Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11072/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík á umsagnarbeiðni frá byggingarfulltrúa.

Við athugun kvörtunarinnar  kom fram að u.þ.b. tvær vikur væru frá því að umsagnar skipulagsfulltrúa hefði verið óskað. Taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið svörum Reykjavíkurborgar að tilefni væri til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 4. maí sl., sem beinist að skipulagsfulltrúanum í Reykjavík og lýtur að töfum á að hann bregðist við umsagnarbeiðni byggingarfulltrúa borgarinnar í máli sem þér eigið til meðferðar hjá honum. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið spurst fyrir um málið en einungis fengið þau svör að það væri í vinnslu.

Kvörtuninni fylgdu engin gögn og því verður ekki fyllilega af henni ráðið hvert er efni erindis yðar til byggingarfulltrúans í Reykjavík, þ.e. hvort um er að ræða umsókn um byggingarleyfi eða erindi annars efnis. Í samtali við starfsmann skrifstofu minnar 5. maí sl. upplýstuð þér hins vegar að liðinn væri rétt um mánuður frá því að þér lögðuð fram erindi hjá byggingarfulltrúa og u.þ.b. tvær vikur frá því að óskað var umsagnar skipulagsfulltrúa.

Vegna kvörtunar yðar tel ég rétt að benda á að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa ef þeim má vera ljóst að svara er vænst. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindum er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í þessum efnum. Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum Reykjavíkurborgar við erindi yðar að tilefni sé til að ég taki kvörtun yðar til frekari athugunar.

Ég tek fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á meðferð málsins af hálfu byggingarfulltrúa að teknu tilliti til almenns afgreiðslutíma erinda af því tagi sem um ræðir og bendi ég yður á að afla upplýsinga um það hjá Reykjavíkurborg. Jafnframt tek ég fram að af hálfu umboðsmanns hefur almennt verið talið rétt að þeir sem telja tafir vera orðnar á afgreiðslu mála eða meðferð á erindum sem þeir hafa lagt fyrir stjórnvöld gangi fyrsta kastið sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda áður en hann tekur málið til meðferðar á grundvelli kvörtunar, einkum þegar ekki eru enn orðnar verulegar tafir. Afrit af slíkri skriflegri ítrekun ásamt afriti af eða lýsingu á erindi yðar til byggingarfulltrúa þyrfti því að fylgja slíkri kvörtun ef til hennar kæmi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.