Börn. Meðlag. Sérstakt framlag vegna útgjalda. Hæfi.

(Mál nr. 11088/2021)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytis og undanfarandi úrskurði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Með úrskurði ráðuneytisins var viðkomandi gert að greiða barnsmóður sinni fé vegna tannréttinga dóttur þeirra.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að ekkert benti til þess að fulltrúi sýslumanns hefði verið hlutdrægur í málinu. Sama gilti um niðurstöðu ráðuneytisins hvað snerti heimild móður til að krefjast greiðslu úr hendi föður vegna útgjaldanna.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, dags. 12. maí sl., yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins í máli [...] og undanfarandi úrskurði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Með úrskurði ráðuneytisins var umbjóðanda yðar gert að greiða barnsmóður sinni (hér eftir vísað til sem „móður“) [tiltekna fjárhæð] vegna tannréttinga dóttur þeirra.

Í kjölfar kvörtunar yðar hafði starfsmaður skrifstofu minnar samband við yður símleiðis 18. maí sl. og óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum sem veittar voru samdægurs.

 

II

1

Af kvörtun yðar og gögnum málsins má ráða að þér gerið í fyrsta lagi athugasemdir við sérstakt hæfi fulltrúa sýslumanns, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þeim efnum er vísað til þess að fulltrúi sýslumanns hafi bent móður á í tölvupósti 23. september sl. að framlagðir reikningar væru hærri en krafa hennar á hendur umbjóðanda yðar. Hún hafi í kjölfarið hækkað kröfuna. Fulltrúi sýslumanns hafi með ummælum sínum farið út fyrir leiðbeiningarskyldu sína, hvatt móður til að hækka kröfuna og sýnt af sér hlutdrægni. Hann hafi þannig haft óeðlileg afskipti af málinu.

Um sérstakt hæfi er fjallað í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1.-6. tölul. 1. mgr. 3. gr. er vikið að vanhæfisástæðum en í 6. tölul. er að finna matskennda hæfisreglu. Þar segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Starfsmaður getur á grundvelli ákvæðisins meðal annars orðið vanhæfur til meðferðar máls ef ummæli hans eða framkoma þykja bera vott um óvild í garð málsaðila sem og ef háttsemi hans verður talin ósamrýmanleg stöðu hans í máli. Hið síðarnefnda á ekki síst við þegar tveir aðilar eru að máli með andstæða hagsmuni og athafnir starfsmanns virðast veita vísbendingu um að hann sé vilhallur öðrum aðilanum, lítilsvirði málstað hans, láti orð falla um ótrúverðugleika hans eða viðhafi önnur ummæli sem ekki samrýmast stöðu hlutaðeigandi starfsmanns, sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson: Hæfisreglur stjórnsýslulaga, Reykjavík 2005, bls. 633-634.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji ekkert í gögnum málsins benda til þess að fulltrúi sýslumanns hafi verið hlutdrægur í málinu. Hann hafi einungis óskað eftir frekari upplýsingum þar sem kröfugerð móður hafi stangast á við þau gögn sem lögð voru fram með beiðni hennar um sérstakt framlag úr hendi föður. Um hafi verið að ræða eðlilegan lið í rannsókn málsins sem og leiðbeiningar til aðila máls, sbr. 7 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Eftir að hafa kynnt mér umrædd tölvupóstsamskipti tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins að þessu leyti. Hef ég hér einkum í huga að ekki verður ráðið af umræddum ummælum fulltrúa sýslumanns að þau beri vott um óvild í garð umbjóðanda yðar eða að þau geti talist ósamrýmanleg stöðu hans í málinu. Af samskiptunum verður ráðið að tilgangur þeirra hafi verið að upplýsa betur um kröfu móður, einkum hvernig hún hafi verið reiknuð, og að hliðsjón hafi verið höfð af þeirri meginreglu sem fylgt hefur verið í framkvæmd í málum sem þessum, þ.e. að foreldrar skuli bera kostnað til helminga.

