Fullnustugerðir og skuldaskil. Innheimtustarfsemi.

(Mál nr. 11102/2021)

Kvartað var yfir innheimtuaðgerðum einkafyrirtækis og lagaumhverfi þess. 

Þar sem kvörtunin beindist að starfsemi einkaaðila og fól ekki í sér beitingu opinbers valds samkvæmt lögum féll hún utan starfssviðs umboðsmanns. Var viðkomandi bent á að beina erindinu til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 19. maí sl., sem þér beinið að X ehf. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að hún lúti að innheimtuaðgerðum fyrirtækisins gagnvart yður og að þér teljið þörf á að breyta því lagaumhverfi sem það starfar eftir.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. laganna er starfssvið umboðsmanns nánar útfært í samræmi við þetta, en samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða falla undir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Af framangreindum ákvæðum leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns Alþingis nema kvörtunin varði tiltekna ákvörðun,  athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að X ehf. er einkahlutafélag og starfar m.a. á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og telst því fyrirtæki á sviði einkaréttar. Kvörtun yðar beinist þannig að starfsemi einkaaðila sem felur ekki í sér beitingu opinbers valds sem honum hefur verið fengið með lögum og fellur hún því utan starfssviðs umboðsmanns.

Ég bendi yður þó á, þar sem þér teljið þörf á úrbótum eða breytingum á lagaumhverfi fyrirtækisins, að yður er fært að beina erindum til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar um þessi mál. Í því sambandi fer atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með mál er varða frum- og milliinnheimtu peningakrafna, sbr. d-lið 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þessu til viðbótar er hægt að beina erindum af þessu tagi til alþingismanna og þingnefnda.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Lýk ég því umfjöllun minni um mál yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.