Aðgangur að gögnum og upplýsingum. COVID-19.

(Mál nr. 11096/2021)

Óskað var eftir að umboðsmaður mæti rétt á því að fá aðgang að þeim bóluefnasamningum sem íslenska ríkið hefði gert við lyfjaframleiðendur vegna COVID-19.  

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og var viðkomandi bent á að gera það áður en málið gæti komið til kasta umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til erindis yðar til mín, f.h. mannréttindasamtakanna X, dags. 14. maí sl., þar sem þér óskið eftir því að umboðsmaður Alþingis meti rétt samtakanna á því að fá aðgang að þeim bóluefnasamningum sem íslenska ríkið hefur gert við lyfjaframleiðendur bóluefna vegna COVID-19. Í erindinu vísið þér til þess að í kjölfar nýlegrar fyrirspurnar til heilbrigðisráðuneytisins, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvenær samningar við lyfjaframleiðendur yrðu gerðir opinberir, hafi ráðuneytið lýst þeirri afstöðu sinni að samningarnir féllu undir nánar tilteknar takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af þessu leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns Alþingis nema kvörtun varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar að því marki að játa verður honum rétt til að kvarta af því tilefni. Umboðsmanni er hins vegar ekki ætlað samkvæmt lögum að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum fyrirspurnum um tiltekin málefni eða réttarsvið.

Þá leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.  

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að af erindi yðar verður ekki fyllilega ráðið hvort afstaða ráðuneytisins sé til komin vegna fyrirspurnar samtakanna sjálfra eða hvort um hafi verið að ræða svar við fyrirspurn annars aðila. 

Hafi fyrirspurnin verið lögð fram af hálfu samtakanna bendi ég yður á að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Þá skal mál samkvæmt 1. mgr. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Ekki verður ráðið af kvörtun yðar að samtökin hafi leitað til nefndarinnar. Þar til afstaða hennar liggur fyrir eru því ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtunin verði tekin til meðferðar af minni hálfu að svo stöddu.

Ég tek þó fram að kjósi samtökin að bera synjun ráðuneytisins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og telji sig enn rangsleitni beitt að fenginni niðurstöðu hennar geta þau leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi. Í því sambandi bendi ég á að ef svar ráðuneytisins var við erindi annars aðila verða samtökin fyrst að beina sérstöku erindi til ráðuneytisins, sem þannig fær tækifæri til að taka afstöðu til þess, og eftir atvikum leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, áður en kvörtunin getur komið til athugunar af minni hálfu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.