Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 11118/2021)

   

Kvartað var yfir velferðarsviði Reykjanesbæjar og synjun sveitarfélagsins á beiðni um fjárhagsaðstoð.

Þar sem málinu hafði ekki verið vísað til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjanesbæjar og síðan til úrskurðarnefndar velferðarmála hafði kæruleið ekki verið tæmd. Þar með voru ekki skilyrði til að  umboðsmaður gæti fjallað um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. maí 2021, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til erindis yðar, dags. 24. maí sl., sem beinist að velferðarsviði Reykjanesbæjar og lýtur að synjun sveitarfélagsins á beiðni yðar um fjárhagsaðstoð.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að samkvæmt reglum velferðarsviðs Reykjanesbæjar frá árinu 2017 hefur umsækjandi um fjárhagsaðstoð fjórar vikur til að vísa máli sínu til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjanesbæjar. Ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar er síðan hægt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þér getið því freistað þess að skjóta ákvörðun velferðarsviðs Reykjanesbæjar um að synja yður um fjárhagsaðstoð til áfrýjunarnefndarinnar, eftir atvikum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Teljið þér yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þess efnis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing.