Mannanöfn. Synjun eiginnafns. Lögskýring. Mannréttindi.

(Mál nr. 10110/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði mannanafnanefndar. Þar hafnaði nefndin beiðni um að eiginnafnið Kona yrði samþykkt á mannanafnaskrá á þeirri forsendu að það bryti í bág við íslenskt málkerfi í skilningi 5. gr. laga um mannanöfn. Niðurstaða nefndarinnar og skýringar byggðust einkum á því að reglur íslensks máls væru ekki bundnar við formlega þætti heldur væri merkingarkerfi jafnframt hluti af íslensku málkerfi í skilningi laganna. Nöfn leidd af samnöfnum, sem væru hluti af merkingarflokki sem ekki væri hefð fyrir að nota sem mannanöfn, brytu í bág við íslenskt málkerfi. Samnöfn sem vísuðu almennt til fólks af ákveðnu kyni og/eða aldri, án upphafinna eða skáldlegra merkingartilbrigða, eins og Kona, tilheyrðu merkingarflokki sem ekki væri hefð fyrir að nota sem mannanöfn og röskuðu því merkingarkerfi málsins. Athugun umboðsmanns beindist að þessari afstöðu nefndarinnar og þá hvort úrskurður hennar og þær forsendur byggt var á við beitingu ákvæðisins hefðu verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að réttur manns til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns nyti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar eins og það yrði túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt ríki hefðu svigrúm til mats um hvernig takmörkunum, sem hefðu það að markmiði að vernda tungumálið og hefðir um nafngiftir, væri hátttað yrðu þær þó alltaf að helgast af eðlilegu jafnvægi milli þeirra opinberra hagsmuna sem leitast væri við að tryggja og hagsmuna manns af því að velja sér nafn.

Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga um mannanöfn, forsögu þeirra og lögskýringargögn. Benti hann á að nöfn sem ekki samræmdust íslensku málkerfi gætu allt að einu talist hafa unnið sér hefð í íslensku máli og fullnægðu þá áskilnaði laganna. Þá ályktun mætti auk þess draga af lögum og lögskýringargögnum að með „íslensku málkerfi“ í skilningi laga um mannanöfn væri fyrst og fremst átt við samsafn þeirra reglna sem hefðu unnið sér hefð í íslensku máli og þá einkum þær sem lytu að formlegum þáttum, eins og beygingum, hljóðkerfi og orðmyndun. Leggja yrði til grundvallar að þegar um væri að ræða nöfn sem á annað borð samræmdust íslensku málkerfi í þessum skilningi væri hvorki gert ráð fyrir þau að þau lægju þegar fyrir með tæmandi hætti né að til framtíðar kæmu einungis til greina nöfn sem þegar hefðu unnið sér hefð þannig að nýjungar að þessu leyti væru útilokaðar.

Umboðsmaður benti á að það væri viðurkennt af mannanafnanefnd að ýmis vafatilvik eða jafnvel nokkuð skýrar undantekningar væru um að samnöfn, sem vísuðu til kyns fólks, væru notuð sem mannanöfn í hefðbundnu máli. Var það niðurstaða hans að þau sjónarmið sem mannanafnanefnd byggði á í málinu yrðu ekki leidd með nægilega skýrum hætti af 5. gr. laga um mannanöfn, samhengi ákvæðisins við aðrar reglur laganna eða forsögu og lögskýringargögn. Þá yrði ekki ráðið að nefndin hafi við skýringu laganna tekið nægilegt mið af því hagsmunamati sem leiddi af ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og þannig tekið nægt tillit til fyrrgreindra hagsmuna borgarans af því að fá að ráða nafni sínu og auðkenni sjálfur. Úrskurðurinn hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann því til nefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar kæmi fram beiðni þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmið í álitinu sem og hafa þau framvegis í huga.

    

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 14. júní 2019 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 46/2019 sem kveðinn var upp 22. maí 2019. Með úrskurðinum hafnaði nefndin beiðni um eigin­nafnið Kona á þeirri forsendu að það bryti í bág við íslenskt málkerfi í skilningi 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Í kvörtuninni kemur fram að A telji að Kona uppfylli öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996.

Athugun mín hefur beinst að framangreindri afstöðu mannanafna­nefndar og þá hvort úrskurður hennar og þær forsendur sem byggt hefur verið á við beitingu 5. gr. laga nr. 45/1996 hafi verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 25. maí 2021. 

