Heilbrigðismál. COVID-19.

(Mál nr. 11065/2021)

Kvartað var yfir að erindi hefði ekki verið svarað.

Við eftirgrennslan umboðsmanns hjá heilbrigðisráðuneytinu kom í ljós að erindinu hafði verið svarað fyrir nokkru og svarið síðan áréttað. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 28. apríl sl. vegna skorts á svörum við erindi sem þér komuð á framfæri við heilbrigðisráðuneytið í mars sl., auk annarra stjórnvalda, og lýtur að grímuskyldu sem nú er við lýði víða í samfélaginu vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Í tilefni af kvörtun yðar var heilbrigðisráðuneytinu ritað bréf, dags. 3. maí sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti um hvort erindi yðar hefði borist og hvað liði þá meðferð og afgreiðslu þess. Svör ráðuneytisins hafa nú borist. Þar kemur fram að erindi yðar hafi verið svarað 31. mars sl. Auk þess kom fram í svari ráðuneytisins að fyrri svör þess vegna erindis yðar hefðu verið áréttuð 17. maí sl. Svari ráðuneytisins fylgdi afrit af þeirri tilkynningu.

Af þessu tilefni tel ég rétt að taka fram að í hinni óskráðu reglu stjórnsýsluréttarins sem nefnd hefur verið svarreglan felst að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins. Staða einstaklings sem er aðili að stjórnsýslumáli er almennt önnur í þessu tilliti en þess einstaklings sem t.d. sendir stjórnvaldi almenna fyrirspurn eða annars konar almennt erindi. Í þessu sambandi bendi ég á að borgarar geta almennt ekki gert þá kröfu til stjórnvalda að þau fjalli almennt um einstök álitaefni sem standa ekki í tengslum við tiltekið stjórnsýslumál.

[...]

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.