Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Rökstuðningur. Endurupptaka.

(Mál nr. 10966/2021)

Kvartað var yfir úrskurðum stjórnar Persónuverndar og ákvörðun Persónuverndar um að synja endurupptöku máls.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu Persónuverndar að vinnsla Kópavogsbæjar á persónuupplýsingum um viðkomandi í tengslum við umsóknir barnsmóður hans um þjónustu vegna barns þeirra hefði samrýmst lögum. Við skoðun málsins varð ekki annað ráðið en að í úrskurði Persónuverndar í málinu hefði verið gerð grein fyrir þeim reglum og sjónarmiðum sem niðurstaða stofnunarinnar byggðist á. Hvorki rökstuðningur Persónuverndar né önnur atriði varðandi úrskurðinn gáfu því tilefni til frekari athugunar umboðsmanns. Sama máli gegndi um endurupptökubeiðnina. Taldi umboðsmaður Persónuvernd hafa lagt fullnægjandi mat á hana sem og annað sem kvartað var yfir. Að lokum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu Persónuverndar um vinnslu persónuupplýsinga um viðkomandi hjá Tryggingastofnun.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til erindis yðar frá 25. febrúar sl. þar sem þér kvartið yfir úrskurðum stjórnar Persónuverndar frá 27. febrúar 2020 í málum nr. 2020010728 (áður 2018091403) og 2020010721 og ákvörðun Persónuverndar frá 2. september 2020 í máli nr. 2020041512 þar sem beiðni yðar um endurupptöku fyrstgreinda málsins var synjað.

   

II

1

Af kvörtuninni verður ráðið að þér séuð einkum ósáttir við að í máli nr. 2020010728 hafi ekki verið orðið við kröfu yðar um að leiðrétta upplýsingar um yður í gögnum hjá Kópavogsbæ með þeim hætti að upplýsingar sem þér tölduð rangar yrðu dregnar til baka, en ekki eytt, en réttar upplýsingar lagðar fram í nýju og leiðréttu skjali í staðinn. Í því sambandi vísið þér til leiðbeininga frá Þjóðskjalasafni Íslands.

Í úrskurði Persónuverndar frá 27. febrúar 2020 í máli nr. 2020010728 segir eftirfarandi um þetta atriði:

„[...]þegar eyðing eða breyting gagna á grundvelli ákvæðisins er óheimil beri engu að síður að veita hinum skráða kost á að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar. Þá ber að líta svo á, í ljósi áðurgreindrar kröfu um sanngirni, að þegar um ræðir matskenndar upplýsingar eigi hinn skráði rétt á að fá færðar inn athugasemdir sínar til leiðréttingar, svo sem í bréfi sem varðveitt er með gögnunum.

Fyrir liggur að með bréfi, dags. 30. ágúst 2018, var kvartanda boðið að senda greinargerð til Kópavogsbæjar um þau atriði sem hann teldi ranglega skráð í gögnum bæjarins og hún yrði síðan tengd með dagsettri tilvísun við málsskjölin til leiðréttingar. Verður Kópavogsbær því talinn hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 16. gr. reglugerðar ESB 679/2016.“

Í 20. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, er fjallað um réttinn til leiðréttingar, eyðingar, flutnings eigin gagna o.fl. Þar segir í 1. mgr.: „Hinn skráði á rétt á að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar um sig leiðréttar svo og rétt til að ábyrgðaraðilinn eyði persónuupplýsingum um hann án ótilhlýðilegrar tafar (réttur til að gleymast) og rétt til að ábyrgðaraðili takmarki vinnslu samkvæmt nánari skilyrðum 16.–19. gr. reglugerðarinnar.“

Í 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 segir að skráður einstaklingur eigi rétt á að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar er varða hann sjálfan leiðréttar af ábyrgðaraðila án ótilhlýðilegrar tafar. Að teknu tilliti til tilgangsins með vinnslunni skuli hinn skráði eiga rétt á að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, þ.m.t. með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar. Af úrskurði Persónuverndar verður ráðið að stofnunin hafi litið svo á að umræddar persónuupplýsingar hafi verið „ófullkomnar“ í skilningi reglugerðarinnar, sbr. framangreinda tilvitnun, fremur en að lagt hafi verið til grundvallar að þær væru rangar.

Þegar metið er hvort persónuupplýsingarnar séu taldar ófullkomnar er það gert í ljósi tilgangs viðkomandi upplýsingaöflunar. Almennt er auðvelt að staðreyna hvort upplýsingar sem hægt er að staðreyna á hlutrænan hátt séu réttar. Þegar upplýsingar fela aftur á móti í sér mat, sem eftir atvikum er sett fram eins og um staðreyndafullyrðingar sé að ræða, getur hins vegar verið erfitt að taka af tvímæli um hvort slíkar upplýsingar séu réttar eða rangar eða hvort nærtækara sé að meta hvort þær séu ófullkomnar. Mat á því samhengi, sem upplýsingar birtast í, ræður því oftast hvort upplýsingar verði taldar rangar, villandi eða ófullkomnar. Þegar um matskenndar upplýsingar er að ræða hefur verið lagt til grundvallar að oft sé nærtækast að leyfa hinum skráða að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar þeim upplýsingum sem hann telur ófullkomnar. Sjá nánar Páll Hreinsson: Vinnsla persónuupplýsinga við meðferð stjórnsýslumála, Reykjavík 2019, bls. 55-56.

