagnagrunn hvert afkomendurnir fari. Hafrannsóknastofnun greini þau sýni til að finna hvaðan strokulaxar séu upprunnir.

Þá segir að laxarnir sem hafi verið fengnir frá A hafi verið meðhöndlaðir með þessum hætti. Þau mistök hafi átt sér stað hjá Matís ohf. að greina A ekki nægilega vel frá þessu. Beðist hafi verið velvirðingar á því.

Í bréfinu er lýst þeirri afstöðu Hafrannsóknarstofnunar að í þessu ferli hafi Hafrannsóknastofnun starfað samkvæmt lögum. Þessi arfgerðargreining hafi hjálpað A með sínar rannsóknir. Hann hafi fengið niðurstöður fyrstur manna og greint frá þeim á vefsíðu og í fréttariti. Hafrannsóknastofnun hafi greint frá uppruna þessara tveggja laxa auk allra annarra eldislaxa sem hafi veiðst í ám árið 2018 og hvaðan þeir hafi sloppið. Á því ári hafi Hafrannsóknastofnun greint 60 sýni af grunuðum eldislöxum og 97 foreldrahænga til að rekja laxana til síns heima. Til að rekja eldislaxa A hafi hann þurft að fá öll þessi mæligögn sem að stofnunin hafi unnið í samvinnu við Matís ohf. Þá segir að niðurstöður þessara greininga nýtist nú ásamt fleiri gögnum í endurskoðun á áhættumatinu. Ekki verði séð að sú birting niðurstaðna sem að framan sé lýst spilli á nokkurn hátt notagildi gagnanna fyrir A.

Umboðsmaður ritaði Hafrannsóknastofnun annað bréf 27. mars 2020 sem stofnunin svaraði með bréfi 27. apríl sama ár. Í bréfi sínu áréttaði umboðsmaður þá beiðni sína að Hafrannsóknastofnun upplýsti hann um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis A frá 11. mars 2019. Í svarbréfi sínu til umboðsmanns kvaðst stofnunin ekki hafa svarað erindi A frá 11. mars 2019 þar sem hann hefði einkum verið í samskiptum við Matís ohf. Jafnframt hafi sviðsstjóri stofnunarinnar þegar beðið A afsökunar á að tveir laxar frá A hafi flotið með í greiningu á öllum löxum sem hefðu borist.

Í bréfi sínu til Hafrannsóknastofnunar vék umboðsmaður jafnframt að því að A teldi stofnunina hafa farið ranglega með staðreyndir í fyrra bréfi hennar til umboðmanns með því að fullyrða að A hafi fengið „niðurstöðurnar fyrstur manna“ og að hann hefði greint „fyrstur frá þessum niðurstöðum á heimasíðu [X] og fréttaritinu Iceland review“. Því til stuðnings vísaði A til þess að frásögn hans í tilgreindum miðlum hafi einungis lotið að þeirri staðreynd að eldislaxar hefðu veiðst í [tiltekinni á] svo sem greining Matís ohf. hefði staðfest, sbr. tölvupóst frá starfsmanni Matís ohf. 6. desember 2018. Segir hann að á þeim tíma hefði ekki enn farið fram sá samanburður við arfgerðargögn eldislaxa úr sjókvíum sem nauðsynlegur var til þess að geta greint úr hvaða eldiskvíum laxarnir voru runnir. Niðurstöður þeirrar greiningar hefðu fyrst verið birtar í veffrétt Hafrannsóknastofnunar 21. desember 2018 og í kjölfarið í helstu fréttamiðlum landsins.

Með vísan til þessara athugasemda A óskaði umboðsmaður einnig eftir því að Hafrannsóknastofnun gerði grein fyrir þeirri fullyrðingu stofnunarinnar að A hefði fengið niðurstöðurnar fyrstur manna. Í fyrsta lagi var óskað upplýsinga um hvort með „niðurstöðum“ væri átt við þær niðurstöður arfgerðar­greiningar og tilheyrandi samanburðar sem leiddu í ljós eldisstað laxanna tveggja úr [tiltekinni á]. Ef ekki, væri óskað upplýsinga um hvaða rannsóknarniðurstöður þarna væri um að ræða. Í öðru lagi var óskað upplýsinga um með hvaða hætti, hvenær og frá hverjum A fékk umræddar rannsóknarniðurstöður „fyrstur manna“ svo sem segði í bréfinu.

