Atvinnuleysistryggingar. Endurkrafa ofgreiddra bóta.

(Mál nr. 10926/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar, sem úrskurðarnefnd velferðarmála hafði staðfest, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í kjölfar bréfaskipta umboðsmanns við úrskurðarnefndina kom fram að úrskurðarnefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að endurupptaka málið í ljósi nýrra upplýsinga. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 30. janúar sl., yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september sl., um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til yðar og innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sem úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti með úrskurði sínum frá 28. janúar sl. í máli nr. 491/2020.

Í tilefni af kvörtun yðar voru úrskurðarnefnd velferðarmála rituð tvö bréf, dags. 3. febrúar og 16. apríl sl., þar sem óskað var eftir annars vegar öllum gögnum málsins og hins vegar tilteknum upplýsingum og skýringum. Mér barst svarbréf frá nefndinni, dags. 26. maí sl., þar sem fram kom að nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að endurupptaka mál yðar í ljósi nýrra upplýsinga frá Vinnumálastofnun um hjúskaparstöðu yðar.

Í ljósi þess að nefndin hefur endurupptekið mál yðar tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna þess að svo stöddu og læt því athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu er yður fært að leita til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.