   

II Málavextir

A sendi umsókn 14. maí 2019 til Þjóðskrár Íslands og óskaði þar eftir að fá að breyta nafni sínu þannig að það yrði eftirleiðis A Kona [...]dóttir. Umsóknina rökstuddi A með því að hana langaði til þess að taka upp millinafn og fyndist Kona vera fallegt nafn. Tveimur dögum síðar sendi Þjóðskrá erindi til mannanafnanefndar og óskaði eftir, með vísan til þess að Kona væri ekki á skrá yfir eiginnöfn, að nefndin skæri úr um hvort heimila ætti nafnið, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn.

Í fyrrgreindum úrskurði mannanafnanefndar er vísað til ákvæðis í 5. gr. laga nr. 45/1996 um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Segir þar að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafi sér hefð í íslensku máli og þær hefðir taki sérstaklega til gerðar mannanafna og merkingar þeirra. Orðið kona sé samnafn, notað um kvenmann á ákveðnum aldri. Hins vegar hafi orðin maður, piltur, strákur, karlmaður, kvenmaður, kona, kerling, mær, stúlka og stelpa ekki verið notuð sem eiginnöfn og verði að teljast að nöfn af þessu tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafi sér hefð í íslensku máli og brjóti gegn íslensku málkerfi. Í úrskurðarorði segir síðan að beiðni um eiginnafnið Kona sé hafnað.

Með tölvubréfi 13. júní 2019 veitti nefndin frekari rökstuðning með vísan til beiðni A frá 28. maí 2019 og vék þar nánar að skýringu á fyrrgreindu lagaákvæði:

„Hér er um að ræða hefðir er varða meðal annars merkingu mannanafna og fela í sér að þegar óskað er úrskurðar um nafn, sem dregið er af samnafni, verður að huga að því hvort merking samnafnsins samræmist hefðum varðandi mannanöfn. Þetta á einkum við ef um er að ræða nafn sem dregið er af samnafni sem hægt er að telja vafasamt að eigi vel við í mannsnafni. Þetta á til dæmis við um ávarpsorð eins og "frú", "ungfrú" og "herra" og einnig við samnöfn sem vísa almennt til fólks eða til fólks af ákveðnu kyni og/eða aldri, þ.e. t.d. "maður", "kona", "stelpa", "strákur", "stúlka" eða "piltur". Í slíkum tilvikum telur nefndin rétt að horfa sér­stak­lega til þess hvort hefð sé fyrir slíkum nöfnum í íslensku máli. Þegar hægt er að telja vafasamt að vel fari á því að draga nafn af tilteknum samnöfnum og ekki er hefð fyrir því í íslensku að svo sé gert telur mannanafnanefnd að líta verði svo á að slíkt nafn brjóti í bág við íslenskt málkerfi.

Sú staðreynd að til eru karlmannsnöfnin Karl og Sveinn og kven­mannsnöfnin Karla og Sveina hefur ekki áhrif á þessa niður­stöðu því að þessi tilteknu nöfn hafa áunnið sér hefð í íslensku máli.”

   

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og mannanafnanefndar

Umboðsmaður Alþingis ritaði mannanafnanefnd bréf 17. október 2019 í tilefni af kvörtun A. Í inngangi að fyrirspurn hans var vakin athygli á að í dómaframkvæmd hér á landi hefði verið byggt á því að rétturinn til nafns sé varinn af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og ákvæðið verður túlkað með hlið­sjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994. Því verði að túlka ákvæði laga nr. 45/1996 til samræmis við framangreindar grundvallarreglur. Takmörkun á réttindum sem falla undir þær þurfi því að reisa á skýrri heimild í settum lögum sem sé nægilega fyrirsjáanleg til að vitað sé til hvaða tilvika henni sé ætlað að ná og skilyrði sé að brýna nauðsyn beri til skerðingarinnar vegna hagsmuna annarra. Enn fremur var bent á að af hálfu íslenskra dómstóla hafi með vísan til þess verið lagt til grundvallar að til þess að skerða megi rétt einstaklings til að velja sér nafn verði að fara fram hagsmunamat og jafnframt verði að túlka og beita ákvæðum laganna með tilliti til til­gangs laganna og meðalhófs. Var þar til hliðsjónar vísað til dóms héraðs­­dóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2013 í máli nr. E-721/2012 og dóms sama dómstóls frá 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014.

