Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11053/2021)

Kvartað var yfir töfum  á afgreiðslu máls hjá Persónuvernd.

Við meðferð kvörtunarinnar hjá umboðsmanni kom fram að Persónuvernd hefði tekið ákvörðun í málinu og viðkomandi hygðist ekki halda málinu til streitu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 23. apríl sl. og laut að töfum á afgreiðslu Persónuverndar á máli yðar sem var til meðferðar hjá stofnuninni. Auk þess vísa ég til samskipta yðar við skrifstofu umboðsmanns, þ.e. tölvupóst yðar frá 27. apríl, þar sem fram kom að Persónuvernd hefði upplýst yður að von væri á að málinu yrði lokið innan nokkurra daga, og símtal starfsmanns míns við yður 6. maí sl. þar sem fram kom að yður hefði nú borist ákvörðun Persónuverndar vegna málsins og að þér hygðust að svo komnu ekki halda máli yðar hjá umboðsmanni til streitu.

     Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, umboðsmanni Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.