Lögreglu- og sakamál. Yfirstjórnarhlutverk ráðherra. Hæfi.

(Mál nr. 11093/2021)

Kvartað var yfir þátttöku dómsmálaráðherra og yfirlögregluþjóns almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra í myndbandi sem bar heitið „Ég trúi“.

Kvörtun til umboðsmanns þarf jafnan að varða tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Umboðsmanni er ekki ætlað að láta almennar lögfræðilegar álitsgerðir í té eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 13. maí sl., sem beinist að dómsmálaráðherra og yfirlögregluþjóni almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að þátttöku þeirra í myndbandi sem ber heitið „Ég trúi“.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af þessu leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar að því marki að játa verður honum rétt til að kvarta af því tilefni. Umboðsmanni er hins vegar ekki ætlað samkvæmt lögum að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur eru slík mál eftir atvikum tekin til umfjöllunar á grundvelli heimildar umboðsmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 til að taka starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Þessari ábendingu, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis berast, verður haldið til haga.

Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.