Kvartað var yfir að Samtök fjármálafyrirtækja brytu gegn lögum um grunnskóla með skólaheimsóknum og fræðslu um fjármálalæsi. Kennarar með kennsluréttindi ættu að annast kennslu barna.
Ekki varð ráðið af erindinu að það lyti að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem hefði beinst að viðkomandi sérstaklega heldur væri fremur um að ræða ábendingu um hvernig fræðslu um fjármálalæsi í grunnskólum væri háttað og þá hvort aðkoma einkaaðila samrýmdist lögum um grunnskóla. Þar af leiðandi voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um erindið sem kvörtun. Hann benti hins vegar á að ef viðkomandi teldi tilefni til þá færi mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem grunnskólalögin tækju til. Einnig hefði umboðsmaður barna það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra og öllum væri heimilt að leita til hans.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. júní 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til erindis yðar til mín, dags. 27. maí sl., sem þér beinið að Samtökum fjármálafyrirtækja og lýtur að því að samtökin, í gegnum fræðsluvettvanginn Fjármálavit, brjóti gegn lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, með skólaheimsóknum og fræðslu um fjármálalæsi á grunnskólastigi. Vísið þér til þess að þér leggið fram kvörtunina sem kennari í grunn- og framhaldsskóla og lögum samkvæmt séu það kennarar, sem aflað hafa sér kennsluréttinda, sem annast eigi kennslu barna.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.
Af erindi yðar fæ ég ekki ráðið að það lúti að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beinst hafi að yður sérstaklega heldur sé þar fremur um að ræða ábendingu um hvernig fræðslu um fjármálalæsi í grunnskólum sé háttað og þá hvort aðkoma einkaaðila á borð við Samtök fjármálafyrirtækja samrýmist lögum nr. 91/2008. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar sem kvörtun. Ábendingunni verður þó, eins og öðrum ábendingum sem berast umboðsmanni Alþingis, haldið til haga.
Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www. umbodsmadur.is.
Ég bendi yður jafnframt á að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/2008 fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til. Þar er m.a. mælt fyrir um að ráðherra hafi eftirlit með gæðum skólastarfs og annist öflun, greiningu og miðlun upplýsinga. Þá hefur ráðuneyti hans eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur samkvæmt þeim og aðalnámskrá kveða á um. Þessu til viðbótar hefur embætti umboðsmanns barna það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem nánar greinir í lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994 skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Þá er öllum heimilt að leita til umboðsmanns barna með erindi sín og tekur hann mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum og ákveður hann sjálfur hvort ábending gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna.
Í samræmi við framangreint kann yður að vera fært, teljið þér tilefni til, að koma athugasemdum yðar á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra og/eða umboðsmann barna. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá framangreindum stjórnvöldum.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á erindi yðar.