Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 11002/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs um álagningu stöðubrotsgjalds. Hún hefði verið ólögmæt því ráðherra hefði ekki tekið ákvörðun um að fela Reykjavíkurborg sektarvald vegna brota á ákvæði sem kveður meðal annars á um að einungis megi stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin.

Með vísan til eldri laga, reglugerða og forsögu umferðarlaga taldi umboðsmaður að auglýsing dóms- og kirkjumálaráðherra nr. 100/1988 væri fullnægjandi réttargrundvöllur ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að leggja á umrætt stöðubrotsgjald.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 22. mars sl., sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs um álagningu stöðubrotagjalds, dags. 8. mars sl., fyrir brot gegn 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 sem kveður meðal annars á um að einungis megi stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin. 

Kvörtunin lýtur nánar tiltekið að því að þér teljið að umrædd ákvörðun um álagningu hafi verið ólögmæt í ljósi þess að ráðherra hafi ekki tekið ákvörðun um að fela Reykjavíkurborg sektarvald vegna brota á framangreindu lagaákvæði.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

   

II

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar snýst álitaefnið um hvort fyrir liggi fullnægjandi ákvörðun ráðherra um að álagning og innheimta gjalds vegna brota gegn 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, fari fram á vegum Reykjavíkurborgar, sbr. 2. mgr. 109. gr. sömu laga. Þar vísið þér til þess að í samskiptum yðar við Bílastæðasjóð í kjölfar álagningarinnar hafi sjóðurinn vísað til bréfs dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 22 febrúar 1988. Í því bréfi sé vísað til 108. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 en í því sambandi vekið þér athygli á að brot gegn 2. mgr. 27. gr. þeirra laga, þar sem kveðið var á um að einungis mætti stöðva eða leggja ökutæki hægra megin, hafi ekki verið eitt þeirra ákvæða sem 108. gr. laganna vísaði til. M.ö.o. hafi dóms- og kirkjumálaráðherra ekki með framangreindu bréfi tekið ákvörðun þess efnis að Reykjavíkurborg skyldi sjá um álagningu gjalds vegna brota gegn þeirri lagareglu sem nú er að finna í 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og því skorti Reykjavíkurborg heimild til að leggja á gjaldið.

Við setningu umferðarlaga nr. 50/1987 var kveðið á um í a-lið 1. mgr. 108. gr. laganna að leggja mætti á gjald vegna brota á 4. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 27. gr. laganna. Þá sagði í b-lið ákvæðisins að gjald væri tekið vegna stöðvunarbrota gegn a-, b-, h-, og i-lið 28. gr. Í 3. mgr. 108. gr. umferðarlaga var kveðið á um að lögreglan annaðist álagningu og innheimtu gjaldsins en að dómsmálaráðherra gæti ákveðið að álagning á tilteknum svæðum færi að öllu leyti að eða hluta fram á vegum sveitarfélags.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 1988 tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðherra borgarstjóranum í Reykjavík að ákveðið hefði verið að fallast á að „álagning og innheimta gjalds vegna stöðvunarbrota, sbr. 108. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, fari fram á vegum Reykjavíkurborgar“, sbr. einnig auglýsingu nr. 100/1988, þar sem fram kom að álagning og innheimta gjalds vegna stöðvunarbrota færi „einnig“ fram á vegum Reykjavíkurborgar. Með því fól ráðherra Reykjavíkurborg vald til að taka ákvörðun um stjórnsýsluviðurlög vegna stöðvunarbrota. Síðan lögin voru sett hefur 108. gr. verið breytt, sbr. meðal annars 4. gr. laga nr. 62/1988 og 3. gr. laga nr. 79/2007. 

 Í maí 2017 hófst vinna við heildarendurskoðun umferðarlaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2019 kemur fram að markmið lagasetningarinnar hafi meðal annars verið að stuðla að auknu umferðaröryggi, færa gildandi ákvæði til nútímalegra horfs, lögfesta í ríkari mæli grundvallarefnisreglur á einstökum sviðum og útfæra reglugerðarheimildir ráðherra með heildstæðari og skýrari hætti. (Sjá þskj. 231 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 46.)

Í 109. gr. laga nr. 77/2019 er meðal annars kveðið á um að leggja megi á gjald vegna 2. mgr. 9. gr. og 2. og 3. mgr. 28. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Þá má leggja á gjald vegna brota á ákvæðum 29. gr. laganna, sbr. b-lið 1. mgr., sem er sambærilegt ákvæði og 28. gr. eldri umferðarlaga nr. 50/1987. Í athugasemdum við 110. gr. frumvarpsins, er varð að 109. gr. laganna við gildistöku þeirra, segir að ákvæðið fjalli um „álagningu og innheimtu gjalds vegna brota gegn tilgreindum ákvæðum laganna, einkum um stöðvun og lagningu ökutækja, en það [sé] að því leyti samhljóða 108. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. [sé] lagt til í b-lið að ákvæði 28. gr. um stöðvun og lagningu ökutækja verði grundvöllur gjaldtöku.“ (Sjá þskj. 231 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 116).

Í 3. málsl. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 77/2019 er kveðið á um að ráðherra geti ákveðið, að ósk sveitarstjórnar, að álagning og innheimta gjalds fari að öllu leyti eða að hluta fram á vegum sveitarfélags. Fari álagning fram á vegum sveitarfélags skal ráðherra staðfesta gjaldskrá þess, sbr. 5. mgr. 109. gr. Samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um hvernig gjaldið skuli lagt á og innheimt. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra staðfesti gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík 22. október 2020 með vísan til 5. mgr. 109. gr. umferðarlaga, sbr. reglur um álagningu og innheimtu stöðugjalds vegna brota nr. 104/1988, með síðari breytingum, sbr. 6. gr. gjaldskrárinnar, sbr. auglýsingu nr. 1036/2020, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 26. þess mánaðar.

Með vísan til alls þess sem ég hef rakið hér að framan tel ég að umrædd auglýsing dóms- og kirkjumálaráðherra nr. 100/1988 sé fullnægjandi réttargrundvöllur ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að leggja á yður stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, sbr. 2. mgr. 109. umferðarlaga nr. 77/2019. Í því sambandi bendi ég á að með lagaákvæðinu hefur löggjafinn mælt fyrir um hvers konar brot skuli varða álagningu slíkra gjalda auk þess sem ráðherra hefur staðfest stjórnvaldsfyrirmæli Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars mælt er fyrir um fjárhæð stöðvunarbrotagjalds vegna brota gegn 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2019, sbr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1036/2020.

Til hliðsjónar framangreindu er rétt að taka fram að þegar frumvarp það er varð að lögum nr. 77/2019 var lagt fram í þinginu var í 3. mgr. 116. gr. þess kveðið á um að reglugerðir og önnur fyrirmæli sem sett voru á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987 haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóti ekki í bága við ákvæði laga þessara. Í nefndaráliti segir um þetta atriði:

„Í 3. mgr. 116. gr. er kveðið á um að reglugerðir og öll önnur fyrirmæli sem sett hafa verið samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóti ekki í bága við ákvæði nýrra laga, uns nýjar reglugerðir hafa tekið gildi. Nefndin áréttar þá meginreglu að við gildistöku nýrra heildarlaga halda reglugerðir settar með stoð í eldri lögum gildi sínu að svo miklu leyti sem þær verða samrýmdar hinum nýju lögum en það ræðst af skýringum á ákvæðum laganna hvort svo sé, sbr. umfjöllun í riti Sigurðar Líndal Um lög og lögfræði. Sérákvæði um áframhaldandi gildi reglugerða er því óþarft og gæti jafnvel frekar verið til þess fallið að skapa óvissu í ljósi framangreindrar meginreglu. Með vísan til þessa leggur nefndin til að 3. mgr. 116. gr. falli brott.“ (Sjá þskj. 1618 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls 13.)   

Breytingartillagan var lögð fram til samræmis við framangreint nefndarálit og ákvæðið fellt brott. (Sjá þskj. 1619 á 149. löggjafarþingi 2018-2019.)

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.