Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11158/2021)

Kvartað var yfir að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi. 

Ekki varð séð að viðkomandi hefði ítrekað erindi sitt við ráðuneytið fyrr en nýverið og taldi umboðsmaður því ekki slíkan drátt hafa orðið á svarinu að ástæða væri til að taka málið til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem hljóðar svo:

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 3. júní sl., þar sem þér kvartið yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki svarað erindi yðar, dags. 6. apríl sl. Erindið laut að [...]. 

     Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í þessum efnum.

Eins og fram kemur í tölvupósti starfsmanns skrifstofu umboðsmanns Alþingis 8. júní sl. tel ég almennt rétt að þeir sem telja tafir vera orðnar á afgreiðslu mála eða meðferð á erindum sem þeir hafa lagt fyrir stjórnvöld leiti fyrst sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda áður en ég tek málið til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Í þessu sambandi tek ég jafnframt fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki hægt að leita til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur tekið afstöðu til málsins. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 2561.) Má segja að það sé í samræmi við framangreint sjónarmið að viðkomandi leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins telji hann drátt vera orðinn á viðbrögðum og gefi þannig stjórnvaldinu færi á að bregðast við ef rétt reynist að um sé að ræða tafir í málinu.

Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum mennta- og menningarmálaráðneytisins við erindi yðar frá 6. apríl sl. að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar. Hef ég þá einkum í huga að af gögnum málsins, þar á meðal tölvubréfi yðar sem barst í kjölfar framangreinds tölvupóst starfsmanns skrifstofu umboðsmanns Alþingis, verður ekki séð að þér hafið ítrekað erindi yðar fyrr en 8. júní sl. Ég tek þó fram, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin, að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á meðferð erindisins. Með kvörtun af því tagi skulu fylgja öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik og samskipti, svo sem tölvupóstar og ítrekanir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, svo hægt sé að meta hvort tilefni sé til að bregðast við af hálfu umboðsmanns

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.