Kvartað var yfir ákvörðun sjúkratryggingastofnun um að synja umsókn um þátttöku í kostnaði við tannlækningar.
Í kvörtuninni kom fram að ákvörðunin hefði ekki verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála innan frests. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið erindið til athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar frá 23. maí sl. sem beinist að sjúkratryggingastofnun vegna ákvörðunar frá 11. febrúar sl. um að synja umsókn yðar um þátttöku í kostnaði við tannlækningar samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að sá sem telur sig rangindum beittan af hálfu aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur leitað til hans með kvörtun. Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er hins vegar kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Litið hefur verið svo á að þessi regla gildi jafnframt um þau tilvik þar sem kærufrestur hefur liðið án þess að kæruheimild hafi verið nýtt, nánar tiltekið að umboðsmanni sé ekki heimilt að taka mál til athugunar á grundvelli kvörtunar þegar sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að kæra hafi komið fram.
Í kvörtun yðar kemur fram að þér hafið ekki kært ákvörðunina innan frests [til úrskurðarnefndar velferðarmála]. Bresta því skilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til athugunar, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.
Vegna afstöðu yðar um að ekki hafi verið litið til tiltekinna gagna við meðferð málsins hjá sjúkratryggingastofnun bendi ég yður á að ef þér teljið að þau hafi þýðingu getið þér leita á ný til sjúkratryggingastofnunar og koma sjónarmiðum yðar að þessu leyti á framfæri. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð slíkt erindi ætti að hljóta hjá stofnuninni.
Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni á málinu.