Almannavarnir. Heilbrigðismál. COVID-19. Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 11129/2021)

   

Kvartað var yfir að þingpallar væru lokaðir þrátt fyrir tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19.  

Þar sem störf Alþingis og stofnana þess falla utan starfssviðs umboðsmanns voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Hann vakti þó athygli á að pallarnir hefðu nú verið opnaðir.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar frá 26. maí sl. þar sem þér kvartið yfir því að enn sé lokað fyrir aðgengi að þingpöllum Alþingis þrátt fyrir þær tilslakanir sem gerðar hafa verið á sóttvarnaráðstöfunum vegna heimsfaraldurs COVID-19, þ. á m. þeim er lúta að samkomutakmörkunum, sbr. reglugerð nr. 587/2021, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tók gildi 25. maí sl.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 falla störf Alþingis og stofnana þess utan starfssvið umboðsmanns. Þar sem kvörtun yðar lýtur að aðgengi að Alþingishúsinu er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég taki hana til frekari umfjöllunar.

Ég vil þó einnig vekja athygli yðar á því að þingpallar Alþingis hafa nú verið opnaðir, sjá um það tilkynningu á vefsíðu Alþingis, www.althingi.is, frá 26. maí.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.