Hafrannsóknarstofnun svaraði þessari fyrirspurn umboðsmanns á þann veg að A hafi fengið niðurstöðurnar fyrstur og að í sýnum frá honum reyndust vera tveir eldislaxar. Í svari stofnunarinnar kemur þó fram að „ekki [hafi verið] búið að rekja hvern eldislax til síns heima í sjókví á þeim tíma“ en frá þeim niðurstöðum hafi verið „greint á vef Hafrannsóknastofnunar 21. desember [2018]“.

Umboðsmaður vakti einnig athygli á því að í svarbréfi Hafrannsóknastofnunar hefði komið fram að til að greina uppruna laxanna sem A veiddi í [tiltekinni á] „leitaði Matís til Hafrann­sóknar um leyfi til að bera saman arfgerð laxanna í [tiltekinni á] við gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar“ og síðan segir að í svari til Matís ohf. hafi sú beiðni verið samþykkt. Benti umboðsmaður á að í gögnum málsins kæmi hins vegar fram að A hafi sjálfur verið í samskiptum við sviðs­stjóra hjá Hafrannsóknastofnun og óskað eftir þeim viðmiðunar­gögnum sem þörf væri á til að rekja mætti uppruna eldislaxanna, sbr. tölvupósta milli A og sviðsstjórans á tímabilinu frá 7. nóvember til 4. desember árið 2018. Þar hefði A afþakkað boð sviðsstjórans um að Hafrannsóknastofnun greindi laxana fyrir hann en þess í stað kosið að fá aðgang að gögnum. Upplýsti A í leiðinni hvaða starfmenn Matís ohf. hefðu unnið að málinu.

Hafrannsóknarstofnun svaraði spurningu umboðsmanns um hvernig Matís ohf. hefði staðið að framangreindri leyfisbeiðni til stofnunarinnar um að bera saman arfgerð laxanna sem A veiddi við gagnagrunn á þann veg að stofnunin hefði fallist munnlega á að Matís ohf. greindi laxana sem um ræddi fyrir A og bæri saman við gagnagrunna Hafrannsóknastofnunar sem hefði verið gert. 

Hafrannsóknarstofnun svaraði hins vegar ekki spurningu umboðsmanns sem laut að ummælum í fyrra bréfi stofnunarinnar til umboðsmanns um að mistök hafi átt sér stað hjá Matís ohf. við að greina A ekki nægilega vel frá því að Hafrannsóknastofnun greindi sýni sem Matvælastofnun safnaði til að finna hvaðan strokulaxar væru upprunnir. Vísaði umboðsmaður þá til þess að í þeirri afsökunarbeiðni sem lægi fyrir í gögnum málsins bæði Matís ohf. A afsökunar á að hafa afhent arfgerðargögn í eigu X ehf. til Hafrannsóknastofnunar í góðri trú, án skriflegs leyfis frá X ehf. Af ummælum Hafrannsóknastofnunar yrði hins vegar ráðið að stofnunin teldi að Matís ohf. hafi láðst að greina A nægilega vel frá ferli því sem viðhaft var í rann­sóknarþjónustunni sem hann keypti af Matís ohf. Óskaði umboðsmaður eftir nánari skýringum á þeim upplýsingaskorti af hálfu Matís ohf. sem Hafrannsóknarstofnun hefði vísað til og í hvaða gögnum hann kæmi fram.

Umboðsmaður spurðist loks fyrir um ummæli í svarbréfi Hafrannsóknastofnunar um að ekki yrði séð að birting fréttarinnar á heimasíðu stofnunarinnar 21. desember 2018 spillti á nokkurn hátt notagildi gagnanna fyrir A. Með vísan til ummæla sem fram kæmu í bréfinu óskaði umboðsmaður eftir að Hafrannsókna­stofnun gerði honum grein fyrir afstöðu sinni til þess hvort A hafi átt rétt til forgangs um að birta niðurstöður uppruna­greiningar á löxum sem hann veiddi og fékk rannsakaða.  