Í bréfinu óskaði umboðsmaður eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún teldi fyrrnefnt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 vera nægilega skýra og ótvíræða lagaheimild í skilningi 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar til að setja rétti manna til að velja sér nafn skorður á grundvelli merkingar nafnsins, og í því sambandi hvort og þá með hvaða hætti lagt hefði verið mat á hagsmuni A andspænis almanna­hagsmunum í ljósi þeirra réttinda sem væru undirliggjandi. Umboðsmaður óskaði einnig eftir að nefndin gerði nánar grein fyrir þeirri reglu um merkingu nafna, sem hún byggði á í úrskurðinum, og skýrði með hvaða hætti reglunni hefði verið beitt í fyrri úrskurðum nefndarinnar. Þá óskaði hann nánari upplýsinga um hvað fælist í þeim skýringum formanns nefndarinnar til A að umrædd regla ætti „einkum við“ ef um væri að ræða nafn sem dregið væri af samnafni sem hægt væri að telja „vafasamt“ að „[ætti] vel við“ í mannsnafni.

Svör mannanafnanefndar bárust með bréfi dags. 4. desember 2019. Þar er í upphafi bent á að í greinargerð með mannanafnalögum komi fram að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Í umræddum úrskurði nefndarinnar segi til nánari út­skýringar á þessu að þær hefðir taki sérstaklega til gerðar mannanafna og merkingar þeirra. Með orðinu hefðir sé átt við reglur sem hafa unnið sér hefð en með gerð mannanafna sé átt við formgerð þeirra, þ.e.a.s. hljóðkerfislegt form eða orðhlutafræðilegt form. Mannanöfn, líkt og önnur orð íslensks máls, séu tákn sem feli í sér pörun forms og merkingar. Málkerfi tungumálsins feli í sér merkingarfræðilega þætti auk formlegra þátta eins og hljóðkerfisreglur og orðhlutafræðilegar reglur. Lögð er áhersla á að merkingarkerfi sé þáttur málkerfisins rétt eins og reglur um hljóðskipun, orðmyndun og beygingar og hafi mannanafnanefnd talið rétt að túlka ákvæðið um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi þannig að það eigi við um alla þætti þess enda vandséð hvers vegna einn tiltekinn þáttur ætti að vera undanskilinn. Ekki verði séð að greinargerð með lögunum „mæli gegn þeirri túlkun þótt dæmi sem þar eru tilfærð um óleyfileg nöfn lúti ekki að öllum þáttum mál­kerfisins“.

Í framhaldinu er vikið nánar að nöfnum og merkingu þeirra þar sem m.a. er bent á að mannanöfn dregin af samnöfnum hafi aukamerkingu frá sam­nafninu, t.d. nöfn eins og Trausti (lo. traustur og no. traust) og Sól (no. sól). Mismunandi sé hversu áberandi aukamerking frá samnafni sé og þar skipti máli þættir eins og hve skýrt sambandið sé milli nafns og samnafns, hve algengt samnafnið sé og hve rík hefð sé fyrir nafninu. Við mat á því hvort eiginnafn uppfylli skilyrði laga um mannanöfn geti þessi aukamerking skipt máli og í sumum tilvikum orðið nafnbera til ama, sbr. t.d. úrskurð mannanafnanefndar frá 25. nóvember 2005, í máli nr. 109/2005, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að nafnið Engifer gæti orðið nafnbera til ama vegna aukamerkingar frá samnafninu engifer.

Í skýringum nefndarinnar kemur fram að mannanafnanefnd telji að það stangist á við merkingarkerfi málsins að leiða mannsnafn af þeim sam­nöfnum sem merkja grunnhugtökin ‚kvenmaður‘ eða ‚karlmaður‘, þ.e. af sam­nöfnum eins og kona og karlmaður, en einnig stúlka, piltur, strákur og stelpa. Er þar einkum vísað til þess að nöfn hafi „innbyggða merkingu því að þau [beri] gjarnan með sér um hvað er talað“. Í tilviki mannanafna sé grunnhugtakið sem nöfnin feli í sér raunar venjulega ‚karlmaður‘ eða ‚kvenmaður‘ en ekki hið almenna hugtak ‚maður‘.