2

Í öðru lagi eru gerðar athugasemdir við forsendur og niðurstöðu ráðuneytisins í málinu. Annars vegar er byggt á því að móðir hafi ekki svarað til útgjalda vegna tannréttinga barnsins heldur hafi móðuramma barnsins lagt út fyrir kostnaðinum. Ákvæði 60. gr. barnalaga nr. 76/2003 og athugasemdir er fylgdu ákvæðinu geri ráð fyrir því að einungis sá sem svarað hefur til útgjalda geti haft uppi kröfu á hendur hinu meðlagsskylda foreldri. Hins vegar er á því byggt að skýrt samkomulag hafi ríkt milli móður og umbjóðanda yðar um að stúlkan undirgengist tannréttingar á þeim forsendum að foreldrar móður bæru kostnað af þeim. Móðir hafi þannig afsalað sér kröfurétti á hendur umbjóðanda yðar vegna umræddra tannréttinga.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003 er foreldrum skylt, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skal hagað með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnalaga er heimilt að úrskurða þann sem meðlagsskyldur er til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við meðal annars tannréttingar barns. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að barnalögum segir að framlög sem innt séu af hendi samkvæmt 60. gr. tilheyri þeim sem svarað hefur til útgjaldanna. Þau séu því ekki meðlag sem tilheyri barni, sbr. 2. mgr. 63. gr. frumvarpsins. (Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 949.)

Í úrskurði ráðuneytisins er byggt á því að fyrir liggi að umbjóðandi yðar sé meðlagsskyldur með umræddu barni. Reikningar vegna tannréttinga barnsins hafi verið gefnir út til forsjármanna og ljóst sé að móðir fari með forsjá barnsins ásamt föður. Auk þess liggi fyrir að barnið hafi átt lögheimili hjá móður þegar meðferðin hafi farið fram og að móðir hafi lagt fram frumrit reikninganna. Móðir sé því réttur aðili til að krefjast endurgreiðslu úr hendi föður samkvæmt umræddum reikningum. Ekki hafi þýðingu þótt fé til greiðslu þeirra hafi komið frá ömmu barnsins.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins að því er varðar heimild móður til þess að krefjast greiðslu úr hendi föður vegna umræddra útgjalda. Hef ég hér einkum hliðsjón af því að reikningar vegna útgjaldanna voru gefnir út til forsjármanns barnsins og móðir hafði lagt fram frumrit þeirra í málinu. Einnig hef ég haft hliðsjón af því að af gagni sem dagsett er 5. ágúst sl. frá tannlækni barnsins megi ráða að móðir hafi gert samning um fastar mánaðarlegar greiðslur fyrir ógreiddum reikningum á þeim tíma. Ekki verður því annað ráðið af gögnum málsins en að móðir hafi svarað til umræddra útgjalda og borið ábyrgð á því að reikningar vegna meðferðarinnar yrðu greiddir. Það hvernig réttarsambandi móður og ömmu barnsins er háttað, þ.e. hvort hún hafi fengið fé að láni til þess að mæta útgjöldunum eða gjöf, breytir ekki þeirri niðurstöðu.

Auk framangreinds kom fram í samtali yðar við starfsmann skrifstofu minnar og gögnum málsins að ekki liggur fyrir skriflegt samkomulag milli umbjóðanda yðar og móður þar sem hún afsalar sér kröfurétti á hendur honum vegna tannréttinga barns þeirra. Þá verður ekki heldur ráðið af þeim ummælum móður sem þér vísið til í tölvubréfi til skrifstofu minnar 18. maí sl. eða öðrum gögnum málsins að hún hafi viðurkennt að slíkt samkomulag hafi verið gert milli foreldra. Með hliðsjón af því tel ég ekki forsendur til að fjalla frekar um það atriði í kvörtun yðar, þ.m.t. um hvort slíkt samkomulag, væri það fyrir hendi, hefði þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

   

III

Með vísan til þess sem að framan greinir lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.