Í svari Hafrannsóknastofnunar við þessari spurningu er rakið að í reglugerð um fiskeldi sé kveðið á um að lífsýnum sé safnað af foreldrafiskum þeirra laxa sem notaðir séu til undaneldis til að framleiða lax í sjókvíar hér við land svo unnt sé að rekja strokufisk til síns heima. Þau sýni hafi stofnunin greint og unnið og búið til gagnagrunn þar um. Þá hafi stofnunin komið upp gagnagrunni um íslenska laxastofna auk þess sem hún eigi hlutdeild í Salsea gagnagrunni um náttúrulega laxa úr ám allt í kringum Atlantshafið ásamt rannsóknastofnunum í þeim löndum. Sú vinna hafi kostað mikla fjármuni. Þetta rannsóknastarf væri ekki á færi einstaklings eða fyrirtækis hans.

Um mál A segir í kjölfarið að Matís ohf. hafi greint nokkra laxa fyrir hann. A hafi verið með þá rannsóknarspurningu „hvort hluti þeirra væri ættaður úr eldi“. Hann hafi fengið svör við þeirri spurningu með góðfúslegu leyfi Hafrannsóknastofnunar um aðgang að gögnum og gagnagrunnum. Hann hafi kynnt þær niðurstöður sjálfur og geti áfram unnið með þau gögn.

Þá segir að Hafrannsóknastofnun hafi birt gögn um hvaðan strokulaxar, sem hafi fundist þetta ár, væru ættaðir og hafi fiskar A verið þar á meðal. Það hafi verið mistök að greina ekki frá því að A hafi safnað þeim löxum og gera honum viðvart. Á því hafi verið beðist afsökunar. Stofnunin telji sér skylt samkvæmt lögum að greina alla eldislaxa sem henni berist og rekja uppruna þeirra. Sú nýting gagna sé mikilvæg þegar áhrif fiskeldis séu metin. Það sé útilokað annað en að sú vinna sé á einni hendi ef vöktunin eigi að vera marktæk og nýtast til að stýra umfangi eldis á frjóum eldislaxi í sjókvíum.

Að lokum segir að A og fyrirtæki hans hafi ekki getað rakið þessa laxa til uppruna þeirra án aðgangs að gagnagrunnum Hafrannsóknastofnunar. Það hafi verið gert fyrir hann. Hins vegar hafi vangá valdið því að laxarnir hafi verið með öllum öðrum eldislöxum í frétt á heimasíðu stofnunarinnar án þess að A hafi verið getið og hann varaður við. Væri það miður og væri afsökunarbeiðni Hafrannsóknastofnunar ítrekuð. Þetta væri hins vegar ekki birting í fræðiriti. A hafi eftir sem áður alla möguleika á að nýta gögnin sín. Vandséð væri að þessir atburðir hafi í nokkru spillt þeim möguleika fyrir A.

Athugasemdir A við bréf Hafrannsóknastofnunar bárust 24. febrúar, 26. maí og 12. október 2020.

   

IV Álit setts umboðsmanns Alþingis

1 Nánari afmörkun athugunar

Athugun mín á kvörtun A hefur beinst að því hvort Hafrannsóknastofnun hafi, eins og atvikum var háttað í þessu máli, verið heimilt að birta, með eigin upplýsingum um upprunagreiningu strokulaxa, upplýsingar um laxa sem Matís ohf. hafði greint fyrir a. Til að greina laxana hafði Matís ohf. notað viðmiðunargögn frá Hafrannsóknastofnun og síðan upplýst stofnunina um niðurstöður sínar. Þá hefur athugun mín beinst að því hvernig Hafrannsóknastofnun leysti úr erindum A þegar hann óskaði eftir að stofnunin bæðist afsökunar á birtingu upplýsinganna án þess að getið væri um að umræddir laxar væru úr rannsókn hans. Að síðustu vík ég að svörum Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurnum umboðsmanns Alþings.

2 Notkun Hafrannsóknastofnunar á upplýsingum úr rannsókn á vegum einkaaðila

Athugasemdir A beinast að því að Hafrannsóknastofnun hafi notað gögn úr rannsókn hans og því sem hann fékk Matís ohf. til að vinna fyrir sig og birt upplýsingar um niðurstöður sem byggðust á gögnunum í frétt á heimasíðu sinni án leyfis frá honum. Áður er fram komið að þessar upplýsingar lutu annars vegar að veiðistað þeirra laxa sem A hafði fangað vegna rannsóknar sinnar og upplýsingum úr greiningu sem Matís ohf. hafði unnið fyrir fyrirtæki A.

Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis þarf að hafa í huga hvaða reglur gilda að þessu leyti þegar einkaaðili leitar eftir aðstoð og þjónustu opinberrar stofnunar vegna vísindarannsóknar og þá meðal annars hvaða trúnaðarskyldur opinber stofnun hefur gagnvart viðkomandi einkaaðila.

Eins og áður er rakið keypti A þjónustu af Matís ohf. í þágu rannsóknar sem hann var að sinna fyrir viðskiptavini fyrirtækis síns á eldislöxum í íslenskum ám og uppruna þeirra. Fólst þjónustan í því að Matís ohf. myndi greina sýni úr löxum sem hann hafði veitt. Fyrir liggur að A leitaði í kjölfarið til Hafrannsóknastofnunar til að fá aðgang að erfðagögnum um eldislaxa sem hún bjó yfir í því skyni að Matís ohf. gæti fyrir hans hönd greint sýni úr löxunum þannig að unnt væri að rekja uppruna þeirra til sjókvíaeldis.

Ekki verður um villst, þegar litið er til samskipta A við Hafrannsóknastofnun sem rakin eru í II. kafla hér að framan, að stofnuninni átti að vera ljóst að greining Matíss ohf. á löxunum frá A og þá þær niðurstöður sem fengnar voru með viðmiðunargögnum frá Hafrannsóknastofnun voru alfarið liður í og í þágu rannsóknar A. Meðferð Hafrannsóknastofnunar á þeim upplýsingum sem hún fékk sendar frá Matís ohf. þurfti því að taka mið af því.

Ég minni í þessu sambandi á að af þeim samskiptum verður ráðið að beiðni A til Hafrannsóknastofnunar laut einungis að því að stofnunin veitti honum afnot af viðmiðunargögnum sem stofnunin bjó yfir til þess að hann gæti rakið uppruna ætlaðra eldislaxa sem hann hafði veitt til eldisaðila og eldisstaðar, sbr. tölvupóst A til stofnunarinnar 7. nóvember 2018. Í sama tölvupósti tók A einnig sérstaklega fram að hann myndi sjálfur sjá um að vinna sýni ætlaðra eldislaxa og fyrstu kynningu á niðurstöðum sem málið varðaði. Óskaði A enn fremur eftir að Hafrannsóknastofnun leiðbeindi honum eftir því sem þörf væri á um hvernig hann skyldi bera sig að um frekari framgang beiðninnar gagnvart stofnuninni.

Hafrannsóknastofnun svaraði beiðni A á þann veg að stofnunin gæti annaðhvort veitt honum aðgang að umbeðnum gögnum eða greint sýnin sem hann aflaði, sbr. tölvupóst 4. desember 2018. A áréttaði hins vegar í tölvupósti sem sendur var samdægurs að Matís ohf. ynni að því að greina sýnin og hann þyrfti því einungis afnot af viðmiðunargögnum. Það er ljóst að í framhaldi af þessum samskiptum vann Matís ohf. greiningu á því hvaðan laxarnir sem A veiddi hefðu komið og notaði til þess viðmiðunargögn frá Hafrannsóknastofnun.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort Hafrannsóknastofnun var heimilt að birta þær upplýsingar sem um ræðir þarf að horfa til þess hvernig hlutverk stofnunarinnar er skilgreint samkvæmt lögum nr. 112/2015, um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatns. Samkvæmt þeim lögum hefur stofnunin meðal annars það lögbundna hlutverk að afla þekkingar um ár landsins og lífríki þeirra sem og að annast ráðgjöf við stjórnvöld og einkaaðila sem byggist meðal annars á upplýsingaöflun um laxa í ferskvatnsám við landið og tengslum þeirra við fiskeldi.

Hlutverki stofnunarinnar er nánar lýst að þessu leyti í 5. gr. laganna. Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. ber stofnunin almenna skyldu til að afla með rannsóknum alhliða þekkingar á ám og vötnum landsins og lífríki þeirra, með áherslu á hvernig nýta megi lifandi auðlindir með sjálfbærum hætti. Að því er varðar ferskvatnsrannsóknir er meðal annars kveðið á um það að stofnunin skuli treysta undirstöður vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu og ræktun nytjastofna áa og vatna, sbr. 5. tölul. 5. gr.

