Samningar. Neytendamál.

(Mál nr. 11116/2021)

Kvartað var yfir skilmálum tiltekins vildarkorts og spurt hvort jafnræðisreglur komi í veg fyrir að félagsmönnum með lögheimili á tilteknu landsvæði sé veittur afsláttur hjá fyrirtækjum á svæðinu.

Þar sem starfsemi félagsins fellur utan starfssviðs umboðsmanns og ekki er gert ráð fyrir að hann veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið erindið til athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 23. maí sl. sem beinist að X yfir skilmálum [vildarkorts] sem veitir félagsmönnum með lögheimili á afmörkuðu svæði landsins afslætti hjá fyrirtækjum á svæðinu. Þér varpið fram spurningu um hvort jafnræðisreglur komi í veg fyrir slíkt fyrirkomulag sem þér teljið fela í sér mismunun eftir búsetu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðs­manns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur aðila sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. þeirra hafa beitt sig rangsleitni borið fram kvörtun við umboðsmann. Kvörtun verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda eða annarra aðila sem falla undir starfssvið umboðsmanns sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi.

X er samvinnufélag og starfar því á einka­réttar­legum grundvelli. Starfsemi X fellur því utan starfssviðs míns enda felur hún ekki í sér beitingu opinbers valds sem þessum aðila hefur verið fengið með lögum. Af framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir jafnframt að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum. Bresta því skilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til athugunar.

Ég tel hins vegar rétt að benda yður á að Neytendastofa starfar að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála og meðal verkefna hennar er að stuðla að fræðslu til almennings um neytendamál, sbr. 2. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu. Ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að leita með erindi til stofnunarinnar. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð slíkt erindi ætti að hljóta hjá Neytendastofu.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.