Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11001/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu stjórnsýslukæru til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.

Að fengnum skýringum nefndarinnar á töfunum og upplýsingum frá henni um að málið hefði verið lagt í farveg og niðurstöðu væri að vænta innan tíðar lauk umboðsmaður athugun sinni. Engu að síður ritaði hann ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra bréf þar sem vakin var athygli á afgreiðslutíma nefndarinnar í málum almennt, spurt hvort ráðuneytinu væri kunnugt um þá stöðu og hvort það teldi nefndina hafa gripið til fullnægjandi ráðstafana eða hvort ráðuneytið hygðist eða hefði gripið til einhverra aðgerða af þessu tilefni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 22. mars sl., f.h. X, þar sem þér kvartið yfir töfum á afgreiðslu áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar á stjórnsýslukæru félagsins, dags. 30. janúar 2019.

Í tilefni af kvörtun yðar voru áfrýjunarnefndinni rituð tvö bréf, dags. 26. mars og 14. apríl sl., þar sem annars vegar var óskað eftir upplýsingum og skýringum um hvað liði afgreiðslu og meðferð málsins og hins vegar að nefndin veitti nánari upplýsingar á þar tilgreindum atriðum.

Mér hafa nú borist svör nefndarinnar, dags. 12. apríl og 6. maí sl. Þar kemur m.a. fram að tafir hafi orðið á afgreiðslu mála hjá nefndinni og þá einkum vegna óvenju mikils fjölda mála sem áfrýjað hafi verið til hennar á árunum 2018 og 2019 og breytinga á starfsfólki sem unnið hafi að umsýslu mála. Þá er tekið fram í bréfi nefndarinnar, dags. 12. apríl sl., að með hliðsjón af málaskrá nefndarinnar megi gera ráð fyrir því að skipaðir verði nefndarmenn í málið og að efnisleg umfjöllun um það hefjist eftir um það bil tvo mánuði. Misjafnt sé hversu langan tíma það taki að ljúka máli eftir að nefndarmenn hafi verið skipaðir, en að jafnaði séu það um tvær til þrjár vikur svo fremi sem ekkert óvænt komi upp.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í samræmi við framangreint er gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli á grundvelli kvörtunar fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það.

Í þeim tilvikum sem umboðsmanni berst kvörtun yfir töfum á afgreiðslu máls hefur almennt, þrátt fyrir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá viðkomandi stjórnvaldi hvað líði meðferð og afgreiðslu málsins ef fyrir liggur að nokkuð er liðið frá því að það kom til meðferðar og sá sem í hlut á hefur sjálfur gengið á eftir afgreiðslu þess með sannanlegum hætti. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgarinn fái sem fyrst vitneskju um stöðu og niðurstöðu máls og geti eftir atvikum hagað eigin viðbrögðum til samræmis við það. Reyndin hefur í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfum og hvenær ráðgert er að afgreiða það. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður athugun sinni á málinu. Vegna fyrrnefnds áskilnaðar 3. mgr. 6. gr. hefur umboðsmaður hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til málsmeðferðar stjórnvalds eða þeirra samskipta sem þar liggja fyrir í máli sem er enn til meðferðar, þ.m.t. hvort málshraði viðkomandi stjórnvalds samrýmist málshraðareglum stjórnsýsluréttarins.

Þessar fyrirspurnir umboðsmanns eru einnig settar fram til þess að fylgjast með því hvort fyrir hendi sé almennur eða kerfislægur vandi hjá stjórnvöldum að því er varðar málshraða. Komi slíkt í ljós eða fyrir liggur að mál hafa dregist óeðlilega og án fullnægjandi skýringa þarf umboðsmaður meðal annars að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að hann ráðist í frekari athugun á málinu að eigin frumkvæði. Við slíkar aðstæður eru hins vegar takmarkanir á því að hvaða marki umboðsmaður getur haft afskipti af einstaka málum.

Af svörum áfrýjunarnefndarinnar verður ekki annað ráðið en að mál umbjóðanda yðar hafi verið lagt í ákveðinn farveg og að niðurstöðu sé að vænta innan tíðar. Þá verður ekki annað ráðið en að ástæður þeirra tafa sem orðnar eru á afgreiðslu málsins séu af almennum orsökum en varða ekki mál umbjóðanda yðar sérstaklega. Í ljósi þessa að þar sem lög nr. 85/1997 gera ekki ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum tel ég því ekki rétt að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu að því leyti sem hún snýr að málshraða nefndarinnar. Ég bendi yður hins vegar á að gangi fyrirætlanir áfrýjunarnefndarinnar um að úrskurða í málinu ekki eftir getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég hef þó ritað áfrýjunarnefndinni hjálagt bréf þar sem ég kem á framfæri tiltekinni ábendingu. Ég tek jafnframt fram að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur verið ritað bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti vegna þeirrar almennu stöðu sem uppi er hjá áfrýjunarnefndinni.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.