Samkvæmt sömu lögum er Hafrannsóknastofnun einnig ætlað það hlutverk að stunda rannsóknir sem miða að aukinni nýsköpun og fjölbreytni í öflun sjávarfangs og nýtingu ferskvatnsvistkerfa, sbr. 7. tölul. 5. gr. Í 8. og 9. tölul. 5. gr. er síðan kveðið á um að Hafrannsóknastofnun skuli annast rannsóknir á eldi í sjó og ferskvatni og veita ráðgjöf þar um, sem og að rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna. Í 10. og 13. tölul. 5. gr. er mælt fyrir um að stofnunin annist gegn gjaldi rannsóknir fyrir einstaklinga eða fyrirtæki á umhverfi eða lífríki í ám, vötnum og sjó, meðal annars vegna framkvæmda og veiti stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðgjöf og þjónustu varðandi sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum í sjó og ferskvatni á grundvelli sjálfbærra viðmiða og nýtingarstefnu stjórnvalda.

Þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi þegar atvik málsins áttu sér stað haft ákveðið hlutverk að lögum um að sinna rannsóknum á því hvernig mætti best stunda fiskeldi og fiskrækt í sátt við íslenska náttúru og villta stofna verður hvorki dregin sú ályktun af lögum nr. 112/2015 né öðrum þágildandi réttarreglum að einkaaðilum sem stunduðu rannsóknir á sama sviði væri skylt að afhenda stofnuninni eigin rannsóknargögn og að stofnunin gæti þá notað og birt rannsóknargögn sem henni bærust í rannsóknarstörfum stofnunarinnar án tillits til vilja þeirra sem ættu gögnin. Ef Hafrannsóknastofnun bárust slík gögn, til dæmis vegna beiðni um aðstoð við rannsóknir, hafði hún því ekki frjálsar hendur um hvernig hún færi með gögnin heldur var hún bundin af þeim skráðu og óskráðu reglum sem giltu um starfsemi hennar sem og þeim reglum sem giltu um réttindi þess einkaaðila sem leitaði til hennar um aðstoð. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að Hafrannsóknastofnun gegnir sem stjórnvald þjónustuhlutverki gagnvart borgurunum samkvæmt lögum. Miklu varðar því að stofnunin hagi samskiptum við þá og fari með erindi þeirra og upplýsingar sem koma fram í tilefni af slíkri beiðni í samræmi við efni þeirra.

3 Viðbrögð Hafrannsóknastofnunar við beiðnum um afsökun og leiðréttingu á frétt

Fyrir liggur að með erindi sínu 11. mars 2019 óskaði A meðal annars eftir að Hafrannsóknastofnun bæðist afsökunar á að hafa notað rannsóknargögn frá honum og birt niðurstöður um þau án hans heimildar og að frétt stofnunarinnar frá 21. desember 2018 yrði uppfærð þannig að þess yrði getið að tveir laxanna og gögn um þá væru frá honum komin. Sem fyrr greinir hefur stofnunin nú viðurkennt mistök í málinu og beðið A afsökunar á birtingunni.

Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að minna á að í tilvikum eins og þessum, þegar stjórnvaldi berst erindi þar sem gerðar eru athugasemdir við upplýsingar sem stjórnvaldið hefur sent frá sér, verður í samræmi við regluna um svör við erindum og vandaða stjórnsýsluhætti að gera þá kröfu til stjórnvaldsins að það bregðist við slíku erindi án verulega tafa og leysi úr því efnislega.

Í erindi A frá 11. mars 2019 kom skýrt fram að hann vildi af sinni hálfu ljúka málinu með því að Hafrannsóknastofnun bæði hann afsökunar og leiðrétti fréttina sem stofnunin birti 21. desember 2018. Enda þótt óskir A hafi í þessu tilliti verið einfaldar og skýrar brást Hafrannsóknastofnun hins vegar ekki efnislega við þeim fyrr en með afsökunarbeiðni sinni í bréfi til A, dags. 6. ágúst 2020. Viðbrögð stofnunarinnar komu í kjölfar þess að umboðsmaður hafði ítrekað gengið eftir því bæði skriflega og í samtali við forstjóra stofnunarinnar að stofnunin svaraði beiðni A. Voru þá liðnir tæplega 17 mánuðir frá því að A óskaði þess að stofnunin bæði hann afsökunar.

