Almannatryggingar. Ellilífeyrir. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11061/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning og uppgjör tekjutengdra bóta.

Í kjölfar skoðunar á kvörtuninni og málsgögnum taldi umboðsmaður úrskurðinn í samræmi við lög og því ekki ástæðu til að aðhafast frekar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til erindis yðar frá 27. apríl sl. þar sem þér kvartið yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 456/2019 sem yður var tilkynnt um með bréfi dags. 27. apríl 2020. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar frá 31. júlí 2019 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á árinu 2018.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

Í kvörtun yðar kemur fram að þér hófuð töku lífeyris á árinu 2016 eftir að hafa frestað henni um 38 mánuði fram yfir 67 ára aldur og að með frestuninni hefðuð þér lögum samkvæmt öðlast rétt til þess að ellilífeyrir og heimilisuppbót yrðu 19% hærri en ella. Kvörtunin lýtur að því að útreikningur Tryggingastofnunar á ellilífeyri og heimilisuppbót yðar fyrir árið 2018, sem úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest, sé ekki samræmi við ákvæði laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Nánar tiltekið byggist kvörtunin á því að skerðing bótanna vegna tekna yðar hafi í reynd orðið meiri en sem nemur þeim 45% og 11,9% af tekjum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007. Bendið þér á að með þeirri aðferð sem Tryggingastofnum beiti komi ekki aðeins 56,9% (45% + 11,9%) tekna yðar til frádráttar bótunum heldur hækki þessi samanlagða skerðingarprósenta enn um 19% og því komi liðlega 67,7% teknanna til skerðingar fyrrgreindum bótum.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtun yðar eru hvorar tveggja bótanna í fyrstu reiknaðar út miðað við fullar bætur, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 og  1.  málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007, og tilgreindar skerðingar sbr. 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 og  2.  málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007. Niðurstöðutölur þeirra útreikninga eru síðan hækkaðar um 19% til að fá út hina endanlegu fjárhæð bótanna. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið ekki áttað yður á að Tryggingastofnun ákveddi bætur með framangreindum hætti fyrr en við skoðun á uppgjöri ársins 2018 en sömu aðferð hafi verið beitt allt frá því að þér fenguð fyrst greiddan lífeyri árið 2016. Fram kemur að þér teljið rökréttara, sanngjarnara og í samræmi við lögin að snúa framangreindum útreikningum við, þ.e. reikna fyrst út 19% hækkun fullra bóta og draga síðan frá þeim skerðingar miðað við tekjur og lögákveðnar skerðingarprósentur. Sú aðferð myndi í reynd þýða að sú hækkun bótanna sem til kemur vegna frestunar á töku lífeyris, þ.e. 19% hlutinn, yrði ekki skertur vegna tekna.

    

II 

Á þeim tíma er þér hófuð töku lífeyris kvað þágildandi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 á um eftirfarandi:

„Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.“

Orðalag ákvæðisins er afdráttarlaust og verður ekki skilið öðru vísi en svo að hækkun vegna frestunar bætist við eftir útreikninga í samræmi við 17. og 22. gr. sem kváðu meðal annars á um áhrif tekna á bótafjárhæðir. Til samanburðar má benda á þágildandi 2. mgr. 17. gr. laganna þar sem kveðið var á um skerðingu ellilífeyris vegna tekna yfir vissu marki. Í þriðja og síðasta málslið þess ákvæðis sagði að skerðing samkvæmt þessari málsgrein skyldi þó „aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992“. Þarna var með skýrum hætti kveðið á um að hluti ellilífeyris hjá nánar tilgreindum einstaklingum sætti ekki skerðingu vegna tekna viðkomandi og er þetta til dæmis um aðferð löggjafans til að kveða á um undantekningu frá almennri reglu um skerðingu vegna tekna. Slíkt ákvæði hefði hins vegar verið óþarft ef af öðrum ákvæðum leiddi að sá hluti ellilífeyrisins sem áynnist með frestun væri undanþeginn skerðingu vegna tekna. Ég tel því að aðferð Tryggingastofnunar við útreikning og ákvörðun umræddra bóta hafi á þessum tíma verið í samræmi við tilvitnað ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007.

Þá er til þess að líta að þegar lögum nr. 100/2007 var breytt með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), og umrætt ákvæði fellt úr lögunum kom jafnframt inn ákvæði til bráðabirgða á þá leið að þeir sem  fæddir væru árið 1951 eða fyrr hefðu heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi fram að gildistöku breytingalaganna. Þetta bráðabirgðaákvæði er óbreytt í lögunum í dag og var í gildi þegar Tryggingastofnun tók ákvörðun um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta yðar á árinu 2018. Með ákvæðinu er mælt fyrir um að eldri reglur um frestun á töku ellilífeyris gildi áfram fyrir fólk fætt 1951 og fyrr. Reglurnar sem vísað er til í ákvæðinu taka, eðli málsins samkvæmt, bæði til heimildar til frestunar og ákvörðunar á fjárhæð ellilífeyris. Ég fæ því ekki annað séð en bráðabirgðaákvæðið sé lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun ellilífeyris með sömu reikningsaðferð og fyrr fyrir þann hóps fólks sem fætt er 1951 eða fyrr og nýtt hefur sér heimild til frestunar.

Enn fremur bendi ég á að með þeirri breytingu sem varð á 23. gr. laga nr. 100/2007 með áðurnefndum breytingalögum var kveðið á um fjárhæð ellilífeyris í þeirri lagagrein einni, í stað fleiri greina áður, og þar er ákvæðið um skerðingu vegna tekna sett fram á undan ákvæðinu um hækkun vegna frestunar. Með gildistöku breytingalaganna, 1. janúar 2017, varð því engin breyting á lagafyrirmælum um útreikninga að því leyti að fyrst skal lækka fullan ellilífeyri vegna tekna ef við á og ofan á þá útreiknuðu fjárhæð kemur hækkun vegna frestunar ef við á samkvæmt nánari reglum.

Með lögum nr. 116/2016 urðu einnig breytingar á lögum nr. 99/2007, meðal annars 8. gr. um heimilisuppbót, og inn kom svofellt ákvæði:

„Hafi ellilífeyrisþegi nýtt sér heimild 2.–4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til að fresta eða flýta töku lífeyris að fullu eða hluta gildir það einnig um heimilisuppbót. Um áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar fer skv. 23. gr. sömu laga.“

Samkvæmt þessu ákvæði gilda sömu reglur um hækkun heimilisuppbótar vegna frestunar á lífeyristöku og gilda um hækkun ellilífeyris vegna frestunar og vísast því til umfjöllunar hér að framan um reglur þar að lútandi.

Af framangreindu leiðir að ég tel að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar, [...], hafi verið í samræmi við lög. Jafnframt bendi ég á að fyrirmæli laga um hlutfallsleg áhrif tekna lífeyrisþega á bætur ber að túlka í því samhengi sem þau standa. Því er að mínu mati ekki unnt að draga þá ályktun að það skerðingarhlutfall sem ákvæðin mæla fyrir um taki til annars fjárhæðargrunns en þess sem tiltekinn er í undanfarandi málslið. Af því leiðir jafnframt að ákvæðin mæla ekki fyrir um hámark á heildarskerðingu vegna tekna.  

    

III

Með vísan til þess sem er rakið að framan tel ég ekki ástæðu til að taka kvörtun yðar til frekar meðferðar og lýkur þar með athugun minni á máli þessu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.