Rafræn stjórnsýsla. Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11145/2021)

Kvartað var yfir að rafræn skilríki þyrfti til að nota Heilsuveru.

Kvörtuninni fylgdu hvorki gögn um möguleg samskipti viðkomandi við embætti landlæknis né Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins né frekari upplýsingar. Ekki varð ráðið hvort synjað hefði verið um þjónustu sem ekki væri unnt að nálgast með öðrum leiðum en með framvísun rafrænna skilríkja. Með hljóðsjón af málavöxtum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að taka kvörtunina til frekari meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. júní 2021, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 28. maí sl., þar sem þér kvartið yfir því að ekki sé unnt að skrá sig inn á vefsvæði Heilsuveru nema með notkun rafrænna skilríkja, sem þér hafið ekki yfir að ráða. Teljið þér ekki rétt að fólk sé þvingað í viðskipti við einkarekin fyrirtæki til þess nálgast upplýsingar á vefnum, sem sé samstarfsverkefni landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með kvörtuninni fylgdu hvorki gögn um möguleg samskipti yðar við embætti landlæknis eða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins né frekari upplýsingar um kvörtunarefni yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í lögum nr. 85/1997 er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr málum þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur til, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í 6. gr. laganna er að finna skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skal í kvörtun lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar og skulu öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik fylgja kvörtun. Þá leiðir af 3. mgr. 6. gr. að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Hvað varðar notkun á tæknilegum lausnum á borð við rafræn skilríki bendi ég m.a. á ákvæði IX. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 51/2003, og athugasemdir við síðargreindu lögin, en þar er m.a. vikið að skyldu stjórnvalda til að haga rafrænni meðferð mála á þann veg að sem flestir geti nýtt sér það hagræði sem felst í slíkri meðferð. Er þá einkum vísað til vals á þeim vél- og hugbúnaði sem notaður er, svo og þess að halda eigi kostnaði almennings í lágmarki, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga. Lögin eru einnig fortakslaus um að óheimilt sé að einskorða meðferð stjórnsýslumála við rafræna meðferð. Þótt umræddar reglur laganna eigi við um rekstur eiginlegra stjórnsýslumála þar sem fjallað er um rétt og skyldu borgaranna hefur umboðsmaður einnig talið að jafnræðisrök leiði til þess að sambærileg meginregla gildi um veitingu opinberrar þjónustu, þ.e. að borgarinn eigi þess kost að nýta aðrar leiðir en rafrænar til aðgangs.

Af kvörtun yðar fæ ég ekki ráðið hvaða upplýsingar þér hyggist nálgast á vefsvæði Heilsuveru eða hvort yður hafi verið synjað um þjónustu sem yður er ekki unnt að nálgast með öðrum leiðum en með framvísun rafrænna skilríkja. Með hliðsjón af framangreindu tel ég því ekki ástæðu til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Ég tek hins vegar fram að hafi yður verið synjað um þjónustu eða fyrirgreiðslu hjá opinberri stofnun eða gert ókleift að óska eftir henni vegna vegna kröfu um að þér hafið rafræn skilríki getið þér lagt fram kvörtun sem lýtur að því og yrði hún þá tekin til athugunar hjá umboðsmanni með tilliti til þeirra reglna sem gilda um viðkomandi málefni stjórnsýslunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum eins og að nýttar hafi verið þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.