Samgöngumál.

(Mál nr. 9235/2017)

Kvartað var yfir að ekki var hægt að kaupa far í tilteknar ferðir Herjólfs í kringum Þjóðhátíð nema kaupa einnig miða á hátíðina.

Að fengnum skýringum hjá Vegagerðinni og Eimskip varð ekki séð að málum væri háttað með þeim hætti sem lýst var í kvörtuninni. Ekki var því tilefni til að taka hana til frekari meðferðar.

 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2017, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar yðar til mín vegna ferju­flutninga frá Landeyjarhöfn til Vestmannaeyja og til baka í kringum Þjóðhátíð í Eyjum. Samkvæmt kvörtun yðar lúta athugasemdir yðar að því að ekki hafi verið hægt að kaupa miða í tilteknar ferðir í kringum Þjóðhátíð með hefðbundnum hætti heldur aðeins með því að kaupa jafn­framt miða á hátíðina. Nánar tiltekið eru kvörtunaratriðin þau að Eimskip selji alla miða í ákveðnar ferðir til tiltekinna aðila og að Eimskip gefi öðrum leyfi til að endurselja farmiða í Herjólf samhliða miðum á útihátíðina.

Í tilefni af kvörtuninni taldi ég rétt að rita Vegagerðinni bréf, dags. 9. mars sl., þar sem ég óskaði tiltekinna upplýsinga áður en ég tæki frekari ákvörðun um meðferð mína á málinu. Mér barst svar Vega­gerðar­innar, dags. 23. mars sl., og umsögn rekstraraðila Eimskipa, dags. 14. mars sl., og fenguð þér afrit af báðum bréfum um leið og ég óskaði þess að þér kæmuð athugasemdum yðar á framfæri við mig, þ. á m. nánari upplýsingum um hvernig þér telduð brotið á hagsmunum yðar eða þeim samningi sem liggur til grundvallar ferjusiglingunum. Bárust mér þær með bréfi, dags. 1. maí sl.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hafa verið veittar af hálfu Vega­gerðarinnar og fulltrúa Eimskipa fæ ég ekki séð að málum varðandi sölu á ferðum í Herjólf í kringum Þjóðhátíð sé háttað með þeim hætti sem þér lýsið í kvörtun yðar. Samkvæmt svörum [...] fulltrúa Eimskipa, dags. 14. mars sl., er það ekki rétt að allir miðar í ferjuna dagana í kringum þjóðhátíð séu seldir Þjóðhátíðarnefnd þó að nefndin kaupi mikinn fjölda miða. Tilgreinir [...] að um 3000 miðar séu seldir beint í gegnum sölukerfi rekstraraðila fimmtudag og föstu­dag fyrir hátíðina og séu það miðar í allar ferðir þó magnið sé mismikið. Þá kemur fram að Þjóðhátíðarnefnd kaupi miðana sama verði og almennt gildir samkvæmt gjaldskrá. Um fyrirkomulag miðasölu kemur jafn­framt fram að sala ferða í sumaráætlun ferjunnar hafi hafist 22. nóvember 2016 en undanskilin hafi verið m.a. Þjóðhátíðarvikan, en sala í ferðir þá daga hafi hafist 22. febrúar 2017 en það hafi verið auglýst með fyrirvara, sbr. auglýsing á vefsíðu Eimskipa, www.eimskip.is, dags. 6. febrúar s.á. Í svari Vegagerðarinnar kemur jafnframt fram að til þess að mæta eftirspurn sé bætt við ferðum og farþega­fjöldi aukinn en mælt sé fyrir um það í útboðsgögnum.

Í þessu sambandi tek ég fram að af athugasemdum yðar verður ráðið að þér hafið dregið þá ályktun af tölvupóstssamskiptum yðar við [...], dags. 13. mars sl., að þá hafi ferðir í ferjuna í kringum verslunar­mannahelgi 2018 að miklu leyti verið seldar. Af þessu til­efni hafði starfsmaður minn samband við [...] og fékk það stað­fest að um misskilning væri að ræða. Sala væri ekki hafin í þær ferðir en svar [...] miðaðist við lausar ferðir á umræddum dagsetningum árið 2017.

Í ljósi svara Vegagerðarinnar og þeirra upplýsinga sem mér hafa verið veittar tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari með­ferðar með hliðsjón af þeim atriðum sem hún lýtur að. Ég bendi yður þó á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer með málefni Vega­gerðarinnar og samgöngumál almennt. Teljið þér tilefni til eigið þér þess kost að bera athugasemdir yðar undir ráðuneytið.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.