Skattar og gjöld. Fasteignagjöld. Innheimta. Innheimtukostnaður.

(Mál nr. 11087/2021)

Kvartað var yfir kostnaði vegna innheimtu fasteignagjalda.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að hægt væri bera erindið undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að fengnum svörum sveitarfélagsins. Þar sem unnt væri að skjóta málinu til æðra stjórnvalds væri umboðsmanni ekki kleift að fjalla um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf., dags. 11. maí sl., sem beinist að Grímsnes- og Grafningshreppi og lýtur að kostnaði vegna innheimtu fasteignagjalda. Með kvörtun yðar fylgdi afrit af bréfi til sveitarfélagsins, dags. 10. maí sl. Í bréfinu er þess m.a. krafist að sveitarfélagið endurgreiði A ehf. 1.500.966 kr. auk dráttarvaxta frá 28. apríl sl. Jafnframt að lögfræðikostnaður vegna annarra mála verði felldur niður, að undanskildum útlögðum kostnaði.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður skrifstofu minnar samband við yður símleiðis 9. júní sl. og óskaði eftir upplýsingum um m.a. hvort félaginu hefði borist svar við framangreindu erindi. Því svöruðuð þér neitandi en tókuð fram að þér hefðuð haft samband við sveitarfélagið símleiðis og óskað eftir svörum.

Umboðsmaður Alþingis hefur áður haft mál til meðferðar er lúta að innheimtu opinberra gjalda af hálfu sveitarfélaga og heimildum til að velta kostnaði við hana yfir á skuldara. Í einu þeirra var óskað eftir afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til þess hvort athafnir og ákvarðanir tiltekins sveitarfélags í tengslum við innheimtu fasteignagjalda féllu að mati ráðuneytisins undir stjórn­sýslu­eftirlit þess á grundvelli 111. eða 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í málinu taldi ráðuneytið kvörtun þess aðila eiga undir stjórnsýslu­eftirlit þess. Það vísaði jafnframt til þess að erindi aðilans yrði tekið til meðferðar ef það bærist því.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er úrbóta hjá aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlits­heimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur það til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Í samræmi við framangreint er yður fær sú leið að freista þess að bera erindi yðar, að fengnum svörum sveitarfélagsins, undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Ef félagið telur sig enn beitt rangsleitni að fenginni úrlausn ráðuneytisins er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tel þó rétt að taka fram, í ljósi þess sem fram kom í samtali yðar við starfsmann skrifstofu minnar, að þrátt fyrir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 hefur sú leið verið farin þegar umboðsmanni berst kvörtun yfir töfum á afgreiðslu máls að spyrjast fyrir um hjá viðkomandi stjórnvaldi hvað líði meðferð og afgreiðslu málsins ef fyrir liggur að nokkuð er liðið frá því að það kom til meðferðar og sá sem í hlut á hefur sjálfur gengið á eftir afgreiðslu þess með sannanlegum hætti. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgarinn fái sem fyrst vitneskju um stöðu og niðurstöðu máls og geti eftir atvikum hagað eigin viðbrögðum til samræmis við það. Í samræmi við framangreint getið þér því einnig leitað til mín á ný ef óhóflegur dráttur verður á svörum sveitarfélagsins við erindi yðar frá 10. maí sl., að undangengnum skriflegum ítrekunum.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið tel ég ekki rétt að taka erindi yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.