Þá segir í svarinu að almennt hefði mannanafnanefnd álitið að nöfn leidd af samnöfnum af merkingarflokkum sem ekki sé hefð fyrir að nota sem mannanöfn geti talist brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Til dæmis hafi fyrri nefnd komist að þeirri niðurstöðu að samnöfn sem merki mann­gerð tól og séu auk þess samsett orð, þ.e. orð á borð við eldavél, flug­vél, geimflaug og blómavasi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli, sbr. úrskurð frá 29. júlí 2013 í máli nr. 27/2013 (Eldflaug) og fleiri dæmi nefnd því til stuðnings. Þá segir:

„Út frá þessu verður þó ekki fullyrt að mannanafnanefnd hafi undantekningalaust byggt á þeirri reglu að nöfn geti ekki verið mynduð af samnöfnum af merkingarflokkum sem ekki hafi áður verið notuð sem nöfn heldur hefur hún lagt tilviksbundið mat á það hvort orð af tilteknum merkingarflokki eigi vel við í nöfnum. Vera kann að nefndin hafi í einhverjum tilvikum hafnað nöfnum á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna þegar eðlilegra hefði verið að vísa til þess ákvæðis að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Raunar hefur mannanafnanefnd í þessum málum stundum einnig grundvallað niðurstöðu sína á 3. mgr. 5. gr. laganna (sjá mál nr. 27/2013 og 25/2015).

Málið sem hér um ræðir er þó ekki að öllu leyti sambærilegt við ofangreind mál. Að vísu telur nefndin að orðið kona tilheyri merkingarflokki sem ekki er hefð fyrir að nota sem mannanöfn [...]. Þetta eru orð sem eru hin almennu og tiltölulega hlutlausu orð sem merkja ‚kvenmaður‘ eða ‚karlmaður‘, þ.e. orð eins og kona, (karl)maður, stúlka, piltur, stelpa og strákur, sem að auki bera með sér vísun til þess að einstaklingur sé á ákveðnum aldri. Með öðrum orðum eru þetta orð yfir grunnhugtökin ‚kvenmaður‘ eða ‚karlmaður‘ (án þeirra aukalegu merkingarbrigða sem upphafin eða skáldleg orð á borð við hrund eða snót bera með sér). Mannanöfn fela einnig í sér sem merkingarþátt grunnhugtakið ‚kvenmaður‘ eða ‚karlmaður‘ og því telur nefndin það röskun á merkingarkerfi málsins að nota slík orð sem mannanöfn.

Mannanafnanefnd tók ekki afstöðu til þess í úrskurði sínum í máli nr. 46/2019, frá 22. maí sl., hvort nafnið Kona geti orðið nafnbera til ama. Það má þó ætla að svo geti verið vegna þess að slíkt nafn hefði aukamerkingu frá samnafninu sem vísar til konu á ákveðnum aldri, sbr. niðurstöðu fyrri nefndar í máli nr. 1/2008 (Kona), frá 13. febrúar 2008.“ 

Í svari nefndarinnar er því næst vikið að dómaframkvæmd Mann­réttinda­dómstóls Evrópu og tekið fram að mannanafnanefnd telji núgildandi lög um mannanöfn málefnaleg og þau hafi verið sett með lög­form­legum hætti. Ákvæði laganna um að eiginnöfn skuli ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi hafi ljóslega þann almenna tilgang að vernda íslenska tungu, ekki síst hefðir er varða nafngiftir á Íslandi. Nefndin telji að ákvæðið „hljóti að eiga við um alla þætti málkerfisins, þar með talið merkingarkerfi málsins“. Jafnframt telur nefndin ekki að sú tak­mörkun á rétti einstaklinga til að velja sér nafn, sem af ákvæðinu leiði, feli í sér brot á friðhelgi einkalífs samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, eins og ákvæðið hefur verið túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá víkur nefndin m.a. að áðurnefndum tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og segir:

„Mannanafnanefnd fær ekki séð að í þessum dómum komi fram að í hvert sinn sem einstaklingi er meinað að velja tiltekið nafn vegna þess að það uppfyllir ekki skilyrði mannanafnalaga þurfi að fara fram mat á hagsmunum viðkomandi einstaklings gagnvart þeim almennu hagsmunum sem búa að baki lögunum. Ekki kemur heldur fram í þessum dómum nokkuð sem skýri á hvern máta nefndin ætti að hátta hags­muna­mati þegar kemur að því að meta hvort takmörkun á rétti til að velja sér nafn sem nefndin telur brjóta gegn ákvæðum 5. gr. manna­nafna­laga, þar með talinn 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna, sam­ræmist tilgangi laganna og meðalhófi. Nefndin telur eins og fyrr segir að lög, nr. 45/1996, um mannanöfn séu málefnaleg og að við setningu þeirra hafi verið gætt jafnvægis milli hagsmuna almennings og einstaklinga enda var með þeim aukið til muna frjálsræði í málaflokknum.“

Í umfjöllun nefndarinnar um tilvik þar sem hagsmunir einstaklings og almennings vegast á kemur jafnframt fram að hún hafi metið það svo „að sá lagarammi sem henni er gert að starfa innan veiti ekki heimild til þess að taka tillit til hagsmuna einstaklinga í málum sem þessum nema aðrir þættir komi einnig til“. Þá er vikið að þeim mun sem er á lagareglum um millinöfn og eiginnöfn að þessu leyti.

Í svari nefndarinnar kemur fram að hún vilji taka fram að það sé álit hennar að það stangist á við málkerfi íslensku að nöfn séu dregin af samnöfnum sem eru hin almennu og tiltölulega hlutlausu orð sem merkja grunn­hugtökin ‚kvenmaður‘ og ‚karlmaður‘, þ.e. orð eins og kona, (karl)maður, stúlka, piltur, stelpa og strákur, sem að auki bera með sér vísun til þess að einstaklingur sé á ákveðnum aldri. Nefndin viðurkenni að orðalag úrskurðar nefndarinnar í málinu hafi ekki verið jafnskýrt og æskilegt hefði verið og formaður nefndarinnar sömuleiðis að sama eigi við um tölvupóst hans til A.

Þá var að lokum fjallað sérstaklega um orðin kona, (karl)maður, stúlka, piltur, stelpa og strákur og væru þau að sögn nefndarinnar notuð til að tákna grunnhugtökin ‚karlmaður‘ eða ‚kvenmaður‘ ásamt því að gefa til kynna aldur viðkomandi. Af þeim sökum teldi nefndin það stangast á við merkingarkerfi málsins að leiða af þessum orðum mannanöfn þar sem mannanöfn hafi í sér fyrirframgefnu hugtaksmerkinguna ‚karlmaður‘ eða ‚kvenmaður‘. Þar sem aukamerking mannsnafnsins Kona væri mjög áberandi, þar sem um nafn væri að ræða, og jafnframt sú sama og fyrirframgefin hug­taksmerking kvenmannsnafns hlytist af því röskun á merkingarkerfi íslensks máls. Enn fremur segir:

„Þetta á ekki við um hvert það nafn sem leitt er af orði sem merkir kvenmaður, t.d. nöfn eins og Snót, Hrund, Víf og Mey, þar sem samnöfnin snót, hrund, víf og mey geta ekki talist almenn eða til­tölulega hlutlaus orð sem merkja ‚kvenmaður‘. Þessi orð teljast til upphafins máls eða skáldamáls og hjá fyrrgreindum nöfnum er aukamerkingin ‚kvenmaður‘ ekki áberandi.“

Í framhaldinu er nánar vikið að úrskurðum nefndarinnar um aðra merkingar­flokka, t.d. um titla og starfsheiti og fyrri sjónarmið áréttuð. Fram kemur að færa mætti fyrir því rök að nefndin hefði ekki gætt nógu vel að því að skýra hvers vegna hún teldi úrskurðinn ekki brjóta í bág við samræmis- og jafnræðissjónarmið og fyrri sjónarmið áréttuð í því sam­bandi.

