Óskað var liðsinnis umboðsmanns við að losna úr fangelsi vegna veikinda og gerðar athugasemdir við að Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðuneyti hefðu ekki svarað erindum um náðun.
Af hálfu stjórnvalda kom fram að Fangelsismálastofnun hefði svarað beiðni viðkomandi um hlé á afplánun og leiðbeint um mögulegt framhald málsins. Þá væri beiðni um náðun til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu. Þar sem hvorugt erindið hafði verið leitt til endanlegra lykta í stjórnsýslunni brast skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið það til meðferðar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. júní 2021, sem hljóðar svo:
I
Vísað er til erindis yðar, dags. 6. maí sl., þar sem þér óskið aðstoðar minnar við að vera látin laus úr fangelsi vegna veikinda. Þér gerið jafnframt athugasemdir við að erindum yðar í þá veru hafi ekki verið svarað af hálfu Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytisins. Í símtali við starfsmann skrifstofu minnar 12. maí sl. kom fram að þér hefðuð sent báðum stjórnvöldum a.m.k. tvö bréf þar sem þér óskuðuð eftir náðun en ekki borist nein svör.
Í tilefni af kvörtun yðar var Fangelsismálastofnun og dómsmálaráðuneytinu ritað bréf, dags. 20. maí sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort erindi yðar hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Svör bárust mér, dags. 28. maí og 3. júní sl., og fylgir afrit af þeim í ljósriti.
II
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er úrbóta hjá aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.
Í svarbréfi Fangelsismálastofnunar, dags. 28. maí sl., kom m.a. fram að þér hefðuð óskað eftir að hlé yrði gert á afplánun yðar. Fangelsismálastofnun hefði synjað beiðni yðar með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi nægar ástæður til að víkja frá meginreglu 19. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, um að afplánun refsingar skuli vera samfelld. Yður var í kjölfarið leiðbeint um að þér gætuð lagt fram frekari gögn, svo sem læknisvottorð, og að málið yrði þá endurskoðað. Jafnframt að yður væri heimilt að kæra ákvörðun Fangelsismálastofnunar til dómsmálaráðuneytisins.
Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 3. júní sl., kom fram að beiðni yðar um náðun væri enn til meðferðar.
Í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti, að svo stöddu, fjallað um annars vegar synjun Fangelsismálastofnunar á beiðni yðar um hlé á afplánun og hins vegar beiðni yðar um náðun.
Fari svo að þér kærið ákvörðun Fangelsismálastofnunar til dómsmálaráðuneytisins og þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess er yður fært að leita til mín á ný innan árs af því tilefni. Hið sama á við ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni úrlausn dómsmálaráðuneytisins um náðunarbeiðni yðar.
III
Í ljósi þess sem að framan er rakið lýk ég hér með athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.