Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11022/2021)

Kvartað var yfir ákvörðunum Tryggingastofnunar í tengslum við rétt til þess að fá greiddan örorkulífeyri en úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvarðanir um að synja beiðnum um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

Eftir að hafa kynnt sér úrskurð nefndarinnar og gögn málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að viðkomandi hefði ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að ákvarðanir Tryggingastofnunar hefðu fyrst og fremst byggst á upplýsingum um tekjur úr skattframtölum. Þá var fallist var á að dreifa kröfunni í því skyni að koma til móts við aðstæður hans.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 6. apríl sl. yfir ákvörðunum Tryggingastofnunar í tengslum við rétt yðar til þess að fá greiddan örorkulífeyri á grundvelli laga nr. 100/2007, um almanna­tryggingar. Með úrskurði frá 17. mars sl. í máli nr. 553/2020 staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar að synja beiðnum yðar um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

Af kvörtun yðar og þeim athugasemdum sem þér komuð á framfæri við úrskurðarnefndina í stjórnsýslukæru yðar og við meðferð málsins verður ráðið að þér teljið ofangreindar ákvarðanir Tryggingastofnunar hafa verið byggðar á röngum upplýsingum um tekjur yðar og fjárhagsstöðu að öðru leyti.

Afrit af gögnum málsins bárust 26. apríl sl. samkvæmt beiðni þar um.

   

II

Eftir því sem fram kemur í gögnum málsins liggur fyrir að þér fenguð á árinu 2018 greiddan örorkulífeyri frá 1. janúar til 31. september og ellilífeyri frá 1. október til loka ársins. Við uppgjör ársins 2018, sem fór fram 22. maí 2019, kom í ljós ofgreiðsla að fjárhæð 1.346.826 kr. Á árinu 2019 fenguð þér svo greiddan ellilífeyri og tengdar greiðslur. Við uppgjör vegna ársins 2019, sem fór fram 22. maí 2020, kom líkt og árið áður í ljós ofgreiðsla að fjárhæð 563.827 kr. Í tilefni af þessu beitti Tryggingastofnun endurkröfurétti sínum. Í kjölfar þess óskuðuð þér eftir að fallið yrði frá endurkröfum stofnunarinnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endur­reikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þeim beiðnum yðar var synjað. Þær synjanir kærðuð þér til úrskurðarnefndar velferðarmála 29. október 2020.

   

III

Í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar er mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ.á m. greiðslur örorku- og ellilífeyris, og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna er mælt fyrir um tekjutengingu líf­eyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi þeirra greiðslna sem um ræðir. Er meginreglan sú, sbr. 2. mgr. 16. gr., að hvers kyns skattskyldar tekjur hafa áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir. Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. byggist útreikningur bóta í upphafi á upplýsingum um tekjur bótaþega sem m.a. stafa frá honum sjálfum, sbr. einnig 1. mgr. 39. gr. laganna, en bótaþega er á grundvelli þess ákvæði einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli yðar er mælt svo fyrir um í 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 að eftir að endan­legar upplýsingar liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opin­berum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grund­velli tekna. Komi í ljós við þann endurreikning að bætur hafi verið of­greiddar skal Tryggingastofnun draga hinar ofgreiddu bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til en stofnunin öðlast þó einnig endur­kröfurétt á hendur viðkomandi bótaþega, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna.

Samkvæmt 7. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 er ráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, m.a. um undanþágu frá inn­heimtu ofgreiddra bóta. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunar­­framlags. Ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

 „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Af framanröktu verður ráðið að þegar bætur hafa verið ofgreiddar beri Tryggingastofnun að innheimta það sem ofgreitt er nema „alveg sérstakar aðstæður“ séu fyrir hendi. Skal þá litið til annars vegar fjárhagslegra og félags­legra aðstæðna bótaþega og hins vegar þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Af 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 leiðir að úrskurðar­nefnd almannatrygginga hefur m.a. verið falið að leiða til lykta ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Í því felst að meta hvort framangreindum matskenndu skil­yrðum 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé fullnægt til þess að bóta­þega verði veitt undanþága frá endurkröfu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í ljósi þess beinist athugun umboðsmanns á tilvikum þar sem löggjafinn hefur með skýrum hætti falið stjórnvöldum ákveðið mat fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvöld hafi með full­nægjandi hætti staðið að undirbúningi og rannsókn mála, hvort byggt hafi verið á mál­efnalegum sjónarmiðum við matið og hvort ályktanir sem dregnar hafa verið af gögnum málsins eigi sér stoð í gögnum máls og séu ekki bersýnilega óforsvaranlegar. Athugun umboðsmanns Alþingis í slíkum tilvikum felur hins vegar almennt ekki í sér sjálfstætt endurmat á þeim atriðum sem löggjafinn hefur lagt í hendur stjórnvalda að meta.

Líkt og að ofan greinir taldi úrskurðarnefndin ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þær ákvarðanir Tryggingastofnunar að synja ofangreindum beiðnum yðar um að fallið yrði frá endurkröfum vegna hinna ofgreiddu bóta. Af úrskurði nefndarinnar verður ráðið að sú afstaða byggist á því að greiðslur örorku- og ellilífeyris sæti tekjuskerðingu og bótaþegar séu upplýstir um það við upphaf lífeyristöku. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 komi það í hlut þess sem þiggur lífeyri frá Tryggingastofnun að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á hverju ári. Þannig taldi nefndin að yður hefði mátt vera kunnugt um að þær tekjur sem féllu til á árunum 2018 og 2019 gætu haft áhrif á þær bótagreiðslur sem þér nutuð á sama tíma og yður hafi borið að upplýsa um þær. Taldi nefndin því ekki unnt að fallast á að þér hefðuð verið í góðri trú s.s. 11. gr. reglugerðar nr. 589/2009 áskilur, sbr. ofan­greint. Eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og gögn málsins tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu úr­skurðar­nefndarinnar. Horfi ég þá til þess að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þær ákvarðanir Tryggingastofnunar sem hér um ræðir hafi fyrst og fremst byggst á upplýsingum um tekjur yðar úr skatt­fram­tölum.

Að þessu slepptu liggur einnig fyrir að tekin var afstaða til beiðna yðar um að fallið yrði frá endurkröfum vegna hinna ofgreiddu bóta af hálfu samráðsnefndar Tryggingastofnunar á grundvelli mats á fjárhags­legri og félagslegri stöðu yðar og fallist var á að dreifa kröfunni yfir 60 mánuði í því skyni að koma til móts við aðstæður yðar. Ég tel því ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar að þessu leyti.

Með hliðsjón af ofangreindu, þ.e. að virtum rökstuðningi úrskurðar­nefndarinnar í úrskurði hennar og öðrum gögnum málsins, tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín vegna málsins muni leiða til athugasemda við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og þær ákvarðanir Trygginga­stofnunar sem um ræðir. Tel ég því ekki tilefni til þess að taka mál yðar til frekari athugunar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.