    

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Nánari afmörkun athugunar

Athugun mín á kvörtun A hefur beinst að því hvort ákvörðun mannanafnanefndar um að synja beiðni hennar um að taka upp eiginnafnið Kona hafi verið reist á viðhlítandi lagagrundvelli, en eins og nánar er rakið að framan byggðist ákvörðunin á því að nafnið samræmdist ekki skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, þess efnis að eiginnafn megi ekki „brjóta í bág við íslenskt málkerfi“. Er því ekki um það að ræða að mannanafnanefnd hafi að svo komnu máli lagt mat á hvort hafna beri beiðninni með vísan til þess að nafnið geti orðið nafnbera til ama, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

Réttur manns til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eins og ákvæðið verður túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttinda­sátt­mála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, sbr. einnig álit setts umboðs­manns Alþingis frá 27. apríl 2009 í máli nr. 4919/2007 og frá 29. desember 2009 í máli nr. 5334/2008. Af þessu leiðir að téð réttindi verða ekki takmörkuð nema með lögum þegar brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið gengið út frá því að takmarkanir sem styðjast við sjónarmið af sama toga og fyrrgreint ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. um að vernda tungumál aðildarríkis og hefðir þess um nafngiftir, þjóni lög­mætum tilgangi. Þótt ríkið hafi hér rúmt svigrúm til mats um hvernig slíkum takmörkunum er nánar fyrirkomið með lögum verða þær þó ætíð að helgast af eðlilegu jafnvægi milli þeirra opinberu hagsmuna sem leitast er við að tryggja og hagsmuna manns af því að velja sér nafn. Kemur þá til skoðunar hvort sú nafngift sem á reynir hverju sinni sé í slíku ósam­ræmi við málkerfi og nafnhefðir hlutaðeigandi tungumáls að í reynd sé vegið óhóflega gegn vernd þess, sbr. til hliðsjónar dóm dómstólsins frá 6. september 2007 í máli nr. 10163/02 Johansson gegn Finnlandi. Horfir téð hagsmunamat við þessar aðstæður því ekki að öllu leyti við með sama hætti og þegar um er að ræða ákvæði í lögum sem eiga að koma í veg fyrir nafngiftir andstæðar hagsmunum barns, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996.

2 Takmörkun á nafngiftum í þágu verndar íslensks málkerfis

Takmarkanir á réttindum manna til að ráða nafni sínu koma fram í ákvæðum laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að berist Þjóðskrá Íslands tilkynning um eiginnafn eða millinafn sem ekki er á mannanafnaskrá skuli það ekki skráð að svo stöddu heldur skuli málinu vísað til mannanafnanefndar. Hlutverk nefndarinnar er að semja manna­nafnaskrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast samkvæmt 5. og 6. gr. laganna.

Um eiginnöfn er fjallað í II. kafla laganna, sbr. 4.-5. gr.. Svo sem áður greinir hafnaði mannanafnanefnd beiðni A um að hún tæki sér nafnið Kona með vísan til 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna sem bannar að eiginnafn brjóti í bág við íslenskt málkerfi, en málsgreinin er í heild sinni svohljóðandi: 

„Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.“

Í skýringum sínum til umboðsmanns hefur mannanafnanefnd lýst þeirri túlkun að það sé ekki ófrávíkjanleg krafa samkvæmt ákvæðinu að nafn sam­ræmist íslensku málkerfi heldur telji hún að „hvert það nafn sem telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli sé leyfilegt þótt það brjóti í bág við eitthvert eða öll þau skilyrði sem getið er um í 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga.“

Hugtakið „íslenskt málkerfi“ er hvorki skilgreint í lögum nr. 45/1996 né öðrum lögum. Þegar sleppir reglum sem settar hafa verið um staf­setningu og greinarmerkjasetningu er enn fremur ekki fyrir að fara skráðum reglum um efnið. Í athugasemdum við 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 45/1996 er allt að einu fjallað nokkuð nánar um íslenskt málkerfi með eftirfarandi hætti:

„Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þessu ákvæði er því einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Afbakanir eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimilar. Enn fremur kemur ákvæðið í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Ákvæðið hindrar einnig að teknir séu inn í íslenskt mál nafnstofnar af erlendum uppruna sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunar­reglum, sbr. fyrrnefnd dæmi um Tsjækovski og Jean. Hins vegar hindrar ákvæðið ekki notkun neinna nafna eða nafnmynda sem þegar hafa unnið sér hefð í íslensku, t.d. endingarlausra nafna eins og Erling og Svanberg.“

Í athugasemdunum kemur einnig fram að ákvæðið svari til 2. málsl. 2. gr. þágildandi laga nr. 37/1991, um mannanöfn, og sé efnislega óbreytt frá þeim lögum. Um skilyrði þess að nafn brjóti ekki í bág við íslenskt málkerfi og samhengi þess við önnur skilyrði 2. gr. var einnig fjallað í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 37/1991 en þar sagði:

