Börn. Umgengnisréttur.

(Mál nr. 11046/2021)

A kvartaði yfir aðgerðaleysi stjórnvalda í tengslum við mál barna sinna.  

Þar sem málið var enn til meðferðar hjá sýslumanni og kæruleið þar með ekki tæmd, var ekki tímabært að það kæmi til kasta umboðsmanns.   

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 19. apríl sl., yfir aðgerðaleysi stjórnvalda í tengslum við mál barna yðar [...]. Af kvörtun yðar má ráða að þér teljið andstætt hagsmunum barna yðar að umgangast föður sinn.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

Í kjölfar kvörtunar yðar hafði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns samband við yður símleiðis 20. apríl sl. til þess að afla frekari upplýsinga og gagna um málið. Fram kom að þér ættuð fund með sýslumanninum [...] í tengslum við umgengni barna yðar við föður sinn nokkrum dögum síðar. [...] Sami starfsmaður hafði samband við yður 4. maí sl. til þess að kanna stöðu málsins. Í því símtali kom meðal annars fram að málið væri komið í ferli hjá sýslumanni.

   

II

Um umgengni er fjallað í VIII. kafla barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 46. gr. á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti, sbr. 2. málsl.

Í 1. mgr. 47. gr. barnalaga segir að ef foreldra greinir á um umgengni taki sýslumaður ákvörðun um umgengni samkvæmt ákvæðinu með úrskurði. Ákvörðun skuli ávallt tekin eftir því sem barni er fyrir bestu. Sýslumaður líti meðal annars til tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Þá ber sýslumanni að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Ef sýslumaður telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum þess getur hann kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 78. gr. barnalaga er aðilum máls heimilt að kæra úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að sýslumaður geti ákveðið í úrskurði að kæra til ráðherra fresti réttaráhrifum hans.

Í máli um umgengni hefur sýslumaður heimild til að úrskurða samkvæmt 47. gr. til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um umgengni eftir því sem barni er fyrir bestu. Heimilt er að ákveða að úrskurður til bráðabirgða gildi í tiltekinn tíma eða gildi þar til máli er ráðið endanlega til lykta, sbr. 1. mgr. 47. gr. a. barnalaga. Heimilt er að kæra úrskurð sýslumanns af þessu tagi til dómsmálaráðherra innan tveggja vikna frá dagsetningu hans, sbr. 4. mgr. 47. gr. a.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er úrbóta hjá aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum en, eins og áður greinir, er mál yðar enn til meðferðar hjá sýslumanni. Ekki er því tímabært að ég taki mál yðar til frekari meðferðar. Ef að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar þér teljið yður enn beitta rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umb.althingi.is.