Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Embættismaður. Mat á hæfni umsækjenda. Málefnaleg sjónarmið.

(Mál nr. 10301/2019)

Kvartað var yfir ákvörðun félags- og barnamálaráðherra um skipun í embætti skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu.

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til athugasemda við efnislega niðurstöðu ráðgefandi hæfnisnefndar. Hann taldi einnig að þótt þekking á tilteknum málefnum sem heyra undir skrifstofuna hefði ekki verið meðal þeirra krafna sem fram komu berum orðum í auglýsingu um embættið gæti ekki talist ómálefnalegt, við þær aðstæður að hæfnisnefnd hefði ekki gert upp á milli tveggja hæfustu umsækjendanna, að líta einnig til reynslu og þekkingar umsækjenda að þessu leyti enda tengdist það hæfni þeirra til gegna embættinu.

Þá féllst umboðsmaður ekki á þá athugasemd í kvörtuninni að ráðherra hefði borið skylda til að gefa þeim umsækjanda, sem ekki hafði starfað hjá honum áður, kost á sérstöku viðtali við sig til viðbótar viðtali við hæfnisnefndina áður en hann tók ákvörðun. Að lokum taldi umboðsmaður kvörtunina ekki gefa sér tilefni til að taka athugasemdir um mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana og óhlutdrægni til frekari athugunar.    

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti dags. 3. júní 2021.