Ríkisborgararéttur. Tafir á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11060/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

Að fengnum skýringum hjá Útlendingastofnun og að umsóknin hefði verið tekin til afgreiðslu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar vegna tafa á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn yðar um veitingu íslensks ríkisborgararéttar á grundvelli III. kafla laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt.

Í tilefni af kvörtuninni var Útlendingastofnun ritað bréf, dags. 4. maí sl., þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Með bréfi, dags. 20. maí sl., bárust svör Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að eftir að dómsmálaráðuneytið vísaði málinu að nýju til stofnunarinnar hafi það verið ranglega skráð. Það hafi m.a. haft þær afleiðingar að fyrirspurnir yðar um stöðu málsins hafi ekki borist á réttan stað. Þá kemur fram í svörum stofnunarinnar að þessi mistök hafi nú verið leiðrétt og umsókn yðar verið tekin til meðferðar. Auk þess hafi stofnunin beðið yður afsökunar á þessum mistökum og að verklag vegna sambærilegra mála hafi nú verið tekið til endurskoðunar.

Þar sem fyrir liggur að Útlendingastofnun hefur nú tekið umsókn yðar til afgreiðslu og beðist afsökunar á ofangreindum mistökum tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.