Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11073/2021 - 11074/2021 - 11075/2021 - 11076/202 - 11077/20211)

Kvartað var yfir töfum á svörum frá heilbrigðisráðuneytinu

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að erindin væru til meðferðar í ráðuneytinu og vænta mætti viðbragða innan nokkurra daga. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar hvað það snerti. Umboðsmaður benti viðkomandi einnig á að tvö erindanna fælu í sér beiðni um aðgang að gögnum og forsenda þess að geta fjallað um hvort afgreiðsla þeirra beiðna hefði verið í samræmi við lög, væri að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál lægi fyrir.  

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvartana yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 27. apríl sl., sem beinast að heilbrigðisráðuneytinu og lúta að því að ráðuneytið hafi ekki svarað fimm erindum sem þér senduð því 4., 18. og 26. febrúar sl. og 3. mars sl. og ítrekuðuð síðan í einu lagi með bréfi, dags. 26. apríl sl.

Samkvæmt símtali við starfsmann heilbrigðisráðuneytisins 6. maí sl. eru erindi yðar til meðferðar í ráðuneytinu og stendur til að bregðast við þeim innan nokkurra daga. Ég tel því ekki tilefni til að taka kvartanir yðar til athugunar að svo stöddu. Í ljósi þess að tvö af erindum yðar fela í sér beiðni um aðgang að gögnum minni ég jafnframt á að forsenda þess að umboðsmaður Alþingis geti fjallað um hvort afgreiðsla á beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 hafi verið í samræmi við lög er að efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál liggi fyrir, sbr. það sem fram kom í bréfi setts umboðsmanns til yðar, dags. 27. apríl sl., í tilefni af kvörtunum yðar í málum nr. 11055/2021, 11056/2021, 11057/2021 og 11058/2021. Hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar er beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég málum yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.