Til hliðsjónar bendi ég á að í danskri réttarframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að þegar um er að ræða matskenndar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem byggjast á huglægu eða faglegu mati, sé almennt gætt að rétti hins skráða samkvæmt 16. gr. reglugerðar 2016/679 með því að leggja við málið upplýsingar um sjónarmið hans enda þurfi mikið að koma til til þess að unnt sé að krefjast þess að hinar leiðréttu eða fullgerðu upplýsingar endurspegli eingöngu hans eigið huglæga mat. Sjá til hliðsjónar Databeskyttelsesforordningen og databeskyttelsesloven med kommentarer. Kaupmannahöfn 2020, bls. 539-540.

Þau gögn sem lágu fyrir hjá Kópavogsbæ og Persónuvernd lagði mat á voru tvær umsagnir með tillögum velferðarsviðs Kópavogsbæjar að umönnunarmati vegna umsóknar barnsmóður yðar til Tryggingastofnunar um umönnunargreiðslur, umsókn hennar og afgreiðsla á umsókn um stuðningsfjölskyldu, umsókn hennar og afgreiðsla á umsókn um sérfræðiráðgjöf Áttunnar uppeldisráðgjafar og lokaskýrsla þeirrar ráðgjafar.

Þær upplýsingar sem þér gerðuð athugasemdir við og tölduð rangar lúta meðal annars að því hvernig umgengni yðar við barn yðar hefði verið háttað, atvik tengd sambandsslitum yðar, hvernig félagslegum aðstæðum barnsmóður yðar væri háttað og ályktanir hennar um heilsufar yðar. Fyrir liggur að upplýsingarnar voru veittar af barnsmóður yðar í tengslum við umsóknir um þjónustu vegna sonar yðar og fela þær í sér huglæga lýsingu hennar á atvikum og aðstæðum eins og þau horfa við henni. Í ljósi þess fæ ég ekki annað ráðið en að sá kostur sem yður var veittur til að gæta réttar yðar samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018 hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim lagasjónarmiðum sem rakin eru hér að framan. Að virtum lagagrundvelli málsins og fylgigögnum með kvörtun yðar tel ég því ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2020010728 að vinnsla Kópavogsbæjar á persónuupplýsingum um yður í tengslum við umsóknir barnsmóður yðar um þjónustu vegna barns yðar hafi samrýmst lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Að því er varðar athugasemdir yðar um rökstuðning Persónuverndar tek ég fram að um efni rökstuðnings er fjallað í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Samkvæmt ákvæðinu skal þar sem ástæða er til í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Ég fæ ekki annað ráðið en að í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2020010728 sé gerð grein fyrir þeim reglum og sjónarmiðum sem niðurstaða stofnunarinnar er byggð á. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til frekari athugunar. Önnur atriði í kvörtun yðar varðandi úrskurðinn tel ég ekki heldur gefa tilefni til frekari athugunar. 

2

Yður var synjað um endurupptöku máls nr. 2020010728 með ákvörðun Persónuverndar frá 2. september 2020 í máli nr. 2020041512 á grundvelli þess að hvorki væru skilyrði til endurupptöku á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttarins.

Í 1. tölul 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá kann aðili máls að eiga rétt á endurupptöku á ólögfestum grundvelli, s.s. ef ákvörðun er haldin verulegum efnislegum annmarka eða þegar verulegur annmarki eða mistök hafa orðið við málsmeðferð.

Í ákvörðun Persónuverndar frá 2. september 2020 var lagt til grundvallar að ekki yrði séð að beiðni yðar um endurupptöku eða þau gögn sem henni fylgdu bentu til þess að úrskurður stofnunarinnar hefði byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða að ný gögn sem þér lögðuð fram vörpuðu öðru ljósi á málsatvik en fyrirliggjandi gögn málsins gerðu. Einnig var lagt til grundvallar að ekkert benti til þess að stofnunin hefði lagt rangt mat á gögn og upplýsingar sem úrskurður í málinu byggðist á.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð Persónuverndar frá 27. febrúar 2020 í máli nr. 2020010728, ákvörðun stofnunarinnar frá 2. september 2020, kvörtun yðar og fylgigögn fæ ég ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hafi verið lagt á endurupptökubeiðni yðar. Þá tel ég ekki, meðal annars með hliðsjón af niðurstöðu minni hér að framan í kafla II.1, tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun stofnunarinnar að synja beiðni yðar um endurupptöku.

