Skattar og gjöld. Dýr.

(Mál nr. 11121/2021)

   

Kvartað var yfir innheimtu hundaleyfisgjalds í Reykjanesbæ og að hundaeigendur þyrftu einir gæludýraeigenda að greiða leyfisgjald. Þetta fæli í sér mismunun og bryti gegn jafnræði.

Þar sem málinu hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði kæruleið ekki verið tæmd. Þar með voru ekki skilyrði til að  umboðsmaður gæti fjallað um það.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 21. maí sl. sem lýtur að innheimtu hundaleyfisgjalds í Reykjanesbæ fyrir árið 2021. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við að eigendur hunda þurfi að greiða leyfisgjald en ekki eigendur annarra gæludýra svo sem hesta, katta eða kanína. Teljið þér að gjaldið feli í sér mismunun og brjóti gegn jafnræði.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, geta sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en koma fram í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds, sbr. 1. tölul. ákvæðisins. Þá segir í 5. mgr. 59. gr. að heimilt sé sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda samkvæmt 1. mgr. 59. gr. Gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Samkvæmt 1. gr. samþykktar nr. 428/1987, um hundahald á Suðurnesjum, með síðari breytingum, er hundahald bannað í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðsneshreppi, Garðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnarhreppi. Í 2. gr. er mælt fyrir um heimild sveitarstjórna til að veita undanþágu frá hundahaldi að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þar á meðal að greiða skuli leyfisgjald fyrir þá hunda sem undanþága er veitt fyrir sem sveitarstjórnir á Suðurnesjum ákveða í sérstakri gjaldskrá sem umhverfisráðherra staðfestir. Samkvæmt gjaldskrá fyrir hundahald á Suðurnesjum nr. 176/2021 er árgjald fyrir að halda hund, sbr. 2. gr. samþykktar nr. 428/1987, með síðari breytingum, 18.695 krónur

Í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Í samræmi við framangreint tel ég rétt að þér freistið þess að bera málið undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála áður en þér leitið til mín með kvörtun. Í því sambandi vek ég athygli yðar á að samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sem kærð er. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu nefndarinnar, www.uua.is. Ef þér teljið yður beitta rangsleitni að fengnum úrskurði nefndarinnar getið þér leitað til mín með nýja kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.