Félagsþjónusta sveitarfélaga. Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir.

(Mál nr. 11039/2021)

Kvartað var yfir velferðarsviði Reykjavíkurborgar og tiltekinni þjónustumiðstöð.

Að fengnum upplýsingum frá Reykjavíkurborg taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 14. apríl sl., sem beinist að velferðarsviði Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöð X. 

Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni hafði ekki verið litið til með yður síðan þér fenguð heilablóðfall 15. mars sl. og voruð lagðir inn á Landspítalann. Jafnframt kom fram að þér telduð yður ekki geta sinnt verkefnum sem yður bæri að sinna samkvæmt húsaleigusamningi yðar við Félagsbústaði hf. um íbúð í [...] og ættuð yfir höfði yðar að samningnum yrði rift. Þá gerðuð þér einnig athugasemdir við að þér hefðuð enga þvottaaðstöðu.

Í tilefni af kvörtun yðar var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf, dags. 16. apríl sl., þar sem óskað var eftir tilteknum upplýsingum vegna málsins og fenguð þér afrit af því bréfi. Nú hefur borist svarbréf frá Reykjavíkurborg, dags. 18. maí sl., sem fylgir hér hjálagt í ljósriti. 

Að fengnum þeim upplýsingum sem fram koma í bréfi Reykjavíkurborgar tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.     

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.