„Í 1. mgr. er haldið þeirri reglu gildandi laga, sbr. 1. og 4. gr. þeirra, að nafn skuli vera íslenskt. Á þessu kann að leika vafi og er þetta því skilgreint nánar með þeim hætti að nafn skuli hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þá er áskilið að eiginnafn megi ekki fara í bág við íslenskt málkerfi. Mörg nöfn, sem eru algeng  hér á landi, eru ekki íslensk að uppruna en hafa þó fyrir löngu unnið sér sess í íslensku. Á hinn bóginn kann svo að vera að nöfn hafi unnið sér hefð í málinu en brjóti gegn íslensku málkerfi, svo sem vegna orðmyndunar, hljóðkerfis eða beygingar.“ (Alþt. 1990-1991, A-deild, bls. 617.)

Reglan sem vísað er til í framangreindum athugasemdum á rætur sínar í upphafsmálsliðum 1. og 4. gr. laga nr. 54/1925, sem giltu þegar lög nr. 37/1991 voru sett. Í þeim ákvæðum sagði annars vegar að hver maður skyldi heita „einu íslenzku nafni eða tveim“ og hins vegar að menn mættu ekki bera önnur nöfn en „þau sem rétt [væru] að lögum íslenzkrar tungu“. Í þessu sambandi athugast þó að samkvæmt almennum athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 45/1996 var það samið með m.a. það markmið að leiðarljósi „[a]ð auka frelsi í nafngiftum frá því sem [áður var] einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli, og með því að heimila millinöfn“. Í sama frumvarpi er jafnframt vísað til þess að töluverð gagnrýni hafi komið fram á eiginnafnaákvæði þágildandi laga og sé ástæða þess talin vera að ákvæði 2. gr. laganna um eiginnöfn hafi verið of ströng. Er þar enn fremur lýst því sjónarmiði frumvarpshöfunda að brýnt sé að vinna að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða en hins vegar að „yfirleitt sé farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og áróðri en með lögboði“. (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 669.)

Samkvæmt framangreindu geta nöfn, sem ekki samræmast íslensku málkerfi, allt að einu talist hafa unnið sér hefð í íslensku máli og full­nægja þau þá áskilnaði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Þá verður sú ályktun dregin af fyrrgreindum lögskýringagögnum og forsögu laganna að með „íslensku málkerfi“ sé fyrst og fremst átt við „samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli“ og þá einkum þær sem lúta að formlegum þáttum, eins og beygingum, hljóðkerfi og orð­myndun. Leggja verður til grundvallar að þegar um er að ræða nöfn sem á annað borð samræmast íslensku málkerfi í þessum skilningi sé hvorki gert ráð fyrir því að þau liggi þegar fyrir með tæmandi hætti né að til fram­tíðar komi einungis til greina nöfn sem þegar hafa unnið sér hefð þannig að nýjungar að þessu leyti séu útilokaðar.

3 Túlkun mannanafnanefndar

Líkt og rakið var í III. kafla óskaði umboðsmaður eftir að manna­nafna­nefnd gerði nánari grein fyrir þeim reglum íslensks máls sem hún hefur lagt til grundvallar að þessu leyti og hvernig þeim hefði verið beitt í fyrri úrskurðum. Nefndin hefur í skýringum sínum lagt áherslu á að reglur íslensks máls séu ekki bundnar við formleg atriði, eins og hljóð­kerfi, beygingarreglur eða orðmyndunarreglur, líkt og vísað er til í áðurlýstum lögskýringagögnum, og sé merkingarkerfi málsins því ekki síður hluti af „íslensku málkerfi“. Í þessu sambandi hefur nefndin vísað til þess að nöfn leidd af samnöfnum, sem séu hluti af merkingarflokki sem ekki er hefð fyrir að nota sem mannanöfn, t.d. eldavél eða flugvél, brjóti þar af leiðandi í bág við íslenskt málkerfi. Samnöfn sem vísi almennt til fólks af ákveðnu kyni og/eða aldri – án upphafinna eða skáld­legra merkingartilbrigða á borð við Hrund eða Snót – tilheyri merkingarflokki sem ekki sé hefð fyrir að nota sem mannanöfn og raski það því merkingarkerfi málsins að nota slík orð með þeim hætti.

