Gjafsókn. Umsögn gjafsóknarnefndar.

(Mál nr. 11004/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun dómsmálaráðherra um að synja umsókn um gjafsókn.

Í samskiptum umboðsmanns við dómsmálaráðuneytið kom fram að ákveðið hefði verið að taka málið aftur til meðferðar. Því var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar 19. mars sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun dómsmálaráðherra 3. nóvember sl. um að synja umsókn hennar um gjafsókn.

Í tilefni af kvörtuninni var ráðherra ritað bréf 26. mars sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum og skýringum. Mér hefur nú borist bréf dómsmálaráðuneytisins 6. þessa mánaðar. Þar er upplýst að ráðuneytið hafi ákveðið að endurupptaka málið. Með bréfinu fylgdi ljósrit af bréfi til gjafsóknarnefndar þar sem óskað er eftir umsögn nefndarinnar um umsókn A á nýjan leik.

Í ljósi þess að dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að taka málið aftur til meðferðar tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna þess að svo stöddu. Læt ég því athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ef A telur sig enn beitta rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu ráðuneytisins getur hún leitað til mín að nýju vegna þess.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl sl. og hefur farið með mál þetta frá 1. maí sl.