Börn. Innheimta meðlaga.

(Mál nr. 10958/2021)

Kvartað var yfir Innheimtustofnun sveitarfélaga og samskiptum við hana vegna meðlagsskuldar.

Af samskiptum viðkomandi við Innheimtustofnun sveitarfélaga varð ráðið að beiðni um niðurfellingu meðlagsskuldar hefði verið til meðferðar árið 2015 en hins vegar varð ekki ráðið af þeim að hann hefði borið athugasemdir sínar undir stjórn stofnunarinnar. Málið féll því utan ársfrests og kæruleið hafði ekki verið tæmd. Hvorki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar hvað þetta snerti né vegna athugasemda varðandi sundurliðun á kröfugerð stofnunarinnar þar sem brugðist hafði verið við þeirri umleitan.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar frá 22. febrúar sl. sem beinist að Innheimtustofnun sveitarfélaga og lýtur að samskiptum yðar við stofnunina vegna meðlagsskuldar. Í kvörtuninni gerið þér meðal annars athugasemd við innheimtu stofnunarinnar og að ekki sé unnt að fá sundurliðun á kröfugerð hennar á hendur yður, nánar tiltekið skilgreiningu á uppruna höfuðstóls sem um ræðir. Kvörtunin beinist jafnframt að því að stofnunin virði ekki samning sem þér gerðuð til þriggja ára um greiðslu eftirstöðva skuldarinnar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Innheimtustofnun sveitarfélaga ritað bréf, dags. 23. febrúar sl., með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem óskað var eftir fyrirliggjandi gögnum í málinu. Tiltekin gögn bárust 12. maí sl. Þá barst mér afrit af tölvubréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til yðar, dags. 14. maí sl.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er jafnframt ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis.

Um innheimtustofnun sveitarfélaga gilda samnefnd lög nr. 54/1971. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er stjórn hennar skipuð þremur mönnum. Á grundvelli athugasemda við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/1971 verður ráðið að stjórn innheimtustofnunar sinni tilteknu eftirliti með starfsemi stofnunarinnar þrátt fyrir að ekki verði með ótvíræðum hætti ráðið í hvaða tilvikum unnt sé að bera einstök mál og erindi undir stjórn stofnunarinnar.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 er mælt fyrir um heimild stjórnar til að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhaglega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti ekki greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samninginn.

Innheimtustofnun sveitarfélaga lét sitja við það að senda mér eingöngu nýjustu samskipti stofnunarinnar, án þess að sú ákvörðun stofnunarinnar væri skýrð sérstaklega. Af þeim gögnum málsins verður þó ráðið að beiðni yðar um niðurfellingu höfuðstóls samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 hafi verið til meðferðar árið 2015 og yður hafi í tilefni af henni verið tilkynnt um að unnt væri að fella höfuðstólinn niður gegn greiðslu vanefnda og að þér skiluðuð inn skattframtali 2014 ásamt launaseðlum sl. þriggja mánaða. Hins vegar hafið þér ekki talið yður vera í vanskilum og ekki lagt fram umbeðin gögn. Af þeirri ástæðu hafi innheimtu verið haldið áfram af hálfu stofnunarinnar. Í ljósi þessa legg ég þann skilning í kvörtun yðar að þér teljið áframhaldandi innheimtu meðlagsskuldar yðar hafa verið óheimila þar sem skilyrði hafi verið fyrir því að fella niður höfuðstól skuldarinnar þegar árið 2015.

Þrátt fyrir að ekki verði fyllilega ráðið af þeim takmörkuðu gögnum sem ég fékk afhent frá Innheimtustofnun sveitarfélaga hvort máli yðar lauk með formlegum hætti, þ.e. með ákvörðun sem var tilkynnt yður, er ljóst að beiðni yðar um niðurfellingu var til meðferðar árið 2015. Þá verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvort þér hafið freistað þess að bera athugasemdir yðar um innheimtu meðlagsgreiðslna undir stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga og raunar ekki heldur hvort stofnunin leiðbeindi yður um þann möguleika. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég því ekki rétt að fjalla um þetta atriði í kvörtun yðar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér freistið þess að leita til stjórnar stofnunarinnar og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín á ný innan eins árs frá því afstaða hennar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tel ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af athugasemdum yðar er varða sundurliðun á kröfugerð Innheimtustofnunar sveitarfélaga þar sem stofnunin hefur nú brugðist við þeirri beiðni, sbr. tölvubréf frá 14. maí sl.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég umfjöllun um kvörtun yðar lokið.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.