Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11069/2021)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og kröfu hennar um endurgreiðslu ofgreiddra uppbóta á örorkulífeyri við tilteknar aðstæður.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum voru ekki forsendur fyrir hann til að taka málið til athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 3. maí sl. sem beinist að Tryggingastofnun og lýtur að kröfu stofnunarinnar um endurgreiðslu ofgreiddra uppbóta á örorkulífeyri við tilteknar aðstæður.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að sá sem telur sig rangindum beittan af hálfu aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis getur borið fram kvörtun við umboðsmann, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Af framangreindum lagaákvæðum leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns Alþingis nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórn-sýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Af þessu leiðir jafnframt að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum  þótt vitaskuld sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann athugasemdum við almenn atriði í stjórnsýslunni.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er jafnframt kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðandi sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Litið hefur verið svo á að þessi regla gildi jafnframt um þau tilvik þar sem kærufrestur hefur liðið án þess að kæruheimild hafi verið nýtt, nánar tiltekið að umboðsmanni sé ekki heimilt að taka mál til athugunar á grundvelli kvörtunar þegar sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en ekki gert það.

Með kvörtun yðar fylgdi afrit af tilkynningu Tryggingastofnunar  til yðar frá 3. júní 2020 um að bótaréttur yðar fyrir árið 2020 hafi verið endurreiknaður á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar og að fyrir liggi ofgreiðsla sem verði innheimt að loknu uppgjöri bóta ársins sem áætlað sé að fari fram haustið 2021. Leiðbeint er um kæruleið til úrskurðarnefndar velferðarmála en af kvörtun yðar verður ekki ráðið hvort þér kærðuð ákvörðunina til nefndarinnar.

Að því marki sem erindi yðar beinist að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 3. júní 2020 bresta skilyrði til þess að ég geti tekið það til athugunar á grundvelli kvörtunar, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Eins og ég skil erindi yðar létuð þér afrit af ákvörðuninni þó fremur fylgja með sem dæmi til að styðja kvörtunina sem er sett fram með almennum hætti. Af því tilefni tek ég fram að þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www. umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.