Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11081/2021)

Kvartað var yfir að sóttvarnalæknir hefði ekki svarað erindi.

Umboðsmaður taldi ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum við erindinu frá 21. apríl 2021 að tilefni væri til að taka það til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 6. maí sl., þar sem þér kvartið yfir því að sóttvarnalæknir hafi ekki svarað erindi yðar, dags. 21. apríl sl., en með því óskuðuð þér eftir vísindalegri úttekt sóttvarnalæknis á notkun lyfsins Ivermectin gegn Covid-19. Í kvörtun yðar kemur fram að þér hafið ítrekað erindi yðar með tölvupósti, dags. 6. maí sl.

Af þessu tilefni tek ég fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í þessum efnum.

Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum sóttvarnarlæknis við erindi yðar frá 21. apríl sl. að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar. Ég tek þó fram, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin, að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði ófhóflegur dráttur á meðferð erindisins. Þá bendi ég á, að því marki sem erindi yðar til sóttvarnalæknis kann að fela í sér beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, að hafi slík beiðni ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar er beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.