Í bréfi sínu til A frá 6. ágúst 2020 viðurkennir Hafrannsóknastofnun mistök sín að birta með niðurstöðum sínum um upprunagreiningu laxa niðurstöður um uppruna tveggja eldislaxa sem X ehf. sendu til arfgerðagreiningar hjá Matís ohf. án þess að ræða það áður við A áður og geta þess hvaðan sýnin komu. Jafnframt er í bréfinu beðist velvirðingar á þessum mistökum. Fréttin frá 21. desember 2018 sem er tilefni þessar afsökunarbeiðni stofnunarinnar stóð engu að síður enn óbreytt á heimasíðu hennar 28. apríl 2021 að því er varðar þau atriði sem kvörtun A beindist að.

Í vönduðum stjórnsýsluháttum felst meðal annars að stjórnvöldum ber að sýna borgurunum tilhlýðilega virðingu í samskiptum og koma almennt til móts við sanngjarnar málaumleitanir þeirra. Með vísan til þess skýtur skökku við að Hafrannsóknastofnun hafi viðurkennt að mistök hafi verið gerð með birtingu fréttarinnar 21. desember 2018 og beðið A afsökunar á því en ekki leiðrétt fréttina til samræmis við eigin afstöðu og beiðni A. Í ljósi þess að fréttin stendur enn óbreytt á heimasíðu stofnunarinnar og án þess að A sé þar getið tel ég rétt að stofnunin geri þegar í stað reka að því leiðrétta fréttina í samræmi við þá afsökunarbeiðni sem hún hefur veitt A.

Við athugun á þessu máli hef ég jafnframt staðnæmst við það orðalag sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar notaði í samskiptum sínum við A 12. mars 2019. Eins og áður greinir svaraði hann erindi A upphaflega, einungis með orðunum „Æ Æ“. Nokkrum mínútum síðar sendi hann A aftur svohljóðandi tölvupóst: „ÆÆ. Ég hélt að þetta mál væri úr sögunni. Mitt fólk skoðar það.“

Vegna þessara tölvupósta tel ég rétt að ítreka að Hafrannsóknastofnun og starfsmönnum hennar ber í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að haga samskiptum sínum við þá sem til hennar leita með þeim hætti að gætt sé hlutleysis, sanngirni og fyllstu kurteisi í garð þeirra sem leita til stofnunarinnar með erindi sín. Þessi sjónarmið eiga sér jafnframt stoð í reglum um hátterni opinberra starfsmanna um að starfsmaður skuli gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ég tel að framangreind samskipti hafi ekki verið alls kostar í samræmi við þessi sjónarmið og tel ástæðu til að beina því til Hafrannsóknastofnunar að framvegis verði hugað að þessum atriðum í samskiptum við borgarana. Tek ég í því sambandi fram að ef fyrri póstur forstjórans var sendur fyrir mistök hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og reglur um háttvísi ríkisstarfsmanna í starfi að biðjast velvirðingar á þeirri skeytasendingu.

Einnig bendi ég á að í svari Hafrannsóknastofnunar 12. mars 2019 við erindi A degi áður boðaði forstjóri stofnunarinnar að starfsfólk hennar myndi skoða erindi hans. Þrátt fyrir það bárust A engin frekari viðbrögð fyrr en 6. ágúst 2020 og þá eftir að hann hafði leitað til umboðsmanns Alþingis. Þessir starfshættir Hafrannsóknastofnunar eru ekki í samræmi við þá grundvallarreglu, sem ítrekað hefur verið fjallað um í álitum umboðsmanns Alþingis, að stjórnvöldum ber að svara skriflegum erindum sem til þeirra er beint skriflega nema erindi beri með sér að svars sé ekki vænst og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða.

4 Svör Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns Alþingis

Ég tel að síðustu tilefni til að gera athugasemdir við svör Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns Alþingis. Þannig fer ekki á milli mála samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal samskiptum A við Hafrannsóknastofnun, að rannsókn hans náði bæði til þess að staðreyna að lífsýnin væru úr eldislöxum af norskum uppruna og að svara því úr hvaða sjókvíaeldi þeir hefðu sloppið. Skýringar Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns Alþingis 27. apríl 2020 um að Matís ohf. hafi greint nokkra laxa fyrir A sem hafi verið með þá rannsóknarspurningu „hvort hluti þeirra væri ættaður úr eldi“ eru því ekki í samræmi við gögn málsins.