3

Þér gerið athugasemdir við þá afstöðu sem fram kemur í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2020010721 að Tryggingastofnun hafi mátt ganga út frá því að persónuupplýsingar frá Kópavogsbæ um yður væru áreiðanlegar. Auk þess sem þér teljið það vera í mótsögn við úrskurð í máli nr. 2020010728 legg ég þann skilning í kvörtunina, að virtu efni úrskurðarins, að þér séuð ósáttir við að Tryggingastofnun hafi ekki sannreynt upplýsingarnar. Í úrskurðinum sagði um þetta atriði:

„Samkvæmt skýringum TR eru skýrslur sérfræðinga unnar til að fá sem heildstæðasta mynd af aðstöðu, þroska og líðan barns ásamt læknisfræðilegum greiningum. Jafnframt kemur fram að TR telji ekki ástæðu til að véfengja þau gögn er komi frá viðurkenndum fagaðilum á sínu sviði, enda byggi mat stofnunarinnar að mestu á tilteknum greiningum fagfólks.

Að mati Persónuverndar verða stjórnvöld almennt að geta treyst því að þær upplýsingar sem önnur stjórnvöld láta þeim í té samkvæmt lagaskyldu séu áreiðanlegar. Ekki verður þannig séð að það sé almennt á færi stjórnvalda að sannreyna slíkar upplýsingar.“

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 á hinn skráði rétt til upplýsinga um vinnslu, hvort sem persónuupplýsinga er aflað hjá honum sjálfum eða ekki, svo og rétt til aðgangs að persónuupplýsingum um sig samkvæmt fyrirmælum 13.–15. gr. reglugerðarinnar með þeim undantekningum sem greinir í 3. mgr. Með ákvæðinu er hinum skráða gert kleift að neyta réttinda sem honum eru tryggð samkvæmt lögunum og reglugerðinni, svo sem réttarins til leiðréttingar, til að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, til eyðingar persónuupplýsinga og réttarins til að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sig.

Þegar persónuupplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða sjálfum ber almennt að veita honum fræðslu í samræmi við 14. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þetta á hins vegar ekki við ef lagaheimild stendur til skráningar eða miðlunar upplýsinganna, sbr. c-lið 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Þá hefur verið lagt til grundvallar að ábyrgðaraðila beri almennt ekki skylda til að eigin frumkvæði að gefa hinum skráða kost á að leiðrétta persónuupplýsingar heldur skuli beiðni um leiðréttingu koma frá hinum skráða. Sjá Databeskyttelsesforordningen og databeskyttelsesloven med kommentarer. Kaupmannahöfn 2020, bls. 537.

Fyrir liggur að persónuupplýsingarnar um yður sem þér teljið rangar eða ósannreyndar voru fengnar frá Kópavogsbæ og unnar í tengslum við umsókn barnsmóður yðar um umönnunarbætur vegna sonar yðar á grundvelli 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, til að fá sem heildstæðasta mynd af aðstöðu, þroska og líðan barnsins ásamt læknisfræðilegum greiningum. Vinnsla Tryggingastofnunar á persónuupplýsingum um yður í tengslum við málið átti sér stoð í fyrrgreindri lagaheimild auk viðhlítandi heimilda í persónuverndarlögum, eins og nánar greinir í úrskurði Persónuverndar. Í úrskurðinum lagði Persónuvernd áherslu á framangreint og taldi jafnframt ekki forsendur til að rengja að Tryggingastofnun hefði uppfyllt skyldu sína um að veita yður aðgang að persónuupplýsingum yðar í tengslum við málið. Þá taldi Persónuvernd ekki að Tryggingastofnun hefði brotið gegn lögum nr. 90/2018 með því að hafa ekki upplýst yður sérstaklega um vinnslu eða söfnun persónuupplýsinga hjá stofnuninni í tengslum við umsóknir barnsmóður yðar um umönnunarbætur fyrir son yðar.

Af úrskurðinum fæ ég þannig ráðið að Persónuvernd hafi ekki talið að Tryggingastofnun hafi borið að sannreyna persónuupplýsingar um yður sem fram komu í gögnum frá Kópavogsbæ í tengslum við vinnslu umsóknar barnsmóður yðar um umönnunarbætur fyrir son yðar í umrætt sinn en lagt áherslu á að yður hafi verið veittur umbeðinn aðgangur að persónuupplýsingum um yður í því skyni að þér getið gætt réttinda yðar, svo sem með beiðni um leiðréttingu ef þér telduð tilefni til.

Að virtum lagagrundvelli málsins og þeim gögnum sem þér hafið afhent með kvörtuninni tel ég að athugasemdir yðar við framangreinda afstöðu Persónuverndar og úrskurð hennar í máli nr. 2020010721 gefi ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu stofnunarinnar í honum.

   

III

Að öllu framangreindu virtu tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Með vísan til þess lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.