Börn. Sveitarfélög.

(Mál nr. 11138/2021)

Kvartað var yfir svörum frá skrifstofu umboðsmanns barna við erindi.

Eftir að hafa kynnt sér fyrirliggjandi samskipti viðkomandi við skrifstofu umboðsmanns barna og að virtum lögum um embætti umboðsmanns barna, þar sem sérstaklega er tekið fram að umboðsmaður barna ákveði sjálfur hvort ábending gefi tilefni til þess að mál verði tekið til meðferðar af hans hálfu, taldi umboðsmaður Alþingis ekki tilefni til að taka afgreiðslu umboðsmanns barna á erindinu til frekari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar til mín frá 27. maí sl. sem beinist að svörum skrifstofu umboðsmanns barna við erindi yðar frá 11. maí sl. sem laut að því að börn eigi ekki kost á vistun á tveimur frístundaheimilum Reykjavíkurborgar þegar foreldrar þess búa hvort í sínu skólahverfi og barnið á heimili á báðum stöðum.

Umboðsmaður barna starfar á grundvelli laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna er öllum heimilt að leita til umboðsmanns barna með erindi sín en erindi frá börnum njóta forgangs. Í 2. mgr. sama ákvæðis kemur fram að umboðsmaður barna taki mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum. Hann ákveði sjálfur hvort ábending gefur tilefni til meðferðar af hans hálfu. Þá segir í 3. mgr. að umboðsmaður barna taki ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum beri að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Jafnframt kemur fram að umboðsmaður barna endurskoði ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.

Af tölvupóstum umboðsmanns barna til yðar frá 12. og 27. maí sl. verður ráðið að yður hafi verið leiðbeint annars vegar um hvaða leið væri fær innan stjórnsýslunnar til að fá afstöðu til máls barns yðar, þ.e. hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, og um skilyrði þess að erindi sem berast embættinu séu tekin til meðferðar með vísan til framangreindra lagasjónarmiða.

Þegar stjórnvaldi er send ábending um að aðhafast vegna tiltekins málefnis að eigin frumkvæði hefur það verulegt svigrúm til mats á því hvort tilefni sé til slíks. Þótt viðbrögð stjórnvalds við slíku erindi geti komið til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis er það ekki hlutverk hans að leggja á það eigin mat hvort tilefni hefði verið til að taka málefni til meðferðar heldur fyrst og fremst að kanna hvort reglum stjórnsýsluréttarins hafi verið fylgt.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi samskipti yðar við skrifstofu umboðsmanns barna og að virtum þeim lögum sem gilda um embætti umboðsmanns barna, þar sem sérstaklega er tekið fram að umboðsmaður barna ákveði sjálfur hvort ábending gefur tilefni til þess að mál verði tekið til meðferðar af hans hálfu, tel ég ekki tilefni til að taka afgreiðslu hans á erindi yðar til frekari athugunar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.