Í ljósi þess að fyrir liggur að niðurstöður greiningar um úr hvaða eldiskvíum laxar væru voru fyrst birtar á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar 21. desember 2018 verður heldur ekki hjá því komist að gera athugasemdir við að Hafrannsóknastofnun skuli hafa fullyrt ranglega í fyrra svarbréfi sínu til umboðsmanns að A hafi fengið niðurstöður í kjölfar arfgerðargreiningar „fyrstur manna“.

Loks verður að gera verulegar athugasemdir við að Hafrannsóknastofnun skuli ekki hafa svarað spurningum umboðsmanns um hvaða mistök stofnunin taldi hafa átt sér stað hjá Matís ohf. við að upplýsa A um að Hafrannsóknastofnun greindi sýni sem Matvælastofnun safnaði til að finna hvaðan strokulaxar væru upprunnir. Í því sambandi verður að benda á að skýringar Hafrannsóknastofnunar um þetta atriði eru ekki í samræmi við gögn málsins, en fyrir liggur að Matís ohf. bað A afsökunar á að hafa afhent arfgerðargögn frá fyrirtæki hans til Hafrannsóknastofnunar án skriflegs leyfis hans.

Ég minni á að Alþingi hefur ákveðið með lögum að borgararnir geti leitað til umboðsmanns og fengið álit hans á hvort athafnir stjórnvalda hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Af þeim sökum er mikilvægt að stjórnvöld setji skýringar sínar til umboðsmanns fram á hlutlægan hátt og taki eftir atvikum mið af gögnum málsins. Slíkt er einnig liður í því að gæta að trausti á starfi viðkomandi stjórnvalds og almennt framgöngu þeirra í málum gagnvart borgurunum.

Ég tel að skýringar Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns hafi ekki verið í samræmi við þau sjónarmið sem 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, byggjast á. Ég tel rétt að vekja sérstaka athygli stofnunarinnar á þessu og kem þeirri ábendingu á framfæri að þau svör sem stofnunin sendi umboðsmanni Alþingis verði framvegis betur úr garði gerð að þessu leyti.

   

V Niðurstaða

Það er álit mitt að ekki hafi samrýmst lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum að Hafrannsóknastofnun hafi notað rannsóknargögn A og birt upplýsingar úr þeim í frétt á vefsíðu stofnunarinnar 21. desember 2018 án heimildar hans og jafnframt látið þess ógetið að gögnin væru frá honum komin. Þá er það einnig niðurstaða mín að stofnunin hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við erindi A frá 11. mars 2019 um að hann yrði beðinn afsökunar og að frétt stofnunarinnar yrði uppfærð. Þá er það niðurstaða mín að svör Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns Alþingis hafi ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem lög um umboðsmann byggjast á.

Í ljósi þess að Hafrannsóknastofnun hefur þegar viðurkennt að hafa gert mistök með birtingunni og beðið A afsökunar á henni eru tilmæli mín til stofnunarinnar að því er varðar þennan þátt málsins afmörkuð við að hún gæti þess framvegis að taka mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu. Á hinn bóginn tel ég, sem fyrr segir, að stofnunin hafi ekki enn brugðist við erindi A frá 11. mars 2019 um leiðréttingu á fréttinni með fullnægjandi hætti. Af þeim sökum beini ég því til stofnunarinnar að hún taki erindi hans til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og að hún fari þá með hana í samræmi við þau sjónarmið sem eru rakin í álitinu. Þá mælist ég til þess að Hafrannsóknastofnun hafi að öðru leyti þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.

Undirritaður var settur í embætti umboðsmanns Alþingis 1. nóvember sl. á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.

   

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson

    

   

VI Viðbrögð stjórnvalda

Hafrannsóknastofnun greindi frá því að í kjölfar álitsins hefði fréttin verið uppfærð á vefnum og jafnframt beðist velvirðingar á þeim mistökum sem gerð voru. Þá hefði forstjóri stofnunarinnar haft samband við viðkomandi og beðist afsökunar. Jafnframt væri búið að laga verkferla til að reyna að fyrirbyggja að samskonar mistök gætu endurtekið sig.