Heilbrigðismál. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11107/2021)

Umboðsmanni bárust á þriðja tug ábendinga og kvartana af sama meiði vegna fyrirkomulags skimunar fyrir leghálskrabbameini og þeirra breytingar sem gerðar voru á því hér á landi síðustu mánuði.

Af ýmsum ástæðum voru ekki skilyrði að lögum til að umboðsmaður gæti tekið erindin til formlegrar athugunar. Meðal annars þar sem starfssvið hans tekur almennt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og því ekki gert ráð fyrir að hann fjalli um mál á sama tíma og það er til meðferðar þar. Hvað biðtíma í tengslum við skimanirnar snerti höfðu stjórnvöld upplýst um stöðu mála, beðist afsökunar og að því er virtist gripið til tiltekinna aðgerða til að bæta úr töfum.

    

Lauk umboðsmaður málunum öllum með samhljóða bréfi, dags. 11. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Í fréttaflutningi síðustu vikur hefur verið fjallað nokkuð um skipulag og fyrirkomulag skimunar fyrir leghálskrabbameini og þær breytingar sem hafa verið gerðar á því hér á landi á síðustu mánuðum. Umboðsmanni Alþingis hefur jafnframt borist nokkur fjöldi ábendinga og kvartana sem tengjast þessum málum að undanförnu, og er erindi yðar þar á meðal. Saman­dregið má segja að þær lúti einkum að því að sýni séu nú send til Danmerkur til rannsóknar og m.a. byggt á að slíkt auki hættu á mistökum. Jafn­framt eru þar gerðar athugasemdir við langan biðtíma eftir niðurstöðum og að það skorti á upplýsingagjöf fyrir þær konur sem eiga í hlut.

   

II

1

Af hálfu umboðsmanns hefur verið fylgst með framvindu málsins og aflað upplýsinga um stöðuna almennt. Í því sambandi má benda á að fyrir liggur að Alþingi samþykkti að óska eftir skýrslu heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leg­hálsi 2. mars sl. Sjá 151. löggj.þ. 2020-2021, þskj. 940. Í beiðni þingsins er óskað eftir að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um forsendur og áhrif breytinga á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Í skýrslunni á m.a. að koma fram hvaða forsendur bjuggu að baki þeirri ákvörðun að semja við erlenda rannsóknarstofu um að sinna greiningu á sýnum og samráð í aðdraganda þess, áhrif breytinga á öryggi og kostnað við greiningu sýna. Heilbrigðisráðherra fól í kjöl­farið óháðum aðila að vinna skýrslu og er gert ráð fyrir að henni verði skilað í byrjun júní. Ráðherra hefur jafnframt lýst því yfir á þingi að beðið sé eftir umræddri skýrslu og að hún geti hjálpað til og verið leiðarvísir í því hvaða skref sé rétt að stíga næst.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur almennt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis. Í því sambandi minni ég á að starf umboðsmanns er hluti af því eftirliti sem Alþingi hefur með starfsemi stjórnsýslunnar. Er því ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem á sama tíma er til meðferðar hjá Alþingi eða stofnunum þess. Það getur síðan farið eftir lyktum slíkra mála og afmörkun á vettvangi Alþingis hvort og að hvaða marki umboðsmaður tekur þau til athugunar og þá með hliðsjón af starfs­sviði hans.

Auk framangreinds er í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórn­valds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er úrbóta hjá aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um málefni sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ljóst er að sá þáttur málsins er lýtur að fyrrnefndum atriðum um stjórn og skipulag skimana er til skoðunar af hálfu stjórnvalda að til­stuðlan Alþingis. Með hliðsjón af hlutverki umboðsmanns tel ég því ekki rétt að taka þessi atriði til frekari skoðunar, a.m.k. ekki að svo stöddu. Ég mun þó áfram fylgjast með gangi mála og meta hvort tilefni sé síðar til að bregðast við. Það gæti m.a. orðið á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 sem veitir umboðsmanni heimild til að taka mál til skoðunar að eigin frumkvæði. Verði málið tekið til frekari athugunar á þeim grundvelli mun ég hafa þær upplýsingar sem bárust með kvörtun yðar til hliðsjónar. Ég tek fram að ég mun ekki tilkynna yður sérstaklega verði af slíkri athugun en hún verður þá kynnt á heimasíðu embættisins.

