Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Landbúnaðarmál.

(Mál nr. 11005/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu umsóknar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom fram að ráðuneytið hefði nú afgreitt umsóknina og málinu væri lokið. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. maí 2021, sem hljóðar svo:

     

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. X ehf. til umboðsmanns Alþingis, dags 24. mars sl., sem beinist að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og lýtur að töfum á afgreiðslu á umsókn félagsins um samþykki ráðherra fyrir ráðstöfun á beinum eignarrétti til félagsins að [tiltekinni jörð].

Í tilefni af kvörtun yðar var ráðuneytinu ritað bréf, dags. 23. apríl sl., þar sem þess var óskað að umboðsmaður Alþingis yrði upplýstur um hvort téð umsókn væri til meðferðar og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Hinn 6. maí barst svar frá ráðuneytinu þar sem kom fram að endanleg niðurstaða vegna umsóknarinnar hefði verið send yður 5. maí sl. og málinu væri því lokið af hálfu ráðuneytisins.

Þar sem kvörtun yðar laut að því að umsókn yðar hefði ekki hlotið afgreiðslu tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Læt ég athugun minni því lokið, sbr. a-lið 2 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ef þér teljið yður beittan rangsleitni með afgreiðslu ráðuneytisins getið þér leitað til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi innan árs frá því að niðurstaðan lá fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl sl. og hefur farið með mál þetta frá 1. maí sl.