Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11013/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kæru hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.  

Við eftirgrennslan umboðsmanns greindi ráðuneytið frá því að ætlunin væri að afgreiða málið mjög fljótlega. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis frá 26. mars sl. yfir töfum af hálfu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á afgreiðslu kæru frá 9. júní 2020 vegna ákvörðunar [tiltekins sveitarfélags] um að greiða ekki matarkostnað barns yðar á skólatíma á því tímabili sem samgöngubann vegna Covid-19 heimsfaraldurs varaði.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 31. mars sl., þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hefur borist erindi frá ráðuneytinu þar sem upplýst er að stefnt sé að því að ljúka málinu ekki síðar en 14. maí nk.

Í ljósi framangreindra upplýsinga tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar. Ég tek fram að gangi áform ráðuneytisins ekki eftir er yður frjálst að leita til mín á nýjan leik.  

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.