2

Þær kvartanir og ábendingar sem hafa borist vegna þessara mála hafa, eins og áður sagði einnig lotið að biðtíma í tengslum við krabba­meins­skimanir hér á landi. Fyrirliggjandi verklag Heilsugæslu höfuðborgar­svæðisins um leghálsskimanir, dags. 22. mars sl., er birt á heimasíðu heilsu­gæslunnar, www.heilsugaeslan.is. Þar er gert ráð fyrir að sýnataka fari fram á öllum heilsugæslustöðvum á landinu og hjá sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknum. Fram kemur að sýnin séu send til Sam­hæfingar­stöðvar krabbameinsskimana sem sendi sýnin til rannsóknar­stofu Hvidovre í Danmörku vikulega. Svartími eigi ekki að vera lengri en 3-4 vikur.

Jafnframt hefur verið upplýst að svartími hafi orðið lengri vegna uppsafnaðra sýna frá fyrri þjónustuaðila, aukins fjölda sýna, Covid-19 og skráningar í skimunarskrá landlæknis. Verið sé að vinna upp tafir og leita lausna á skráningu í skimunarskrá. Biðtími styttist með hverri viku sem líði. Auk þess séu sýni þeirra kvenna sem eiga m.a. sögu um krabba­mein sett í forgang. Stefnt sé að því að uppfylla alþjóðlega gæða­staðla sem kveði á um að 80% kvenna fái niðurstöðu innan fjögurra vikna frá því að sýni var tekið og að allar konur fái niðurstöðu innan sex vikna. Þessar upplýsingar eru jafnframt að meginstefnu í samræmi við það sem hefur verið upplýst um af hálfu heilbrigðisráðherra á opinberum vettvangi að undanförnu.

Ljóst er að breytingar sem voru gerðar á fyrirkomulagi skimana hér á landi leiddu til tafa á að niðurstöður fengjust innan þeirra tímamarka sem almennt var miðað við. Ég tel rétt að að láta þess getið að ég hef skilning á því að þessi framkvæmd og þær tafir sem hafa orðið á greiningu sýna við breytingarnar hafi valdið óhagræði og vanlíðan fólks og tel mikilvægt að þjónusta af þessu tagi sé almennt í góðu horfi. Ég bendi þó á að athugun umboðsmanns í málum sem þessum lýtur einkum að því að skoða almennt verklag stjórnvalda, t.d. í tengslum við afgreiðslutíma mála, m.a. með því að taka til skoðunar og óska upplýsinga um hvort þau hyggist eða hafi þegar gripið til aðgerða til að bregðast við þeim vanda sem er uppi og geri grein fyrir fyrirætlunum sínum.

Í ljósi þess sem að framan er rakið sem og þess að stjórnvöld hafa þegar upplýst um stöðu mála tel ég því ekki tilefni til að taka málshraða í tengslum við niðurstöður skimana á leghálssýnum til nánari skoðunar að svo stöddu. Þar hef ég einkum í huga að ekki verður annað ráðið en að gripið hafi verið til tiltekinna aðgerða til að bæta úr þeim töfum sem urðu við yfirfærsluna og koma framkvæmd skimana til samræmis alþjóð­legu gæðastaðla. Þá liggur fyrir að forstjóri Heilsugæslu höfuðborgar­svæðisins hefur á opinberum vettvangi viðurkennt að betur hefði mátt standa að undirbúningi í þessum efnum og beðist afsökunar vegna málsins í fjölmiðlum. Sama má segja um afstöðu heilbrigðisráðherra sem hefur viðurkennt að yfirfærslan hafi ekki gengið sem skyldi.

3

Af heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ljóst að reglulega hafa verið birtar fréttir síðustu vikur þar sem upplýst hefur verið um stöðu leghálsskimana með almennum hætti auk þess sem algengar spurningar hafa verið teknar saman og birtar.

Í stjórnsýslurétti gildir aftur á móti sú meginregla að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að ef þér hafið sent stjórnvaldi, svo sem Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, skriflegt erindi sem ekki hefur verið svarað er yður fært að leita til mín á nýjan leik af því tilefni að undangenginni ítrekun þar sem þér hafið fylgt málinu eftir. Með kvörtun af því tagi skulu fylgja öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik og samskipti, svo sem tölvupóstar og ítrekanir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, svo hægt sé að meta hvort tilefni sé til að bregðast við af hálfu umboðsmanns.

     

III

Með vísan til alls þess sem er rakið að framan lýk ég hér með athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis. Ég árétta þó að ég mun áfram fylgjast með framvindu þessara mála og taka á ný til skoðunar ef ég tel ástæðu til.