Líkt og viðurkennt er af mannanafnanefnd er ljóst að ýmis vafa­til­vik eða jafnvel nokkuð skýrar undantekningar eru frá því að samnöfn, sem vísa til kyns fólks, séu notuð sem mannanöfn í hefðbundnu máli, sbr. t.d. nöfnin Karl, Sveinn, Drengur, Snót, Víf og Mey. Áður er rakið að fyrrgreint ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 verði ekki skýrt á þá leið að það geri ráð fyrir því að nöfn, sem á annað borð samrýmast íslensku málkerfi, þurfi að hafa unnið sér hefð sem slík, líkt og á við um erlend nöfn, þannig að alfarið sé girt fyrir nýjungar að þessu leyti. Einnig hefur að framan verið gerð grein fyrir þeim almennu sjónarmiðum sem gilda um skýringu laga sem takmarka stjórnskipulega verndaðan rétt manns til að velja sér nafn og hvernig mat á jafnvægi milli hagsmuna borgarans og opinberra hagsmuna af verndun tungumálsins horfir hér við. Að síðustu hafa verið rakin lögskýringagögn viðvíkjandi skýringu hugtaksins „íslenskt málkerfi“ og forsaga þess ákvæðis sem hér á í hlut, en af þessu verður ekki ráðið að hugtakið íslenskt málkerfi hafi verið skýrt með þeim rúma hætti sem mannanafnanefnd lagði til grund­vallar úrskurði sínum.  

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða mín að þau sjónarmið sem mannanafnanefnd byggði á í téðum úrskurði, svo og síðari skýringum sínum, og lágu til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar um að eiginnafnið Kona samræmdist ekki íslensku málkerfi, verði ekki leidd með nægilega skýrum hætti af ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, samhengi ákvæðisins við aðrar reglur laganna eða forsögu og lögskýringar­gögn. Í þessu sambandi tel ég einnig rétt að benda á að af úrskurði mannanafnanefndar, svo og síðari rökstuðningi og skýringum til umboðsmanns, verður ekki ráðið að nefndin hafi við skýringu laga nr. 45/1996 tekið nægilegt mið af því hagsmunamati sem leiðir af ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og þannig tekið nægt tillit til fyrrgreindra hagsmuna borgarans af því að fá að ráða nafni sínu og auðkenni sjálfur.

Í samræmi við það sem að framan er rakið er það álit mitt að við mat á því hvort orðið Kona teljist brjóta í bág við íslenskt málkerfi, í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, hafi mannanafna­nefnd farið út fyrir það svigrúm til mats sem hún hafði í ljósi orðalags ákvæðisins, lögmælts tilgangs laganna og almennra sjónarmiða um skýringu reglna sem takmarka mannréttindi. Niðurstaða mín er því sú að nefndin hafi ekki sýnt fram á að hún hafi lagt viðhlítandi grundvöll að ákvörðun sinni í málinu og þar með að úrskurður hennar að hafna beiðni um eigin­nafnið Kona hafi verið í samræmi við téð lagaákvæði. Af þessu tilefni vil ég þó taka fram að með þeirri niðurstöðu er ekki tekin nein afstaða til þess hvort sum þau sjónarmið sem nefndin hefur vísað til geti komið til skoðunar á öðrum lagalegum grundvelli, einkum með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 sem kveður á um að nafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

   

V Niðurstaða

Það er niðurstaða mín að úrskurður mannanafnanefndar í máli nr. 46/2019, þar sem beiðni um eiginnafnið Kona var synjað, hafi ekki verið í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggist á því að mannanafnanefnd hafi ekki reist afstöðu sína á viðhlítandi lagagrundvelli í ljósi orðalags 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, sjónarmiða sem byggt var á við setningu laganna og þeirra krafna sem gera verður til matskenndra heimilda stjórnvalda til töku ákvarðana sem takmarka stjórnskipulega verndaða hagsmuni borgaranna.

Það eru tilmæli mín til mannanafnanefndar að hún taki málið til með­ferðar að nýju, komi fram beiðni þess efni frá A, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Jafnframt beini ég því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þessum sjónarmiðum.

   

  

VI Viðbrögð stjórnvalda

Nefndin tók málið upp aftur, kvað upp nýjan úrskurð og samþykkti nafnið.