Opinberir starfsmenn. Áminning.

(Mál nr. 11085/2021)

Kvartað var yfir áminningu í starfi við framhaldsskóla.

Þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði til meðferðar kvörtun viðkomandi yfir einelti þar sem að hluta til sömu atvik voru til skoðunar og í áminningarmálinu taldi umboðsmaður ekki rétt að fjalla frekar um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til erindis yðar frá 11. maí sl. þar sem þér kvartið vegna áminningar í starfi yðar við X. Tilefni áminningarinnar var nánar tilgreind framkoma yðar í samskiptum við skólameistara og annað samstarfsfólk í skólanum.

Í gögnum sem fylgdu kvörtuninni kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi til meðferðar kvörtun frá yður vegna meints eineltis af hálfu skólameistara X í yðar garð. Fyrir liggur að í þeirri kvörtun eru að hluta til sömu atvik til skoðunar og atvikin sem urðu tilefni áminningarinnar. Við afgreiðslu ráðuneytisins kann því að verða tekin afstaða til sömu atriða og myndi reyna á við athugun umboðsmanns á áminningarmálinu.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Ljóst er að þér ákváðuð að freista þess að bera mál yðar varðandi samskipti við skólameistara undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og að afstaða þess til málsins liggur ekki fyrir. Málið er því til meðferðar hjá stjórnvöldum. Af þessum sökum og í ljósi þess að lög nr. 85/1997 gera ekki ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem enn eru til meðferðar hjá stjórnvöldum á grundvelli kvartana tel ég ekki rétt að fjalla frekar um kvörtun yðar til mín að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek fram að þér getið að sjálfsögðu leitað til mín á ný teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu mennta- og menningarmála-ráðherra. Ef þér leitið til mín á ný jafnskjótt og endanleg afstaða ráðherra liggur fyrir verður litið svo á að kvörtunin hafi borist innan ársfrests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 jafnvel þótt meira en ár kunni að vera liðið frá ákvörðun skólameistara X um að veita yður áminningu.